dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn bar 1994.pdf · 2011-01-29 · dewey-flokkunarkerfið 6 i....

68
Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn Bryndís Ísaksdóttir Október 1994 B.A. verkefni nr. 876 Bókasafns- og upplýsingafræði, HÍ Leiðbeinandi: Stefanía Júlíusdóttir

Upload: others

Post on 19-Jun-2020

5 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn

Bryndís Ísaksdóttir Október 1994

B.A. verkefni nr. 876 Bókasafns- og upplýsingafræði, HÍ Leiðbeinandi: Stefanía Júlíusdóttir

Page 2: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

1

Formáli Þessi ritgerð er að mestu unnin sumarið 1994, þótt efnisöflun hafi að hluta til farið fram haustið 1991 á bókasafni Iowa-háskóla í Bandaríkjunum. Erlends efnis var aflað með tölvuleit og leit í fjölmörgum tímaritum um bókasafnsmál. Við öflun íslensks efnis veittu þær Guðrún Karlsdóttir, deildarstjóri á Háskólabókasafni, og Nanna Bjarnadóttir, deildarstjóri á Landsbókasafni, góðfúslega upplýsingar og aðgang að efni í sínum fórum og kann ég þeim þakkir fyrir. Við gerð tilvísana og heimildaskrár er stuðst við reglur bandaríska sálfræðifélagsins (American Psychological Association), eins og þær eru settar fram í Gagnfræðakveri Friðriks H. Jónssonar og Sigurðar J. Grétarssonar, að öðru leyti en því að lágstafir eru notaðir í upphafi orða í titlum nema um eiginnöfn sé að ræða. Leiðbeinanda við ritgerðarsmíðina, Stefaníu Júlíusdóttur, vil ég þakka góð ráð og þá alúð sem hún lagði við yfirlestur verksins.

Page 3: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

2

Efnisyfirlit

Inngangur ...................................................................................... bls. 5 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging .................................. 6 I.1 Saga ............................................................................. 6 Fastaröð ................................................................ 6 Melvil Dewey og upphaf flokkunarkerfis hans ... 6 Útgáfur Dewey-kerfisins ...................................... 7 I.2 Uppbygging ............................................................... 10 Fræðigrein ............................................................ 10 Stigveldi ............................................................... 11 Tugflokkunarkerfi ................................................ 12 Hjálpartöflur ......................................................... 12 Samsetning marktalna .......................................... 15 Efnislykill ............................................................. 16 II. Breytingar á kerfinu ............................................................ 18 II.1 Tilefni breytinga ........................................................ 18 Nýjar greinar ........................................................ 18 Hlutdrægni ........................................................... 18 Kerfið gert nútímalegra ........................................ 19 II.2 Leiðir til breytinga ..................................................... 20 Tilfærslur .............................................................. 20 Útvíkkanir ............................................................ 20 Fönix-flokkar ....................................................... 21 II.3 Framkvæmd breytinga ............................................... 21 II.4 Ágreiningur um breytingar ........................................ 22 Almennt ................................................................ 22 Stafsetning Deweys .............................................. 22 II.5 Vandamál vegna breytinga ........................................ 23 Sóun á tíma og fé ................................................. 23 Viðbrögð við breytingum á kerfinu ..................... 24 Ósamræmi ............................................................ 25

Page 4: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

3

III. Samanburður við önnur kerfi ............................................ 26 III.1 Expansive Classification ........................................... 26 III.2 Universal Decimal Classification .............................. 27 III.3 Subjective Classification ........................................... 28 III.4 Colon Classification .................................................. 29 III.5 Bibliographic Classification ...................................... 29 III.6 Library of Congress Classification ............................ 30 III.7 Samanburður .............................................................. 31 Notkun .................................................................. 31 Útbreiðsla ............................................................. 34 IV. Helstu kostir og gallar Dewey-kerfisins ............................ 35 IV.1 Styrkur kerfisins ........................................................ 35 Notkun í flokkunar- og skráningarmiðstöðvum .. 35 Örugg framtíð kerfisins ........................................ 36 Marktölur ............................................................. 37 Valkostir ............................................................... 37 Efnislykill og handbók .......................................... 37 Kunnugleiki .......................................................... 37 Stöðugleiki ........................................................... 37 IV.2 Veikleikar kerfisins ................................................... 38 Skipulag flokka og undirflokka ........................... 38 Skipting bókmennta eftir tungumálum ................ 39 Hlutdrægni ........................................................... 40 Annað ................................................................... 41 V. Aðlögun að ýmsum sjónarhornum .................................... 42 V.1 Breyttar útgáfur .......................................................... 42 Opinberar útgáfur ................................................. 43 Óopinberar útgáfur ............................................... 44 V.2 Ólík lönd-menningarsvæði ........................................ 44 Indland ................................................................. 44 Arabaþjóðir .......................................................... 45 Danmörk ............................................................... 46 V.3 Útgáfur fyrir lítil söfn ................................................ 47 Styttar útgáfur ...................................................... 47 Skólasafnaútgáfur ................................................ 47 V.4 Tilraunir til samræmingar .......................................... 48

Page 5: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

4

VI. Tölvuvæðing Dewey-kerfisins ............................................ 50 VI.1 20. útgáfa á tölvuformi .............................................. 50 VI.2 Tölvuvæðing bókasafna ............................................ 50 VI.3 Flokkunarkerfið sjálft tölvuvætt ................................ 51 VI.4 Electronic Dewey ....................................................... 52 VII. Dewey-kerfið á Íslandi ........................................................ 54 VII.1 Notkun ....................................................................... 54 VII.2 Ýmsar útgáfur ............................................................ 54 Bókasafnsrit I ....................................................... 54 Útgáfa Bókavarðafélags Íslands .......................... 55 Útgáfa Samstarfsnefndar um upplýsingamál ....... 57 VII.3 Nokkur söfn sem nota Dewey-kerfið ........................ 58 Landsbókasafn ..................................................... 58 Háskólabókasafn .................................................. 60 Borgarbókasafn .................................................... 60 VII.4 Samræmi .................................................................... 61 VII.5 Tölvuvæðing .............................................................. 61 VIII. Framtíð Dewey-kerfisins ..................................................... 62 Heimildaskrá ............................................................................... 63

Page 6: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

5

Inngangur

Efnisflokkun í bókasöfnum gegnir þrenns konar hlutverki. Eftir henni er raðað í hillur þannig að rit um sama efni standa saman í hillu. Efni þarf að vera hægt að finna með sæmilegri nákvæmni eftir flokkunartölum og flokkunin tengir saman spjaldskrá, núorðið yfirleitt tölvuskrá, og staðsetningu bóka í hillum.1

Fjölmargir hafa í gegnum árin velt fyrir sér hvernig hægt sé að flokka alla þekkingu mannsins og koma henni inn í eitthvert kerfi. Ýmis kerfi hafa orðið til í framhaldi af þessum hugleiðingum en ekkert þeirra hefur náð að festa sig eins vel í sessi og Dewey-kerfið og er það langalgengasta almenna flokkunarkerfið í heiminum. Ástæður þess eru margvíslegar. Kerfið hefur ýmsa kosti og má nefna í því sambandi ein-falda og auðlærða marktáknun, öflugan efnislykil og minnisatriði. Einnig hefur það skipt miklu máli á þeim tíma sem kerfið varð til að það var skrefi á undan sambærilegum kerfum þannig að það var svo að segja eina kerfið við hendina þegar sjálfbeini varð nauðsynlegur vegna mikillar fjölgunar bókasafnanotenda.2 Þar að auki tókst markaðs-setningin vel hjá Dewey enda var hann í mjög góðri aðstöðu sem t.d. einn af stofnendum og ritstjóri American Library Journal, stjórnar-maður í American Library Association í mörg ár og stofnandi og stjórnandi bókavarðarskóla í New York ríki.3 Hann notfærði sér aðstöðu sína til þess að koma kerfi sínu á framfæri með góðum árangri.

Dewey-kerfið er notað á stærstu íslensku söfnunum og raunar í meirihluta safna á landinu. Lítið hefur þó verið skrifað um Dewey-kerfið á íslensku. Hér mun fjallað um sögu, einkenni, kosti og galla kerfisins, notkun þess og aðlögun hér á landi og erlendis.

1 Line og Bryant, 1969, bls. 135 2 Osborn, 1991, bls. 37 3 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 2

Page 7: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

6

I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging

I. 1 Saga

Talsverðar breytingar áttu sér stað í bókasöfnum á seinni hluta 19. aldar. Þau urðu opnari almenningi heldur en áður hafði verið og sjálfbeini varð viðtekinn. Þetta krafðist öðruvísi fyrirkomulags í bókageymslum en áður höfðu viðgengist.

Fastaröð

Bókum hafði fram að þessu verið raðað í svokallaða „fasta röð“. Þær áttu sér sinn ákveðna og óumbreytanlega samastað í bóka-safninu þangað til endurröðun fór fram. Raðað var í grófa flokka og í fasta röð innan þeirra. Bækur um sama efni voru ekki endilega hlið við hlið þegar á leið, jafnvel ekki einstakir hlutar eða nýjar útgáfur sama verks. Þegar pláss sem ætlað var ákveðnum flokki fylltist þurfti að finna honum annan stað eða flytja flokkinn við hliðina til að rýma til. Þetta þýddi ný númer fyrir allar bækur í þeim flokki sem fluttur var.4

Melvil Dewey og upphaf flokkunarkerfis hans

Melvil Dewey fæddist árið 1851 í New York. Hann útskrifaðist frá Amherst College árið 1874 og varð aðstoðarbókavörður þar þegar á námsárunum. Hann gerði sér strax grein fyrir þeim vandamálum sem fylgdu því að bækur ættu sér fastan samastað í bókahillum, m.a. sífelldum endurflokkunum. Hann byrjaði að vinna að því að búa til kerfi þar sem hægt væri að safna saman ritum eftir efni án þess að endurflokkunar yrði þörf fljótlega þegar bókakostur ykist. Vandamálið var í raun aðallega fólgið í því að finna marktölukerfi sem væri opið, leyfði viðbætur við bókakostinn án þess að fyrirkomulag á þeim sem fyrir voru riðlaðist.5 Í leit sinni að lausn á skipulagsvandamálum bóka-safna heimsótti hann söfn og ráðfærði sig við sérfræðinga. Árið 1873 4 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 1 5 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 6

Page 8: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

7

taldi Dewey sig hafa fundið lausnina, fékk áætlun sína samþykkta af bókasafninu í Amherst og byrjaði að vinna að flokkunarkerfinu sem var gefið út 1876 undir nafninu A Classification and Subject Index for Cataloguing and Arranging the Books and Pamphlets of a Library. Enginn höfundur var á þessu stigi skrifaður fyrir verkinu.6

Útgáfur Dewey-kerfisins

Kerfið var í fyrstu hugsað sem flokkunarkerfi fyrir Amherst College Library og var byggt á kerfi fyrir skipulagningu þekkingar eftir William Torrey Harris fyrir spjaldskrá skólasafns í St. Louis.7 Fyrsta útgáfan var 44 síður alls, inngangur 8 síður, kerfið sjálft 12 síður og lykillinn var 18 blaðsíður.8 Dewey skilaði fyrirfram umsömd-um 150 eintökum til Amherst en sá til þess að prentuð voru nokkur hundruð aukaeintök sem nota mætti í auglýsingaskyni.9 Kerfinu var almennt séð vel tekið þótt ýmsum þætti það óþarflega nákvæmt, sér-staklega fyrir lítil söfn. Þessi fyrsta útgáfa bjó þegar yfir samsetningar-möguleikum með formgreinum og við landfræðilega skiptingu og efnislykillinn var um 2000 orð.10

Það sem var nýtt í Dewey-kerfinu og breytti miklu í flokkunar-málum bókasafna var ekki efnisflokkunin, því hún var við lýði áður, heldur notkun tugstafakerfis sem hægt var að bæta inn í til að tákna efni og sýna stigveldisskipan þess. Bækur fengu nú númer sem var eins konar „heimilisfang“ þeirra án þess að það væri í fastri röð og hægt var að raða öðrum bókum inn á milli eins og þörf var á meðan pláss entist. Efnislykillinn þótti ennfremur mikil og góð viðbót við flokkunargögn þessa tíma.11

Önnur útgáfa Dewey-kerfisins kom út árið 1885 undir nafninu Decimal Classification and Relative Index. Hún var miklu umfangsmeiri en sú fyrsta, bæði að blaðsíðutali og fjölda flokka, og sýndi fram á hina miklu möguleika sem marktáknun kerfisins bauð upp á. Nú var punktur settur á eftir fyrstu þremur stöfunum í marktölunni en það var ekki í fyrstu útgáfunni. Punktur hafði verið í

6 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 7 7 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 7 8 Bloomberg, 1976, bls. 14 9 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 7 10 Comaromi, 1976, bls. 14 11 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 8

Page 9: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

8

miðju á eftir flokkstölu og næsti stafur á eftir táknaði annað hvort stærð eða aðfanganúmer í viðkomandi flokki. Dæmi um þetta: 973·4·18 var átjánda bók í 4to hillu í flokknum saga Bandaríkjanna.12 Í þessari útgáfu voru miklar breytingar, bæði tilfærslur og endurnotkun flokksnúmera. Hjálpartöflur komu nú fram í fyrsta sinn en það eru sértöflur aftast í kerfinu til flokkunar eftir löndum og tungumálum. Efnislykillinn var nú orðinn 10.000 orð og hann var að áliti Deweys mikilvægasti hluti kerfisins. Formálinn var sjö sinnum lengri en í fyrstu útgáfunni og í honum varði Dewey breytingarnar og hét því jafnframt að þær yrðu umfangsminni héðan í frá. Þetta var upphafið að þeirri stefnumörkun aðstandenda kerfisins að reyna að láta merkingar flokkstalna haldast sem mest óbreyttar (integrity of numbers).13 Sú stefna var að miklu leyti í heiðri höfð í fyrstu fjórtán útgáfunum og er enn talin mikilvæg en hefur þó stundum, einkum hin síðari ár, þurft að láta í minni pokann fyrir þeirri þörf að laga kerfið að breytingum á þekkingu manna og þróun fræðigreina.14

Segja má að allar útgáfur Dewey-kerfisins fram að þeirri fimmtándu hafi í stórum dráttum verið byggðar á annarri útgáfunni. Nýjar útgáfur komu út þegar sú síðasta var uppseld eða þegar þörf var á nýrri útgáfu vegna þróunar fræðigreina.15 Dewey var ritstjóri fyrstu þriggja útgáfnanna en síðar voru ýmsir ritstjórar og ritstýrðu flestir fleiri en einni útgáfu.

Eftir fjórtándu útgáfu, sem kom út árið 1942, þótti þörf á endur-skoðun. Kerfið var orðið mjög fyrirferðarmikið og þensla hinna ýmsu sviða hafði verið mjög misjöfn. Árið 1951 var ráðist í að gefa út mikið endurskoðaða, stytta og breytta, fimmtándu útgáfu. Hún reyndist afar misheppnuð og hefur vanhæfni ritstjóra aðallega verið kennt um. Í henni voru róttækar breytingar á uppbyggingu, samsetningarmögu-leikar voru litlir sem engir og mikið var um tilfærslur.16 Vegna þessara mistaka var strax næsta ár, 1952, gefin út endurskoðuð fimmtánda útgáfa. Endurskoðunin á henni fólst þó aðallega í lagfæringum á efnis-lyklinum sem samkvæmt Comaromi og Satija var „ótrúlega slæmur“ í

12 Comaromi, 1976, bls. 14 13 Comaromi, 1976, bls. 14 14 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 8 15 Comaromi, 1976, bls. 14 16 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 9

Page 10: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

9

fyrri fimmtándu útgáfunni.17 Sonur Deweys, Godfrey, var ritstjóri seinni fimmtándu útgáfunnar.

Benjamin Custer var ritstjóri sextándu útgáfu kerfisins, sem kom út 1958, en hann ritstýrði farsællega fjórum útgáfum af kerfinu. Sextánda útgáfan var að sumu leyti í samræmi við þróun fyrstu fjórtán útgáfnanna en var þó ekki afturhvarf til fortíðar því með henni hófust ýmsar endurbætur á kerfinu í takt við breytta tíma.18 Custer tókst nokkuð vel að fara bil beggja, halda sér við þá stefnu að fara hægt í að breyta flokkstölum en gleyma þó ekki að leyfa kerfinu að þróast í samræmi við breyttar forsendur. Hann var í senn íhaldssamur og framfarasinnaður.

Í sextándu útgáfunni komu fyrst fram fönix-flokkar, en svo voru þeir efnisflokkar kallaðir sem þurftu mikilla breytinga við og voru algerlega endurskipulagðir. Fönix-flokkar voru um tveir í öllum næstu útgáfum kerfisins en tilgangur með þeim er að endurskoða kerfið rækilega, en í smáskömmtum, svo ekki þurfi að endurflokka mikið í einu.19

Annað mikilvægt atriði í sextándu útgáfunni var átak til að minnka bandarískar áherslur í kerfinu og gera það alþjóðlegra. Einnig voru möguleikar til samsetninga marktalna auknir. Kerfið kom út í tveimur bindum, kerfið sjálft í því fyrra og efnislykill og formgreina-tafla í því síðara.

Eftir velheppnaða sextándu útgáfu hélt Custer áfram á sömu braut í sautjándu útgáfu (1965) og í þeirri átjándu (1971) með fönix-flokka og aukna samsetningarmöguleika í marktölum. Í sautjándu útgáfunni urðu hjálpartöflurnar tvær, landstölutafla bættist við, og í átjándu útgáfunni urðu þær sjö sem jók mjög nákvæmni og sveigjanleika kerfisins.20 Átjánda útgáfan kom út í þremur bindum.

Nítjánda útgáfan, sem kom út árið 1979, var sú síðasta sem Benjamin Custer ritstýrði. Hún var með svipuðu sniði og hinar, með fönix-flokkana 301-307, 324 og landstölur Bretlands, -41 og -42. Mikilvægt hjálpargagn þessarar útgáfu varð síðan handbókin, Manual on the Use of the Dewey Decimal Classification : Edition 19, sem

17 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 10 18 Comaromi, 1976, bls. 14 19 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 11 20 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 11

Page 11: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

10

kom út árið 1982. Nítjánda útgáfan var sú fyrsta sem framleidd var með tölvutækninni.

Tuttugasta útgáfa Dewey-kerfisins kom út í fjórum bindum árið 1989. Handbókin er nú hluti af kerfinu sjálfu. Í þessari útgáfu eru ýmsar breytingar og viðbætur sem miða að því að auðvelda flokkurum starf sitt. Sem dæmi má nefna auknar leiðbeiningar á síðum kerfisins sjálfs og í fyrsta bindinu eru ýmsar töflur sem sýna mismun á flokkun í nítjándu og tuttugustu útgáfunni og auðvelda endurflokkun. Fönix-flokkar (sem að vísu kallast það ekki lengur) eru landstölur bresku Kólumbíu og 780-flokkurinn (tónlist) eins og hann leggur sig. Efnislykillinn hefur verið endurskoðaður og er með fleiri tilvísunum beint í flokkstölu og fleiri samheitum.

I. 2 Uppbygging

Dewey-kerfið er frekar einfalt og auðskilið almennt flokkunar-kerfi sem er byggt upp á því að flokka efni eftir fræðigreinum. Það er stigveldiskerfi sem notar arabískar tölur, hundruð og tugi, sem heiti flokka. Hjálpartöflur eru mikilvægur hluti kerfisins við samsetningu marktalna þegar fínflokkunar er þörf, og efnislykill veitir mönnum að-gang að því. Hér á eftir fer umfjöllun um helstu lykilhugtök kerfisins:

Fræðigrein (Discipline)

Stigveldi (Hierarchy)

Tugstafakerfi (Decimal classification)

Töflur (Tables)

Samsetning marktalna (Number building)

Efnislykill (Relative index)

Fræðigrein (Discipline)

Aðaleinkenni Dewey-kerfisins er skipting efnis eftir fræðigrein-um. Allri mannlegri þekkingu er skipt í 10 efnissvið eða fræðigreinar. Hvert þeirra nær yfir eitthvert tiltekið svið eða nokkur skyld svið nema eitt sem tekur yfir almenn efni sem ekki eru skyld innbyrðis. Efni er flokkað eftir því frá hvaða sjónarmiði fjallað er um það en ekki eftir efninu sem slíku. Sama efni getur þannig tilheyrt mörgum fræðigrein-um og því flokkast á marga staði í kerfinu. Sem dæmi má

Page 12: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

11

taka hug-takið „sjálfsmorð“. Um það er hægt að fjalla á margan hátt, t.d. frá sjónarmiði afbrotafræði(360), siðfræði(170), þjóðfræði(390), trúar-bragða(290) og læknisfræði(616).

Aðalflokkarnir tíu eru þessir:

000 Almennt efni, undirstöðufræði

100 Heimspeki, sálarfræði, siðfræði

200 Trúarbrögð

300 Samfélagsgreinar

400 Tungumál

500 Raunvísindi

600 Tækni, framleiðsla, iðnaður

700 Listir

800 Bókmenntir

900 Sagnfræði, landafræði, ævisögur 21

Stigveldi (Hierarchy)

Dewey-kerfið er stigveldiskerfi að uppbyggingu, það er að segja fræðigreinarnar tíu eða yfirflokkarnir eru víðtækir og þeir skiptast niður í þrengri svið sem eru undirskipuð þeim næstu á undan. Hver yfirflokkur skiptist í undirflokka sem aftur skiptast áfram og merkingin verður æ þrengri eftir því sem neðar dregur í stigveldinu. Það sem á við um efsta flokkinn á líka við um alla undirflokka hans.

Stigveldið kemur fram í marktölunum, hver stafur sem bætist við táknar þrengri merkingu. Dæmi um þetta:

100 Heimspeki

170 Siðfræði

174 Siðfræði starfsstétta

174.3 Siðfræði lögfræðinga

Nokkrar undantekningar eru frá því að stigveldið í marktölunum haldist og er þá sérstaklega bent á það þar sem það kemur fram í kerf-inu. Dæmi um það er í líffræðinni sem er 574. Plöntufræði er 580 og dýrafræði 590 þótt tvær síðarnefndu greinarnar

21 Dewey, 1987, bls. 23

Page 13: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

12

ættu raunar samkvæmt venjulegri uppbyggingu kerfisins að vera undirskipaðar líffræðinni.22

Tugflokkunarkerfi (Decimal classification)

Dewey-kerfið er kallað tugflokkunarkerfi vegna þess að mark-táknun þess er númerakerfi sem byggist upp á hundruðum og tugum. Tölurnar frá 0 til 999 eru notaðar. Aðalefnissviðin eða fræðigreinarnar eru, eins og áður var drepið á, tíu og eru hundruðin 000-900 notuð fyrir þær. Þær skiptast hver um sig í tíu undirflokka, dæmi 100-190, sem hafa svo 10 undirdeildir, 190-199, o.s.frv. Stystu marktölurnar eru 3 stafir og ef mjög gróft er flokkað eru núll notuð til uppfyllingar. Á eftir fyrstu þremur stöfunum kemur punktur og síðan halda tölurnar áfram að skiptast í samræmi við tugskiptinguna. Marktala endar aldrei á núlli fyrir aftan kommu.

Hjálpartöflur (Tables)

Hjálpartöflur kerfisins eru notaðar til að setja saman marktölur þegar fínt er flokkað. Tölur úr þeim eru aldrei notaðar einar sér heldur eingöngu sem viðskeyti við flokkunartölur úr kerfinu. Tölum úr Töflu 1 má bæta við hvaða tölu sem er úr kerfinu nema annað sé tekið fram, en annars þurfa að vera sérstök fyrirmæli í kerfinu um notkun hjálpar-taflnanna. Í 20. útgáfu kerfisins eru þær sjö að tölu. Tölur úr hjálpar-töflum hafa margar minnisgildi eins og fleiri tölur í kerfinu. Þær koma fyrir víða í kerfinu og hafa þá alltaf sömu merkingu. Í tungumálum og bókmenntum táknar sama tala sama land, t.d. er 420 enska og 820 enskar bókmenntir og sömu tölur tákna sama bókmenntaformið í öllum bókmenntum, 1 ljóð, 2 leikrit 3 skáldsögur o.fl.

Hjálpartöflur eru einungis mikilvægar þegar krafist er þröngrar flokkunar. Í styttum útgáfum kerfisins eru færri töflur. Það þykir nægja minni söfnum þar sem ekki eru mjög margar bækur til í hverjum flokki að notast við styttu útgáfurnar. Í 11. styttu útgáfunni á frummálinu eru hjálpartöflurnar fjórar: formgreinar, landstölur, bókmenntir og tungu-mál. Í íslensku þýðingunni, sem er þýdd og staðfærð fyrir íslensk bókasöfn eftir 11. styttri útgáfu, eru eingöngu tvær töflur: Tafla 1, formgreinar og Tafla 2, landstölur.

22 Dewey, 1987, bls. xiii

Page 14: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

13

Tafla 1 Formgreinar (Standard subdivisions)

Formgreinataflan er notuð þegar greina á form rits, t.d. orðabók(03) eða tímarit(05) og einnig þegar fjallað er um efni frá ákveðnu sjónar-miði, t.d. sögulegu (09). Þessum tölum má eins og áður sagði bæta við hvaða tölu sem er úr kerfinu en varast ber þó að nota þær með flokkstölu sem er allmiklu víðtækari en efni ritsins gefur tilefni til. Formgreinarnar byrja allar á núlli en því er sleppt ef núll er á undan, t.d. tímarit í félagsfræði er 305 en ekki 300.05. Í stöku tilfellum geta formgreinar byrjað á tveimur eða jafnvel þremur núllum. Það kemur fyrir ef flokkstala með einu núlli er þegar tekin fyrir annað og er þá sérstaklega bent á þetta í kerfinu. Dæmi um þetta er í flokknum 375 en þar byrja formgreinar á þremur núllum vegna þess að flokkarnir 375.01- og 375.001- eru notaðir í öðrum tilgangi. Ef tvær eða fleiri formgreinar passa við efni er tafla sem segir til um hvor skuli hafa forgang, en fleiri en ein formgrein eru ekki notaðar nema sérstök fyrirmæli séu um það. Dæmi um það er formgrein -04. Við hana og skiptingar hennar má bæta öðrum formgreinum eins og ástæða þykir til, 323.0420944 lýðræði með þátttöku almennings í Frakklandi.23

Tafla 2 Landstölur, tímabilaskiptingar, einstaklingar (Geo-graphic areas, periods, persons)

Tafla 2 er langstærsta hjálpartafla kerfisins. Tölum úr henni má bæta við allar flokkstölur úr kerfinu ýmist með formgrein 09 sem millilið eða beint ef svo er fyrir um mælt. Landstölur hafa minnisgildi eins og áður var nefnt. Sem dæmi um þetta má nefna landstölu Íslands sem er -491 (4912 í 20. útg.). Saga Íslands er 949.1, landafræði Íslands 914.91 og jarðfræði Íslands 554.91. Landstölur má einnig nota með tölum úr öðrum töflum ef svo er sagt fyrir um, t.d. með formgrein 025 (skrár).24 Dæmi: 027.4025491 skrá yfir almenningsbókasöfn á Íslandi.

Tafla 3 Bókmenntir (Subdivisions for individual literatures, for specific literary forms)

Tafla 3 skiptist í 3 undirtöflur, 3A, 3B, 3C. Þessar töflur eru einungis notaðar til þess að byggja upp númer í 800-flokknum, með 808-809 23 Dewey, 1989, 1.b., bls. 10 24 Dewey, 1989, 1.b., bls. 25

Page 15: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

14

þegar svo er kveðið á um og með stjörnumerktum stofntölum (base number) bókmennta einstakra tungumála frá 810-890. Tafla 3A er notuð þegar um er að ræða verk eins höfundar og tafla 3B þegar tveir eða fleiri höfundar eiga hlut að máli. Tafla 3C er notuð sem viðbótartafla við 3B til frekari uppbyggingar flokkunartölu og hún er einnig notuð samkvæmt fyrirmælum í 808-809.

Tafla 4 Málvísindi (Subdivisions of individual languages)

Tölur úr þessari töflu eru eingöngu notaðar með stjörnumerktum stofnflokkunartölum tungumála í flokkunum 420-90 þegar greina á t.d. hvort fjallað er um hljóðfræði, málfræði eða uppruna viðkomandi tungumáls. Dæmi: 43 (stofntala þýsku) + 2 (orðsifjafræði, T4) = 432. Tölum úr Töflu 1 má bæta við tölur úr Töflu 4. Dæmi: Saga enskrar málfræði: 42 (grunntala ensku) +5 (málfræði T4) +09 (sögulegt sjónarhorn T1) = 425.09.25 Tölur úr töflu 4 eru stundum innbyggðar í tölur kerfisins, t.d. 425, 435, 445, málfræði ensku, þýsku og frönsku og 423, 433, 443, orðabækur í ensku, þýsku, frönsku.

Tafla 5 Þjóðir (Racial, ethnic, national groups)

Tafla 5 er notuð þegar fjallað er um efni meðal eða með tilliti til fólks af tilteknu þjóðerni. Tölum úr töflu 5 er bætt við hvaða flokkunartölu sem er í kerfinu, ýmist í gegnum formgrein -089 (þjóðir) úr Töflu 1 eða þá beint sé það sérstaklega tekið fram. Einnig má nota tölur úr þessari töflu með landstölunni -174 úr Töflu 2 (svæði þar sem ákveðn-ar þjóðir eru í meirihluta). Sem dæmi um notkun T5, leirkerasmíði gyðinga: 738 (leirkerasmíði) +089 (T1) +924 (T5 gyðingar) = 738.08992426 og byggingarlist í Arabalöndum: 722 (byggingarlist) +174 (T2) + 927 (T5 arabaþjóðir) = 722.174927.

Tafla 6 Tungumál (Languages)

Nota skal tölur úr Töflu 6 með tölum úr kerfinu eða öðrum töflum þegar fyrirmæli eru um það. Dæmi um það er þýðing biblíunnar á þýsku: 220.5 (biblían) +31 (T6 þýska) =220.531. Tölur í Töflu 6 eru ekki endilega í samræmi við flokkunartölur tungumála í 420-90 og

25 Dewey, 1989, 1.b., bls. 415 26 Dewey, 1989, 1.b., bls. 421

Page 16: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

15

820-90, t.d. er stofntala þýsku 43 en tala fyrir þýsku í T6 er 31 en ekki 3 sem er tala fyrir germönsk mál.27 Stofntala franskra bókmennta er 84 en tala fyrir fyrir rómönsk mál í Töflu 6 er -4 en -41 fyrir frönsku.

Tafla 7 Hópar manna, stéttir (Groups of persons)

Tafla 7 er notuð samkvæmt fyrirmælum í kerfinu þegar máli skiptir fyrir hvaða hópa eða hvers konar fólk rit er skrifað. Hún er aðallega notuð með formgrein -024 sem millilið, þ.e.a.s. efni fyrir not-endur af einhverju ákveðnu tagi. Dæmi um það, stærðfræði fyrir smiði: 513 (stærðfræði) +024 (T1) +694 (T7 smiðir) =513.024694. Hún er líka notuð með formgrein -088, þ.e. sérstakar stéttir eða trúarhópar. Dæmi, saga bænda í Bandaríkjunum: 973 (saga Bandar.) +088 (T1) +631(T7 bændur) = 973.088631. Ennfremur má bæta tölum úr T7 beint við flokkunartölu, dæmi 809.89 (safnrit bókmennta fólks af tilteknu tagi) + 92 (af tiltekinni stétt T3C) + 241 (Lútherstrúar T7) = 809.8992241.28

Samsetning marktalna (Number building)

Oft er nauðsynlegt að byggja upp eða setja saman marktölur til þess að fá rétta tölu, sérstaklega þegar fínflokka á efni. Byrjað er á marktölustofni þegar flokkstölur eru byggðar upp. Við samsetningu marktalna eru aðallega notaðar fjórar aðferðir.

1. Tölum úr T1, formgreinatöflu, er bætt við flokkstölu. Í kaflanum hér á undan um formgreinar eru tekin dæmi um þetta.

2. Töflur 2 til 7 eru notaðar til að byggja upp flokkstölu. Vísað er til kafla um töflurnar hér á undan.

3. Í kerfinu eru oft fyrirmæli um að bæta megi við flokkstölu tölu annarsstaðar úr kerfinu. Þá er ýmist um að ræða heilar tölur úr kerfinu eða hluta þeirra. Nákvæm fyrirmæli eru um þetta þar sem það á við. Dæmi um þetta er 920.91335, ævisaga stjörnuspekings. 920.9 er ævisaga einhvers í ótilteknu starfi og við það er bætt heilli tölu úr kerf-inu, 133.5, stjörnuspeki.29 Annað dæmi: við grunntölu 927 er bætt við hluta af tölu samkvæmt fyrirmælum í kerfinu, þ.e.a.s. tölum á eftir

27 Dewey 1989, 1.b., bls. 438 28 Dewey, 1989, 1.b., bls. 457 29 Dewey, 1989, 3.b., bls. 703

Page 17: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

16

7 í 710-90. 927 + (7)86.2 (píanóleikur) = 927.862, ævisaga píanóleikara.

4. Sérstakar töflur í kerfinu sjálfu (add tables) eru notaðar til þess að þrengja flokkun. Þetta er einungis gert samkvæmt fyrirmælum og eru þær flokkstölur sem bæta má við merktar sérstaklega.

Efnislykill (Relative index)

Í Dewey-kerfinu dreifist efni eftir því af hvaða sjónarhóli um það er fjallað. Þess vegna var búinn til efnislykill (Relative Index eða venslalykill) þar sem sýnd eru vensl einstaks efnisorðs við margar fræðigreinar. Íslenska orðið efnislykill nær eðli lykilsins að vissu leyti betur en heitið Relative Index, þar sem hann byggist á efnisorðum, en bein þýðing á því orði væri venslalykill. Í innganginum að Dewey-kerfinu er lykillinn skilgreindur með þessum orðum:

The Relative Index is so called because it relates subjects to

disciplines.30

Í efnislyklinum koma saman undir efnisorðinu hinar ýmsu fræðigreinar og flokkunartölur þar sem umfjöllun um efnið getur lent. Efnisorð eru í stafrófsröð og undir þeim hin ýmsu sjónarhorn eða fræðigreinar, líka í stafrófsröð, og flokkunartölur þar fyrir aftan.

Dæmi: Fjölskyldulíf 306.85

hagnýtt sálarfræði 158.24

siðir 392.3

heimilisfræði 646.78

sálarfræðileg áhrif 155.94 31

Í efnislyklinum eru uppsláttarorð öll efnisorð úr kerfinu sjálfu og hjálpartöflunum, einnig samheiti (t.d. geysers) og valin orð úr daglegu máli. Úr Töflu 2 eru m.a. heiti landa, ríkja, höfuðborga, héraða í Bandaríkjunum og nöfn þekktra náttúrufyrirbæra, t.d. Niagarafossar. Þetta á við um bandarísku útgáfuna og er staðbundið, í íslensku þýðingunni finna menn hins vegar bæði Gullfoss og Geysi og fleiri nöfn á íslenskum náttúrufyrirbærum. Nöfn þjóðhöfðingja sem

30 Dewey, 1989, 1.b., bls. xliv 31 Dewey, 1989, 4.b., bls. 229

Page 18: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

17

tímabil í mannkynssögunni eru kennd við svo sem Lúðvíkarnir í Frakklandi eru með, einnig Múhameð, Elísabet Englandsdrottning og forsetar Bandaríkjanna. Í innganginum kemur ekki fram hvort einhver viðmið voru notuð við ákvörðun á hvað er með og hvað ekki. Nafnmyndir eru samkvæmt 2. útgáfu Anglo-American Cataloguing Rules (AACR2) þegar því verður við komið.

Efnislykillinn er afar gagnlegur hluti kerfisins og raunar nauðsynlegur lykill að kerfinu fyrir hvern þann sem fæst við flokkun eða þarf að leita að efni. Eins og áður var tæpt á fannst Dewey sjálfum lykillinn vera að vissu leyti aðalhluti kerfisins. Það má til sanns vegar færa því ef í öllum tilfellum er hægt að finna efni í gegnum lykilinn skiptir ef til vill minna máli hvort staðsetning efnisins innan kerfisins er gagnrýniverð eða ekki.32 Venjulega er best að fletta fyrst upp í lyklinum til að finna líklegar flokkunartölur efnis og þá er oft hjálp í því að sjá hin ýmsu sjónarhorn sem til greina koma. Varast ber þó að nota lykilinn eingöngu, alltaf þarf að skoða kerfið sjálft til þess að vera viss um að finna rétta flokkinn.

32 Jensen, 1959, 3.b., bls. 336

Page 19: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

18

II. Breytingar á kerfinu

II. 1 Tilefni breytinga

Nýjar greinar

Eins og gefur að skilja hefur Dewey-kerfið tekið ýmsum breytingum síðastliðin 120 ár og eru ástæður fyrir því af ýmsum toga. Mikilvægust er líklega sú að þekking manna hefur breyst mikið á þessum tíma. Ýmsar greinar, eða þekking manna á þeim, hafa vaxið mjög mikið en aðrar síður og nýjar greinar orðið til, t.d. tölvufræði. Ekki er hægt að búast við því að við hönnun flokkunarkerfis sé hægt að sjá fyrir þróun fræðigreina og breytingar á þekkingu og því hlýtur að koma að því að aðlögunar sé þörf.

Hlutdrægni

Önnur brýn ástæða til breytinga hefur þótt vera hin vestræna, sérstaklega bandaríska, áhersla sem kerfið skiljanlega hafði. Dewey beindi athygli sinni af eðlilegum ástæðum aðallega að þeim ritum er bárust í bandarísk söfn á þessum tíma og byggði kerfið á þeim. Custer kemst svo að orði:

In its earliest years the Dewey Decimal Classification was almost

wholly oriented to the literature likely to be acquired by American

academic libraries (like Melvil Dewey´s own Amherst) and public

libraries, to serve the reading interests of of a nineteenth-century

community inhabited by white Anglo-Saxon Protestant gentlemen,

many of whom read Latin and Greek, often also French and German,

but who did not dream that anything of cultural or scientific value

could be published in Russian, and had never heard of Tamil or Ibo;

who, like Dr. Samuel Johnson, always equated religion with the

Christian religion, and usually equated the Christian religion with

Protestantism.33

33 Custer, 1980, bls. 100

Page 20: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

19

Síðar, er þekking barst auðveldlegar á milli landa og heimsálfa og kerfið var tekið í notkun víðar en í Bandaríkjunum, þótti rétt að leiðrétta hinar vestrænu áherslur. Þessar breytingar áttu sér stað frá og með 16. útgáfu kerfisins sem kom út árið 1958 með þeim ánægjulegu afleiðingum fyrir aðstandendur kerfisins að notkun þess jókst mikið utan Bandaríkja Norður-Ameríku. Tengsl aðstandenda kerfisins við lönd utan Bandaríkjanna eru mest við Bretland og Kanada, þar sem þau lönd eiga fulltrúa í ritstjórnarnefndinni. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar í samvinnu við þá, til dæmis endurskoðun á landstölunum -41 og -42, sem Bretar sáu um á miðjum áttunda áratugnum34 og fönix-flokkurinn 780 en Bretar tóku einnig mikinn þátt í að bylta honum. Sumir myndu vilja sjá meiri breytingar á áherslum kerfisins, t.d. að meira tillit væri tekið til breskrar orðanotkunar.35 Með hverri útgáfu kerfisins eftir þá sextándu hefur verið stefnt í þá átt að gera kerfið alþjóðlegra.

Kerfið gert nútímalegra

Ennfremur má nefna sem ástæðu fyrir breytingum á kerfinu að það þurfti að verða nútímalegra, bæði í orðanotkun og skipulagi. Orð-færi fólks breytist með tímanum og orð sem þóttu viðeigandi á fyrstu árum kerfisins eru það alls ekki í dag. Samkynhneigð kallaðist t.d. vicious mania í 14. útgáfu, síðar sexual deviation36, en er í dag undir sexual orientation ásamt gagnkynhneigð. Sem dæmi um nútímalegra skipulag má nefna aukna samsetningarmöguleika (fleiri töflur) og bættan efnislykil.

Comaromi og Satija nefna enn eina ástæðu fyrir endurútgáfu kerfisins og var það sú stefna Deweys að gefa aldrei út mikið fleiri eintök en hann myndi losna við. Stundum var mat hans á því hve mörg eintök myndu seljast of lágt og þá fylgdi fljótlega í kjölfarið ný útgáfa jafnvel þótt breytingarnar væru ekki ýkja miklar.37

34 Trotter, 1984, bls. 3 35 Linden, 1982, bls. 185 36 Custer, 1980, bls. 101 37 Comaromi og Satija, 1988b, bls. 17

Page 21: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

20

II. 2 Leiðir til breytinga

Ýmsar leiðir hafa verið farnar við endurbætur á Dewey-kerfinu. Í hverri nýrri útgáfu er reynt að aðlaga kerfið nýjum áherslum og koma nýjum efnissviðum fyrir á réttum stöðum ýmist með tilfærslum á efni sem ekki hefur þótt vera á réttum stað (relocations) eða útvíkkunum á þeim númerum sem fyrir eru (expansions). Enn fremur hafa afmörkuð svið verið endurskipulögð í heild sinni og kallaðist það fönix-flokkar. Stefna ritstjórnar kerfisins í fyrstu fjórtán útgáfunum var að halda flokksnúmerum sem mest óbreyttum.38 Á þeim tíma var því efni bætt inn í kerfið en lítið um flutning á milli flokka. Í 15. útgáfu varð hins vegar sú breyting á stefnunni að mikilvægara þótti að aðlaga kerfið að aukinni þekkingu og nýjum fræðigreinum og til þess að koma þeim öllum fyrir varð að flytja meira til á milli flokka og endurskipuleggja. Í seinni útgáfum hefur verið tekist á um þessi grundvallaratriði og reynt að fara bil beggja.

Tilfærslur (relocations)

Tilfærslur eru notaðar þegar koma þarf fyrir í kerfinu nýjum efnissviðum eða aðlaga flokkun efnis breyttum áherslum. Þá þarf að færa á milli flokka frá einni útgáfu til annarrar og flokkur sem flutt er úr er hafður ónotaður í einni útgáfu á milli. Slíkar tilfærslur voru 1600 í 16. útgáfu, 800 í þeirri 17., 400 í 18. útgáfu og 340 í hinni 19. og sýnir það tilhneigingu til þess að fækka þeim,39 enda eru þær til mikilla óþæginda fyrir starfsfólk bókasafna eins og síðar mun vikið að.

Útvíkkanir (expansions)

Útvíkkanir á flokkum eru notaðar í kerfinu þegar fræðigreinar hafa breyst og þróast, mörkin á milli þeirra hafa færst til eða ný hugtök orðið til innan þeirra. Þá þarf að aðlaga flokka þessum breytingum. Í þessu efni hefur ekki verið mörkuð ákveðin stefna. Stundum eru mörg hugtök sett í sama flokk, í næstu útgáfu eru búin til ný númer fyrir sum þeirra og e.t.v. enn ný númer fyrir þau sem eftir

38 Dhyani, 1987, bls. 19 39 Dhyani, 1987, bls. 19

Page 22: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

21

urðu í þarnæstu útgáfu. Því verður of mikið um endurflokkanir innan sama yfir-flokks.40

Fönix-flokkar

Stefna ritstjórnar með fönix-flokkum er, eins og áður var drepið á, að endurbæta kerfið smám saman í litlum skömmtum þannig að ekki þurfi að endurflokka of mikið í einu. Þeir flokkar sem hafa hlotið slíkar endurbætur eru 004-006, 150, 301-307, 324, 340, 510, 546-7, 570-90, 780, landstölur Bretlands -41-42 og -71, landstölur bresku Kolumbíu. Þetta er einungis gert þegar það þykir óhjákvæmilegt vegna þess að viðkomandi hluti kerfisins gegni ekki hlutverki sínu lengur.

II. 3 Framkvæmd breytinga

Endurbætur á Dewey-kerfinu eru stöðugt í gangi. Ritstjórnar-nefnd hittist reglulega og fer yfir uppástungur um breytingar frá þeirri deild í Library of Congress sem sér um flokkun eftir Dewey-kerfinu (Decimal Classification Division). Deild þessi flokkar yfir 100.000 titla á ári41 og er því vel í stakk búin til þess að fylgjast með hvar mest er þörf á breytingum eða viðbótum. Ný útgáfa er byggð á síðustu útgáfu og þeim sérútgáfum (separates) sem komið hafa út í milli-tíðinni. Sérprent þessi eru sérútgáfur á fönix-flokkum sem hafa verið gefnir út jafnharðan og þeir eru tilbúnir til þess að gefa færi á gagnrýni áður en þeir eru innlimaðir í kerfið. Fram að þessu hafa komið út tvær sérútgáfur, flokkarnir 301-307, félagsfræði, árið 1982 og 004-006, gagnavinnsla og tölvufræði, árið 1985.42 Við endurskoðun á kerfinu er reynt að taka tillit til formlegrar og óformlegrar gagnrýni, bæði í bóka-safnsfræðiritum og frá bókavörðum.43

Síðan 1959 hefur Forest Press gefið óreglulega út tímarit, DC& (Decimal Classification Annotations, Notes and Decisions), sem

40 Dhyani, 1987, bls. 19 41 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 21 42 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 21, 117, 118 43 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 21

Page 23: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

22

áskrifendur að aðalútgáfu kerfisins fá sent óumbeðið og ókeypis og eru þar kynntar væntanlegar breytingar á kerfinu.44

II. 4 Ágreiningur um breytingar

Almennt

Mikill ágreiningur hefur ríkt um breytingar á Dewey-kerfinu. Sumir vilja sjá sem fæstar breytingar á því vegna þess óhagræðis sem skapast vegna breytinganna en aðrir vilja sjá það þróast og breytast til batnaðar. Einnig eru ýmsar skoðanir á ágæti þeirra breytinga sem gerðar hafa verið. Flestum ber þó saman um að ein útgáfa, hin 15., sem kom út árið 1951, hafi verið mjög misheppnuð. Við gerð hennar var vikið frá þeirri hugmyndafræði sem hafði verið ráðandi við þróun kerfisins að reyna að halda númerum sem mest óbreyttum. Svo illa var þessari útgáfu tekið að strax ári seinna kom út önnur endurskoðuð 15. útgáfa. Árið 1958 kom 16. útgáfan út og var þar fært til fyrra horfs ýmislegt sem breytt var í 15. útgáfunni. Fram að 15. útgáfu var nýjum útgáfum nokkuð vel tekið, bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra,45 en talið er að tilhneiging bókavarða til að taka upp LC-kerfið á 6. áratugnum eigi kannski ekki síst rætur sínar að rekja til áðurnefndrar 15. útgáfu Dewey-kerfisins. Seinni útgáfur hafa hins vegar þótt betur heppnaðar, þó e.t.v. að undantekinni 17. útgáfu, sem fræðimönnum þótti góð en hinum almenna bókaverði líkaði ekki. Samt sem áður jókst sala kerfisins sífellt eftir að 17. útgáfan kom út, sérstaklega utan Bandaríkjanna, enda hafði verið unnið að því í þessum útgáfum að minnka bandarískar áherslur og gera kerfið alþjóðlegra, m.a. með því að hafa erlenda bókaverði með í ráðum.46

Stafsetning Deweys

Eitt af vandamálum í útgáfum kerfisins fram yfir 18. útgáfu var sú kvöð að halda í hina sérkennilegu, einfölduðu stafsetningu Melvil Deweys sem byrjað var að nota í 2. útgáfu kerfisins. Benjamin A. Custer, ritstjóri 16. -19. útgáfu, hélt því fram að þessi stafsetning

44 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 26 45 Comaromi, 1976, bls. 14 46 Custer, 1980, bls. 101

Page 24: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

23

drægi úr vinsældum kerfisins erlendis en hún fékkst ekki aflögð fyrr en eftir andlát Godfreys, sonar Deweys.47 Hér er sýnishorn af stafsetningu Deweys úr formála sem hann skrifaði 1926 en er hér tekið úr 16. útg. kerfisins:

This alfabetic Index, the most important feature of the sistem, consists

of hedings gatherd from a great variety of sources, as uzers of the

sistem hav found them desirabl in 54 years experience.48

Hann breytti nafni sínu í Melvil Dui úr Melville Dewey en sagt er að kona hans, Anne, hafi sett það sem skilyrði fyrir því að giftast honum að hann breytti seinna nafninu aftur til fyrra horfs.49

II. 5 Vandamál vegna breytinga

Sóun á tíma og fé

Vandamál sem skapast í söfnum vegna breytinga á flokkunarkerfi þeirra eru margvísleg en tengjast þó flest fjárhag safnanna og mannskap því fæst þeirra hafa bolmagn til þess að standa í sífelldum endurflokkunum. Deilur um stöðugleika annars vegar og endurbætur hins vegar munu seint útkljáðar og aldrei verður hægt að gera svo öllum líki í þessu frekar en öðru. Samkvæmt Dhyani hafa endurbótasinnar haft yfirhöndina í síðustu útgáfum kerfisins á kostnað stöðugleika þess þó svo að tilfærslum hafi farið fækkandi. Dhyani telur að þeim mætti fækka enn meir ef ekki væru gerðar breytingar fyrr en að betur athuguðu máli. Honum finnst vanta stefnumörkun í endurskoðun kerfisins og álítur að hægt væri að gera endurbæturnar í færri skrefum þannig að ekki þurfi sífellt að vera að endurflokka. Tilfærslur og útvíkkanir fyrir smærri hugtök megi geyma í þeim flokkum sem eigi að fara að taka til gagngerrar endurskoðunar og þegar nýjum hugtökum er bætt inn í eigi strax að setja þau í nákvæman flokk í stað þess að byrja á að koma þeim fyrir í víðari flokk og þrengja síðan smám saman í seinni útgáfum.50 Hann heldur því fram að róttækar breytingar í formi útvíkkana, endurstaðsetninga og fönix-flokka, ásamt viðbótum í formi nýrra hjálpartaflna, hafi

47 Custer, 1980, bls. 103 48 Dewey, 1958, bls. 33 49 Custer, 1980, bls. 105 50 Dhyani, 1987, bls. 22

Page 25: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

24

dregið úr vinsældum kerfisins og séu ástæða þess að flest söfn á Indlandi noti ennþá 16. útgáfu kerfisins.51

Viðbrögð við breytingum á kerfinu

Stjórnendur bókasafns standa frammi fyrir talsverðum vanda þegar miklar breytingar verða á flokkunarkerfi safnsins. Fæstir hafa bolmagn til þess að endurflokka allt jafnóðum og mikið öngþveiti getur skapast í hillunum þegar rit um sama efni eru flokkuð eftir ýmsum útgáfum af flokkunarkerfinu. Hver stjórnandi verður að gera upp við sig hvaða stefnu á að taka og eru nokkrir möguleikar fyrir hendi:

Gera ekkert, halda sínu striki, gamla kerfið virkar nógu vel.

Flokka nýtt efni eftir nýju útgáfunni en láta flokkun á eldra efni halda sér samkvæmt eldri útgáfum.

Flokka allt eftir nýju útgáfunni. 52

Ef fyrsti kosturinn er tekinn þýðir það að breyta þarf flokkunar-tölum á nýju efni sem flokkað er hjá flokkunarmiðstöðvum og birtist t.d. í CIP, OCLC og á MARC-böndum. Þetta getur valdið ruglingi hjá þeim sem flokka, fylgjast þarf vel með hverju þarf að breyta og síðan er það að sjálfsögðu talsverð vinna að flokka þetta efni.

Ef nýtt efni er flokkað eftir nýrri útgáfu en flokkun eldra efnis látin halda sér þýðir það tvöfalda röð í hillum í viðkomandi flokkum. Það er hægt að þola ef viðkomandi flokkar eru hvor nálægt öðrum og skarast ekki. Hins vegar verður það erfiðara viðureignar ef flokkarnir skarast. Sem dæmi um það má taka nýju og gömlu útgáfuna af 780-flokknum (tónlist). Í því tilfelli yrði mjög erfitt, bæði fyrir bókaverði og þá ekki síður fyrir notendur, að átta sig á því „kerfi“ sem ríkti í hillunum.53

Ef þriðji kosturinn er tekinn er í flestum tilfellum um talsverða endurflokkun að ræða og hún er mjög kostnaðarsöm. Það þarf að breyta tölum í tölvukerfi eða á spjaldi, í bók eða riti og á kjalmiða. Þetta er alltaf mjög mikil vinna, jafnvel í litlum söfnum.

51 Dhyani, 1987, bls. 20 52 Berman, 1989, bls. 46 53 Berman, 1989, bls. 46

Page 26: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

25

Ósamræmi

Af þessu má sjá að hvaða kostur sem tekinn er veldur vand-ræðum og fyrri kostirnir tveir orsaka ósamræmi innan safns og einnig á milli safna ef sitt hvort kerfið er í gangi. Því er skiljanleg óánægja bókavarða með miklar breytingar á flokkunarkerfum safna þótt oft séu þær réttlætanlegar vegna þess að ekki hafi lengur verið hægt að koma öllu efni sem þurfti fyrir í viðkomandi flokki. Sem dæmi um það má t.d. nefna endurskoðun á flokkum 001-006. Hún þótti brýn nauðsyn vegna þess að gífurlegar breytingar höfðu átt sér stað á þessu sviði og hefur yfirleitt fengið góðan hljómgrunn.

Page 27: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

26

III. Samanburður við önnur kerfi

Dewey var brautryðjandi á sviði flokkunar og kom fyrstur fram með það sem kalla má nútíma flokkunarkerfi. Önnur helstu flokkunarkerfi sem fram hafa komið síðan Dewey-kerfið kom út eru þessi, í tímaröð:

Expansive classification 1891-93

Universal decimal classification 1896

Subject classification 1906

Colon classification 1933

Bibliographical classification 1935

Library of Congress Classification 1899-1920

III.1 Expansive Classification

Charles Ammi Cutter er höfundur Expansive Classification. Hann ætlaði að nota Dewey-kerfið í bókasafni sínu en ákvað við nánari athugun að breyta því og stækka með því að nota bókstafi til að merkja flokka.54 Expansive classification, hér eftir kallað EC, saman-stendur af sjö sjálfstæðum töluliðakerfum eða töflum og möguleikar eru á skiptingu eftir formi og landssvæðum. Fyrstu sex töflurnar komu út á árunum 1891-93 en hin sjöunda 1896-1911. Þessar sjö töflur eru ætlaðar fyrir bókasöfn af mismunandi stærðum, hin fyrsta fyrir mjög lítil söfn, hin næsta fyrir stærri söfn og eftir því sem bókasafnið vex stækkar kerfið. Fyrsta taflan er með mjög fáa yfirflokka og enga undirflokka, Sú næsta hefur fleiri flokka og undirflokka en heldur sömu marktölum fyrir gömlu flokkana og fyrsta kerfið. Þannig er einnig með hin kerfin, þau bæta við flokkum og undirflokkum en halda alltaf gömlu marktölunum svo aldrei þarf að gera miklar breytingar.55

54 Wynar, 1976, bls. 303 55 Wynar, 1976, bls. 304

Page 28: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

27

Fyrsta kerfið inniheldur eftirfarandi 8 aðalflokka:

Handbækur

Heimspeki og trúarbrögð

Ævisögur

Saga, landafræði og ferðir

Félagsvísindi

Náttúruvísindi og listir

Tungumál og bókmenntir

Skáldskapur56

Í kerfi númer tvö verða aðalflokkarnir 15 og í fimmta kerfinu er allt stafrófið (26 stafir) notað til að tákna flokka. Í kerfinu eru notaðar tölur frá 1 til 9 fyrir form og tveggja stafa tölur frá 11 til 99 fyrir landfræðilega skiptingu.57 Marktáknun sem þessi, sem notar bæði bókstafi og tölustafi, kallast blönduð og er heldur flóknari en þær sem eru hreinar, þ.e. nota bara annað hvort. Cutter lést árið 1903, áður en hann lauk við flokkunarkerfi sitt, og sjöunda taflan kom út eftir andlát hans.58 Kerfi hans náði ekki mikilli útbreiðslu en lifir að nokkru leyti áfram í marktáknun Library of Congress-kerfisins.

III. 2 Universal Decimal Classification

Universal Decimal Classification var þróað af tveimur belgísk-um lögfræðingum, Paul Otlet og Henri LaFontaine árið 1885. Það var fyrst gefið út á frönsku árið 1899 og var byggt á Dewey-kerfinu en breytt með leyfi Deweys. Það hefur verið þróað áfram og gefið út á nokkrum tungumálum, m.a. ensku, þýsku, japönsku og rússnesku.59 Ætlunin var að búa til flokkunarkerfi sem nota mætti við flokkun á sérhæfðu efni, sérstaklega í vísindum og tækni. Í UDC eru marktölur byggðar upp frá hinu almenna til hins sérstaka og tugakerfið er notað eins og hjá Dewey en núllunum er sleppt. Uppbygging aðalflokka er lík því sem Dewey notaði en liðflokkunareiginleikar eru meiri og

56 Wynar, 1976, bls. 305 57 Wynar, 1976, bls. 306 58 Wynar, 1976, bls. 307 59 Wynar, 1985, bls. 399

Page 29: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

28

samsetningarmöguleikar mjög frábruðnir.60 UDC-kerfið nær meiri sveigjanleika með ýmsum táknum, svo sem plúsmerki, skástriki, tvípunkti, samasemmerki og hornklofa, sem notuð eru til að tengja saman flokka og gera úr þeim eina marktölu. Landstölur eru þær sömu og í Dewey-kerfinu, þær eru innan hornklofa og ekki þarf að setja 9 á undan þeim. Dæmi um marktölu í UDC: 327[42:44] (alþjóðasamvinna á milli Breta og Frakka). Nokkrar útgáfur af UDC hafa komið út og kerfið hefur orðið nokkuð útbreitt, sérstaklega í sérfræðisöfnum, þar sem það þykir henta vel vegna fjölbreyttra samsetningarmöguleika og sveigjanleika í niðurröðun liða. Að þessu leyti þykir UDC betra kerfi en DDC. Það er yfirgripsmeira og alþjóðlegra og efnislykillinn er vel heppnaður, en marktölur geta hins vegar orðið mjög langar.61

III. 3 Subject Classification

Subject Classification var fyrst gefið út fullgert árið 1906 en vísar að því höfðu komið út 1894 og 1897. Höfundur þess var James Duff Brown og það var eina almenna, breska flokkunarkerfið. Það var byggt upp á 11 aðalflokkum, merktum með bókstöfum, og grund-vallaratriði þess var að safna öllu því sem viðkom ákveðnu efni saman á einn stað en dreifa því ekki eftir því frá hvaða sjónarhóli um efnið var fjallað. Að þessu leyti er Subject Classification ólíkt öllum hinum flokkunarkerfunum. Marktáknunin er blönduð en einföld, einn stór stafur og tölustafir á eftir, og tiltölulega auðvelt að bæta við nýju efni. SC náði ekki mikilli útbreiðslu, það var einungis tekið upp í fáeinum litlum breskum söfnum og því hefur ekki verið haldið við.62

60 Wynar, 1976, bls. 311 61 Wynar, 1976, bls. 312 62 Wynar, 1976, bls. 308

Page 30: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

29

III. 4 Colon Classification

Í byrjun 20. aldar kom fram gagnrýni á töluliðakerfin og á 3. áratugnum komu fram fyrstu hugmyndir um liðflokkun.63 Colon Classification, sem kom fyrst út á Indlandi árið 1933, var fyrsta kerfið sem var eingöngu byggt á þessu hugtaki.64 Upphafsmaður þess var S.R. Ranganathan sem skrifaði mikið um flokkunarmál og var mjög áhrifamikill á því sviði. CC er eina flokkunarkerfið frá þessum tíma sem kalla má hreint liðflokkunarkerfi. Sum hinna hafa þó orðið það að einhverju leyti síðar, ekki síst UDC, og munu liðflokkunarhugmyndir Ranganathans hafa haft áhrif á endurskoðun annarra kerfa.65 Við lið-greiningu er efnisgrein liðuð í sundur og frumeindum hennar síðan raðað saman upp á nýtt í ákveðinni röð. Í kerfi Ranganathans er sér-hver liður samsettur úr fimm grundvallareigindum (PEORT), persónuleika, efni, orku, rúmi, tíma, og á marktáknun Colon-flokkunarkerfisins að spegla þessi 5 eigindi. Þar sem allt efni felur í sér einhverja af þessum 5 grundvallareigindum er auðvelt að bæta nýjum efnum inn í kerfið. Marktáknunin er blönduð, stórir stafir, litlir stafir og tölustafir eru notaðir og einnig greinarmerki svo sem komma, semikomma, tvípunktur, punktur og úrfellingarmerki. Hún hefur minnisgildi en getur orðið löng og heldur flókin. Kerfi Ranganathans varð ekki eins vinsælt og efni hefðu getað staðið til vegna þess að það er frekar torskilið en hugmyndir hans vöktu mikla athygli og hafa haft áhrif á síðari tíma flokkunarkerfi.66

III. 5 Bibliographic Classification

Bibliographic Classification eftir Bandaríkjamanninn Henry Evelyn Bliss kom út í ágripi árið 1935 en fullgert í fjórum bindum 1940-53, hið síðasta í röðinni af helstu almennu flokkunarkerfunum. Það var árangur ævistarfs höfundarins sem varði 30 árum í hönnun þess. Bliss setti fram hugmyndir, m.a. um liðgreiningu og samsetningu marktákna, á svipuðum nótum og Ranganathan og átti því mikinn þátt

63 Bury, 1974, bls. 9 64 Hunter, 1988, bls. 31 65 Bury, 1974, bls. 10 66 Wynar, 1976, bls. 314

Page 31: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

30

í að leggja grundvöll að flokkunarfræðum nútímans. Aðalkenningar Bliss voru þær að flokkunarkerfi skuli byggjast á öllum þekktum hug-myndum vísindagreina heimsins og rannsóknaraðferðum og starfs-háttum þeirra.67 Röð efnisflokka á að vera rökræn og koma notendum að sem mestu gagni, sérhæfðari fræðigreinar eiga að fylgja á eftir und-irstöðufræðigreinum og kerfið verður að veita valkosti.68 Þeir eru reyndar mjög margir í BC-kerfinu og söfn verða að ákveða hvert fyrir sig hvaða leið skuli velja svo ekki verði ósamræmi ríkjandi innan safns. Vitaskuld hlýtur að verða eitthvert ósamræmi í flokkun á milli safna af þessum sökum. Aðalefnisflokkar í BC eru merktir með bók-stöfum og röð þeirra er þessi: heimspeki, stærðfræði, raunvísindi, líf-fræðileg vísindi, félagsvísindi, listir,69 og auk þessara flokka er gert ráð fyrir almennum efnisflokki á undan hinum og eru marktákn hans tölu-stafir.70 Marktáknun er því blönduð, upphafsstafir, litlir stafir, tölustaf-ir og einnig kommur. Hjálpartöflur með landssvæða- og tímabilaskipt-ingum eru mikilvægur hluti BC í samsetningum þegar rit fjallar um fleira en eitt efni. Kerfið er mjög sveigjanlegt og tölur úr töflunum hafa minnisgildi. BC-kerfinu var ekki vel tekið í Bandaríkjunum en betur í Bretlandi og er talsvert notað í breskum söfnum.

III. 6 Library of Congress Classification

Library of Congress, Þingbókasafnið, í Washington, var sett á laggirnar árið 1800. Bækur safnsins voru um aldamótin orðnar næstum því ein milljón og þörf var á nýju flokkunarkerfi. LC vildi endurbæta Dewey-kerfið fyrir stór söfn og bað um leyfi til þess en Dewey neitaði þeim um það. Að mati Osborns er þetta einn mesti „harmleikur“ í sögu flokkunarfræða.71 Flokkunarkerfið sem kennt er við safnið var hannað af Herbert Putnam sem var bókavörður þar frá 1899-1939. Kerfið kom mestallt út í áföngum á árunum 1899-1920, einn aðalflokkur í einu, og má að nokkru leyti líta á hvern þeirra sem sérstakt flokkunarkerfi enda voru þeir hannaðir hver í sínu lagi af

67 Bury, 1975, bls. 213 68 Bury, 1975, bls. 215 69 Bury, 1975, bls. 216 70 Bury, 1975, bls. 217 71 Osborn, 1991, bls. 37

Page 32: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

31

ýmsum sérfræðingum. Atriði sem oft eru sameiginleg öllum flokkum í flokkunarkerfum, eins og t.d. skiptingar eftir landssvæðum og tímabilum, eru til dæmis ekki eins fyrir alla flokkana heldur sérstaklega gerð með þarfir hvers sviðs í huga. LC-kerfið er sérstakt að því leyti að það er byggt á ritunum sem til voru í safninu við gerð kerfisins og hefur þróast í samræmi við breytingar á safnkostinum. LC-kerfið er töluliðakerfi og bókstafir og tölustafir eru notaðir til marktáknunar, einn stafur táknar yfirflokka og tveir stafir undirflokka. Það er sveigjanlegt, samsetningarmöguleikar eru miklir og endalaust er hægt að bæta inn í það. Kerfið er afar fyrirferðarmikið, 30 bindi; 20 yfirflokkar og einn almennur flokkur og ná stærstu flokkarnir yfir fleiri en eitt bindi. Röðun flokka er svipuð og hjá Cutter og notkun hástafa fyrir aðalflokka er einnig sameiginleg þessum tveimur kerfum.72 Efnislyklar eru fyrir hvert svið en LC-kerfið hefur þann stóra galla að ekki er neinn almennur efnislykill fyrir kerfið í heild. Kerfinu er haldið nokkuð vel við, að vísu ekki jafnvel í öllum flokkum. Það þykir henta vel söfnum með mikinn bókakost, sérstaklega sérfræðisöfnum, og útbreiðsla þess er mikil á meðal stórra háskóla- og rannsóknarbókasafna, bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra.73

III. 7 Samanburður

Notkun

Flokkunarkerfi þarf að búa yfir ýmsum eiginleikum til þess að geta talist gott flokkunarkerfi og seint mun líklega verða til flokkunarkerfi sem fullnægir kröfum allra safnategunda. Helstu eiginleikar góðs flokkunarkerfis eru þessir: Það þarf að hafa víðtækt rúm fyrir þekkingu og vera sveigjanlegt, röðun flokka á að vera rökræn, marktáknunin einföld og kerfinu þarf að fylgja handhæg og vel uppbyggð efnisorðaskrá.

Flokkunarkerfi þau sem hefur verið fjallað um hér á undan eru ýmist liðflokkunarkerfi eða töluliðakerfi eða þá blanda af þessu tvennu. Í liðflokkunarkerfum, þar sem einungis hugtök eru táknuð en

72 Wynar, 1976, bls. 284 73 Wynar, 1976, bls. 283

Page 33: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

32

flokkstölur búnar til með samsetningum, er yfirleitt auðveldara að bæta við nýjum efnum. Þau eru auk þess oft táknuð með samsetningu hugtaka sem þegar eru til í kerfinu. Annar kostur liðflokkunarkerfa er sá að þau eru yfirleitt fyrirferðarminni en samt víðtækari, þ.e.a.s. hægt að tákna bæði einföld og flókin efni.74

Í töluliðakerfum er reynt að koma fyrir sem flestum hugtökum innan allra efnisgreina, setja þau í ákveðið kerfi og gefa þeim marktákn. Þau byggjast á niðurröðun hverrar efnisgreinar í undirflokka og undirdeildir þeirra. Kostir töluliðakerfa eru m.a. að marktölur eru oft stuttar og einfaldar og marktáknunin getur auðveldlega sýnt uppbyggingu kerfisins. Helstu gallar töluliðakerfa eru þeir að þau eru sjaldnast tæmandi, þ.e.a.s. hæpið er að hægt sé að telja upp öll hugtök. Þau eru ekki nákvæm, erfitt er að koma fyrir efnum sem hafa gleymst og þörf er á nýjum útgáfum til að koma fyrir nýju efni.75 Þau eru gjarnan fyrirferðarmeiri en liðflokkunarkerfin.

Hreinasta liðflokkunarkerfið af áðurnefndum kerfum er Colon-flokkunarkerfið og þar næst er UDC. BC er bæði liðflokkunarkerfi og töluliðakerfi. UDC er samkvæmt Wynar víðtækasta flokkunarkerfið, það hefur 100.000 skiptingar (divisions) í aðaltöflunum samanborið við 11.000 í Dewey.76 Dewey var í upphafi töluliðakerfi en hefur þróast í átt að liðflokkun m.a. með fjölgun hjálpartaflna. SC og EC eru töluliðakerfi og sömuleiðis LCC sem er hið þekktasta af þeim. Þótt LCC sé töluliðakerfi er það uppbyggt í raun eins og mörg lítil kerfi og er því móttækilegra fyrir viðbótum en hin töluliðakerfin, enda afar um-fangsmikið.77 Tiltölulega auðvelt er líka að bæta nýjum efnum inn í Colon, BC og UDC sem er í samræmi við það að þau hafa mestu lið-flokkunareiginleikana.

Mesta áhersla á rökrétta röðun efnisflokka er í BC en flest hinna kerfanna eru líka byggð á tiltölulega rökrænni röðun. Dewey-kerfinu hefur þó þótt vera ábótavant í þessu efni, m.a. vegna þess að í því eru aðalflokkarnir bókmenntir og tungumál aðskildir og einnig saga og félagsfræði. UDC hefur svipaða röðun efnisflokka og Dewey. Við skipulagningu efnisflokka í LCC og EC hefur rökrétt röðun ekki verið aðalatriði. Richmond tekur svo til orða um LC-kerfið:

74 Hunter, 1988, bls. 58 75 Hunter, 1988, bls. 59 76 Wynar, 1976, bls. 312 77 Richmond, 1990, bls. 20

Page 34: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

33

In some places, it is impossible from looking at the coding, to figure

out the basis for putting one class next to another.78

Marktáknun er atriði sem skiptir miklu máli við mat á flokkun-arkerfum. Hún er það sem að notendum snýr og þess vegna ekki síst er mjög mikilvægt að hún sé skýr, einföld og fljótlærð. Áður hefur verið minnst á að marktáknun er ýmist hrein, þ.e.a.s. ein tegund tákna, eða blönduð þegar fleiri tegundir tákna eru notaðar, t.d. bæði bókstafir og tölustafir og e.t.v. líka ýmis greinarmerki. Öll kerfin sem hér hefur verið minnst á nema Dewey-kerfið nota blandaðar marktölur. Kostir þess að halda sér við hreina marktáknun eru þeir að hún er einfaldari og auðskiljanlegri, auðveldara er að muna hana og þægilegt að raða í hillur eftir henni. Líklega er auðveldara að muna marktölur sem byggjast á tölustöfum eins og í Dewey heldur en á bókstöfum. Stig-veldisbygging Dewey-kerfisins speglast í marktölunum og notendur átta sig því á hvernig það er byggt upp:

800 bókmenntir

820 enskar bókmenntir

822 ensk leikrit

822.3 ensk leikrit á tímum Elísabetar I

822.33 Shakespeare

Gallar þess að nota hreina marktáknun eru hins vegar þeir að samsetningarmöguleikar verða yfirleitt takmarkaðri og marktölur geta orðið býsna langar ef nákvæmt er flokkað. UDC-kerfið sem notar svipaðar marktölur og Dewey-kerfið (án núlla) er gert sveigjanlegra og nákvæmara með því að nota fjölbreyttari tákn í marktölum þess. Blandaðar marktölur eru hins vegar miklu flóknari, það er erfitt að raða í hillur eftir þeim og það er erfiðara að muna þær.

Efnislykill UDC-kerfisins þykir vel heppnaður.79 Sömuleiðis þykir efnislykill Dewey-kerfisins mjög gagnlegur en hann er mikill að vöxtum og nær yfir mikinn fjölda efna. LCC-kerfið hefur efnislykil fyrir hvert svið og vísa þeir ekki á milli sviða. Það hefur ekki efnislykil fyrir kerfið í heild og er það galli þótt að vísu þyki kerfið virka furðu vel án hans eða eins og Richmond segir:

78 Richmond, 1990, bls. 20 79 Wynar, 1976, bls. 312

Page 35: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

34

The fact that it survives without a general index suggests that the

various parts stand alone quite well, ... 80

Útbreiðsla

Dewey-kerfið er án efa útbreiddasta almenna flokkunarkerfið í heiminum og er notað í meira en 200.000 söfnum í 135 löndum. Um 90% safna í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi nota Dewey og það er notað í mörgum þjóðbókaskrám. Það næsta í röðinni er UDC sem er meira notað í Austur-Evrópu heldur en Dewey-kerfið.81 UDC þykir henta betur og hefur orðið útbreiddara í sérfræðisöfnum heldur en Dewey-kerfið, það er einnig hannað fyrir tímaritsgreinar. LCC er útbreiddast meðal háskólasafna og allmörg stór söfn skiptu yfir í LC-kerfið frá Dewey í kringum 1970. EC-kerfið og SC-kerfið náðu hvorugt fótfestu, SC var einungis tekið upp í fáeinum litlum söfnum í Bretlandi. Þrátt fyrir marga kosti BC-kerfisins náði það ekki að ógna DDC og LCC af alvöru82 og það sama má segja um Colon-kerfið sem ekki náði mikilli útbreiðslu heldur. Ljúkum þessum kafla með orðum Richmond í umfjöllun um helstu almennu flokkunarkerfin:

Of these, Bliss is by far the most logical, but it was completed, as was

the case with Colon, so late that the others were too well entrenched

for it to replace them.83

80 Richmond, 1990, bls. 20 81 Sweeney, 1991, bls. 11 82 Wynar, 1976, bls. 308 83 Richmond, 1990, bls. 19

Page 36: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

35

IV. Helstu kostir og gallar Dewey-kerfisins IV. 1 Styrkur kerfisins

Notkun í flokkunar- og skráningarmiðstöðvum

Þegar bókaverðir standa frammi fyrir því að þurfa að velja eða skipta um flokkunarkerfi kemur margt til álita umfram það auðvitað að velja gott kerfi sem er líklegt til að duga viðkomandi safni vel. Ýmsar hagkvæmnisástæður skipta oft miklu máli í þessu sambandi og er þá líklega þyngst á metunum hvort kerfið er alþjóðlegt, notað í flokkunar-miðstöðvum og flokkunartölur þess birtast í MARC-færslum, CIP, BNB eða í öðrum þjóðbókaskrám. Ef svo er sparar það bókavörðum mikla vinnu og fjármuni sem ekki er svo lítið atriði. Í þessu hefur Dewey-kerfið yfirburðastöðu, a.m.k. á Vesturlöndum. Ekkert annað kerfi er notað eins víða í þjóðbókaskrám og flokkunartölur þess eru á flestu efni sem flokkað er í Library of Congress. Þetta hefur ýtt mjög undir notkun kerfisins í þeim löndum sem þessar miðstöðvar þjóna sem aftur leiðir af sér að þær halda áfram að nota kerfið.84 Nokkrir staðir þar sem Dewey marktölur birtast: Íslensk bókaskrá

British National Bibliography

Gríska þjóðbókaskráin

Indian Books in Print

Ítalska þjóðbókaskráin

Norska þjóðbókaskráin

Library of Congress - spjöld

Marcbönd (frá LC)

Standard Catalog Series - Book Review Digest

Publishers Weekly-American Book Publishing Record

ALA - Booklist

CIP

84 Trotter, 1984, bls. 2

Page 37: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

36

Örugg framtíð kerfisins

Annað atriði sem mikilvægt er að ígrunda er hvort kerfinu er haldið við, þ.e.a.s. hvort útgefendur þess eru í stakk búnir til þess að gefa reglulega út nýjar útgáfur eða viðbætur fyrir nýtt efni eftir því sem þörf er á. Gæði kerfisins eru því ekki það eina sem máli skiptir í þessu sambandi. Elaine Svenonius kemst svo að orði:

Actually, it is sad to stand by and watch the gradual demise of certain

elegant classifications which, because of lack of funds, cannot

continue to be maintained.85

Dewey-kerfið hefur alltaf átt sterkan bakhjarl. Á meðan Melvil Dewey var á lífi stýrði hann öllum þáttum framleiðslunnar á kerfinu, hvort sem um var að ræða ritstjórn, endurskoðun á því eða fjármálun-um.86 Árið 1924 fékk Lake Placid Club Education Foundation höfundarrétt að Dewey-kerfinu. Þau skilyrði voru sett að hagnaður af útgáfu þess rynni til endurbóta á því og var það gert í þeim tilgangi að það yrði ekki gert að gróðafyrirtæki.87 Dewey hélt þó í stjórnartaumana þar til hann lést árið 1931. Frá árinu 1933 sá Forest Press um útgáfuna og markaðsmálin en ritstjórar báru faglega ábyrgð. ALA (American Library Association) reyndi nokkrum sinnum að koma því á að bókaverðir hefðu meiri áhrif á þróun kerfisins og voru ýmsar nefndir settar á laggirnar í þeim tilgangi, sú fyrsta 1916. Sú næsta var stofnuð um 1932 og varð fljótlega (1937) að Decimal Classification Comittee og var hennar hlutverk að hafa eftirlit með þróun kerfisins. Árið 1951 var nefndin kölluð Decimal Classification Editorial Policy Committee sem hún kallast enn í dag. Í henni eiga m.a. sæti fulltrúar frá ALA og LC, síðan 1973 fulltrúi frá Library Association í Bretlandi og síðar einnig frá Kanada. Það sýnir skilning ritstjóra á nauðsyn þess að tryggja alþjóðlegan framgang kerfisins,88 en 50% af sölu kerfisins á frummálinu er nú til annarra landa en Bandaríkjanna.89 Bandarísk áhersla kerfisins hefur farið minnkandi og það verður smám saman alþjóðlegra, þótt ýmsir vildu sjá enn meiri breytingar. Vilji til breytinga og aðlögunar að þörfum notenda er fyrir hendi og það gerir kerfið álitlegan kost. Síðan 1988 hefur OCLC verið

85 Svenonius, 1981, bls. 94 86 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 16 87 Friis-Hansen, 1976b, bls. 228 88 Friis-Hansen, 1976b, bls. 228 89 Trotter, 1984, bls. 2

Page 38: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

37

eigandi Dewey-kerfisins og framtíð kerfisins virðist trygg úr þessu. Það gerir það eftir-sóknarvert í augum þeirra sem þurfa að velja flokkunarkerfi fyrir söfn sín.

Marktölur

Marktáknun bóka er það sem notendur bókasafna komast fyrst í kynni við. Hún er í Dewey-kerfinu afskaplega einföld, gegnsæ og auð-skilin og tugaskiptingin speglar vel uppbyggingu kerfisins. Þetta er mjög mikilvægt fyrir notendur kerfisins sem eru fljótir að átta sig á notkun þess. Minnisgildi talnanna getur líka auðveldað mönnum að læra og muna þær. Ennfremur er kostur við marktáknunina að ef mark-tala þykir of löng má stytta hana án þess að merking breytist, flokkur-inn verður einungis víðari, og ef þrengja á flokkun þarf yfirleitt einungis að bæta við tölum.

Valkostir

Kerfið býður upp á ýmsa valkosti (sjá kafla 5) og býr yfir talsverðum samsetningareiginleikum, með hjálpartöflum og fleiru, en nánar er fjallað um það í 1. kafla. Þessi atriði auka sveigjanleika kerfisins í flokkun.

Efnislykill og handbók

Dewey-kerfinu er styrkur í öflugum efnislykli og ágætri handbók sem í 20. útgáfunni varð hluti af kerfinu.

Kunnugleiki

Dewey-kerfið hefur verið í notkun lengur og víðar en nokkuð annað almennt kerfi og kemur því mörgum kunnuglega fyrir sjónir. Þetta getur haft sín áhrif þegar velja á kerfi.

Stöðugleiki

Þrátt fyrir ýmsar breytingar á Dewey-kerfinu í gegnum árin er aðaluppbyggingin tiltölulega lítið breytt og því hægt að leita að efni aftur í tímann með nokkurri vissu um að það sé á svipuðum stað og

Page 39: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

38

nýrra efni. Grundvallaratriðin eru látin halda sér þótt endurskoðun sé sífellt í gangi til þess að gera það nútímalegra.

IV. 2 Veikleikar kerfisins

Skipulag flokka og undirflokka

Röð aðalflokka í Dewey-kerfinu hefur ekki þótt rökrétt. Mest hefur borið á óánægju með að aðskilja tungumál (400) frá bókmennt-um (800) og einnig landafræði (900) frá náttúruvísindum (500) vegna þess að efni í þessum flokkum er að mörgu leyti mjög skylt. Einnig er langt á milli félagsfræði (300) og sagnfræði (900). Ennfremur hefur það þótt vera til óhagræðis þegar fræðigreinar skiptast á milli aðal-flokka og má sem dæmi um þetta nefna að raunvísindi og hagnýtt vísindi skiptast í tvo aðalflokka, 500 og 600.

Tugaskiptingin er líka að vissu leyti ólán. Það hentar auðvitað ekki endilega að skipta allri þekkingu manna niður á tíu aðalsvið og þeim svo aftur í 10 undirdeildir. Fyrir bragðið verða stórar fræði-greinar að vera undirskipaðar einhverju öðru og má sem dæmi um þetta nefna læknisfræðina sem er í 610 og landbúnaðinn sem er í 630, báðar undirskipaðar tækni (600). Á sumum sviðum eru 10 undirdeildir fullnægjandi en á öðrum alls ekki og þá vantar pláss.

Sálfræðingar hafa gagnrýnt undirskipan sálarfræðinnar (150) undir heimspeki (100). Þróun fagsins hafi auk þess verið hröð og ekki hafi verið séð fyrir nýjun greinum innan hennar. Soudek er óvæginn í gagnrýni sinni á Dewey-kerfið og kveður skyld verk í sálarfræði dreifast um allt safn samkvæmt flokkun þess.90 Hvort skipan sálar-fræðinnar í 150 getur talist galli á kerfinu sem slíku er umdeilanlegt; það er líklega smekksatriði hvort hún er í 100, 300 eða 600. Ekki er trúlegt að sálarfræðin verði flutt í bráð, þvert á móti eru yfirflokkarnir líklega það sem síst mun breytast í kerfinu. Hins vegar kann það að vera rétt að þróun greinarinnar hafi verið svo hröð að kerfið hafi ekki getað brugðist við henni. Ef rit í sálarfræði dreifast meira en góðu hófi gegnir er það að vissu leyti skiljanlegt vegna eðlis greinarinnar, hún er mjög víðfeðm og kemur inn á mörg svið. Hér kemur enn við sögu

90 Soudek, 1980, bls. 115

Page 40: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

39

vandamál Dewey-kerfisins, sem sé að halda í gömlu flokkstölurnar en reyna þó að láta kerfið aðlagast nýjum eða breyttum fræðigreinum.

Skipting bókmennta eftir tungumálum

Það hefur sætt gagnrýni að skipta bókmenntum fyrst eftir tungumáli. Slíkt skilur að bókmenntir sömu þjóðar ef fleiri en eitt mál er talað innan hennar og færir bókmenntir einnar þjóðar undir aðra sem talar sömu tungu. Sem dæmi má nefna færeyskar bókmenntir á dönsku sem flokkast með dönskum bókmenntum og annað nærtækt dæmi eru rit Gunnars Gunnarssonar sem hann skrifaði á dönsku og flokkast því sem danskar bókmenntir (þó ekki hér á landi). Eina undantekningin í kerfinu eru bandarísku bókmenntirnar sem ekki er gert ráð fyrir að flokkist með þeim ensku. Utan Bandaríkjanna og Bretlands er það þó oft raunin, m.a. hér á landi, því að 810-flokkurinn er tekinn fyrir bókmenntir heimalandsins, hér íslenskar bókmenntir, samkvæmt tillögu í kerfinu sjálfu.

Sumum þykir sem landsvæði ætti ekki síður að vera mikilvægt í skiptingu bókmennta heldur en tungumál. Þetta má til sanns vegar færa þar sem tungumálið eitt afmarkar vissulega ekki rót bókmenntanna. Sameiginlegt umhverfi og menning hljóta líka að setja svip sinn á bókmenntir þjóða. Pacey telur að sú staðreynd að tungumál ráði skiptingu bókmennta sé leifar af heimsvalda- og nýlendustefnu sem Dewey-kerfið endurspegli og það séu einungis fá tungumál sem séu allsráðandi, sem sé enska, franska og spænska.91 Ástralskar bók-menntir eru samkvæmt þessu ekki til, nema í Ástralíu þar sem nota má 810-flokkinn fyrir þær. Bókmenntir Suður-Ameríku eru annað hvort spænskar eða portúgalskar. Afrískar bókmenntir dreifast í mjög marga flokka, m.a. í enskar, hollenskar, franskar, spænskar og portúgalskar auk bókmennta á tungumálum frumbyggja sem eru geysimörg. Á hinn bóginn getur líka verið hagstætt að tungumál ráði skiptingu, t.d. þegar um er að ræða minnihlutahópa eða þjóðarbrot sem tala eigið tungumál. Pacey mælir með því að fyrsta skipting bókmennta verði eftir landsvæðum en önnur eftir tungumálum áður en kemur að skiptingu eftir bókmenntaformi.92 Segja má að erfitt sé að hafna eða halda fram annarri hvorri leiðinni því báðar hafi kosti og galla.

91 Pacey, 1989, bls. 102 92 Pacey, 1989, bls. 106

Page 41: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

40

Hlutdrægni

Gagnrýni hefur komið frá ýmsum löndum, sérstaklega utan Evrópu, sem eru óánægð með tímabilaskiptingu og skiptingu þjóðar sinnar eftir landssvæðum. Þeim finnst sem saga þessara þjóða hafi ekki verið álitin nein fyrr en áhrifa Evrópuþjóða fór að gæta hjá þeim. Með-höndlun höfunda flokkunarkerfa á þessum þjóðum endurspegli það álit sem vestrænar þjóðir hafi haft á þeim á þeim tíma sem kerfin urðu til, í þessu tilfelli á 19. öld. Það sem gerðist fyrir nýlendutímann sé auka-atriði og á honum hafi mestu máli skipt hvað Evrópubúar voru að að-hafast í hinum ýmsu löndum en ekki hinir innfæddu.93 Notkun Dewey-kerfisins víða um heim hlýtur að leiða til þess að farið verði fram á endurbætur á þessu sviði.94 Þetta er reyndar þegar farið að skila sér því ýmsar breytingar í þessa átt eiga sér stað í kerfinu smám saman.95 Amankwe finnur einnig mjög margt að uppbyggingu þeirra flokka í Dewey-kerfinu sem Afríka fellur inn í, hvort sem um er að ræða sagn-fræði, þjóðfræði, landafræði, tungumál eða trúarbrögð og segir litla möguleika vera fyrir hendi á endurbótum eða útvíkkunum.96 Í sama streng tekur Iwuji í grein um sama efni. Hann bendir t.d. á að í sögu Afríku eru ýmis ríki undirskipuð Suður-Afríku sem ekki eiga þar heima, landstölur fyrir Afríku séu ófullnægjandi og sömuleiðis Tafla 5 (þjóðir).97

Hér hafa flokkunarvandamál á málefnum Afríku verið tekin sem dæmi. Fleiri þjóðir standa í sömu sporum hvað þetta varðar og endurspegla þessi mál tvenns konar togstreitu sem aðstandendur kerfisins glíma við. Annars vegar á milli þess að bæta kerfið og breyta þó ekki of miklu, alla vega ekki í einu, og hins vegar á milli þess að halda vestrænni áherslu og gera kerfið alþjóðlegra. Mörg skref hafa verið tekin í síðustu útgáfum kerfisins í þá átt að minnka vestræn áhrif og taka til greina ábendingar frá öðrum þjóðum. Sú stefna var tekin af ritstjórnarnefndinni árið 1985 að sagnfræðilegar tímabilaskiptingar landa yrðu endurskoðaðar ef opinberir aðilar viðkomandi þjóða færu

93 Amankwe, 1972, bls. 179 94 Pacey, 1989, bls. 103 95 Amankwe, 1972, bls. 179 96 Amankwe, 1972, bls. 188 97 Iwuji, 1989, bls. 6

Page 42: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

41

fram á það, þó með þeim varnagla að í aðalútgáfu yrði það ekki endilega eins ítarlega og beðið væri um.98

Annað

Stigveldisuppbygging Dewey-kerfisins getur í stöku tilfellum valdið vandamálum þegar flokka á þröngt. Sem dæmi um þetta má taka flokkinn 641.5, eldamennska:

641.52 morgunmatur

641.53 hádegismatur

641.54 kvöldmatur

...

641.56 fyrir sérstök tækifæri

641.561 fyrir einn eða tvo 99

Hér er ekki hægt að flokka nákvæmlega t.d. bók sem fjallar um það að elda kvöldmat fyrir einn. Það þarf að velja annað hvort 641.54 eða 641.561, eða þá láta nægja að nota töluna 641.5.

Ýmsir gallar sameiginlegir öðrum töluliðakerfum eiga við um Dewey-kerfið að einhverju leyti. Ónákvæmni, ófullkomin upptalning á hugtökum og vandkvæði við að koma fyrir nýjum efnum vegna þess að ekki er hægt að búa til marktölur eru meðal þessara galla. Á hinn bóginn hefur það líka verið gagnrýnt fyrir of mikla þenslu, á sumum sviðum sé nákvæmnin orðin allt of mikil. Í þessu sambandi má nefna lengd marktalna sem í Dewey-kerfinu geta orðið töluvert langar ef þröngt er flokkað.

Ennfremur hefur efnisorðaval kerfisins verið gagnrýnt, ásamt staðsetningu hugtaka í stigveldinu. Það getur þó varla talist galli á kerfinu sjálfu, það er frekar spurning um útfærslu.

98 Beall, 1991, bls. 77 99 Hunter, 1988, bls. 44

Page 43: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

42

V. Aðlögun að ýmsum sjónarhornum

V.1 Breyttar útgáfur

Dewey-kerfið varð fljótt vinsælt utan Bandaríkjanna og er nú algengasta almenna flokkunarkerfið í heiminum, notað í yfir 200.000 söfnum í 135 löndum víðs vegar.100 Um eða yfir 50% af sölu kerfisins á frummálinu er nú utan Bandaríkjanna og það hefur verið þýtt á u.þ.b. 35 tungumál, stundum óbreytt en þó líklega oftar með ýmsum aðlög-unum. Þessi mikla alþjóðlega notkun á kerfinu hefur lagt aðstandend-um þess þær skyldur á herðar að koma að einhverju leyti til móts við kröfur hins alþjóðlega notendahóps. Mikil notkun þess í ýmsum breyttum útgáfum hefur þótt afar óheppileg fyrir stöðu kerfisins sem alþjóðlegs staðlaðs kerfis og því ýtt við útgefendum þess að taka sjálfir þátt í því að aðlaga það kröfum erlendra notenda. Þeim er mikið í mun að hinar ýmsu útgáfur kerfisins séu unnar undir þeirra stjórn og með þeirra samþykki.101 Aðlögun kerfisins er talsvert erfitt og flókið mál þar sem það var upprunalega ekki búið til með alþjóðlega notkun í huga102 heldur byggt á bókum sem til voru í Amherst-bókasafninu og endurspeglaði því eðlilega bandarískt þjóðfélag á þeim tíma. Menning og saga margra þjóða sem nota Dewey-kerfið er vissulega mjög ólík menningu vestrænna þjóða og því hlýtur oft að vera ríkuleg ástæða til aðlögunar. Í hverri nýrri útgáfu, sérstaklega frá og með 16. útgáfu, hefur verið reynt að minnka hina vestrænu áherslu en seint mun þó vera möguleiki á eða vilji til að útiloka hana algerlega.

Ýmsar aðferðir eru notaðar í því skyni að auka vinsældir kerfis-ins erlendis, m.a. endurskoðun og viðbætur á þeim sviðum sem reynst hafa ófullnægjandi. Alþjóðlegar kannanir hafa verið gerðar á notkun kerfisins til þess að finna út hvar helst væri þörf á úrbótum.103 Sömu-leiðis hafa ráðstefnur verið haldnar og opinberar, samþykktar

100 Sweeney, 1991, bls. 11 101 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 33 102 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 32 103 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 34

Page 44: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

43

þýðingar á kerfinu gefnar út. Í auknum mæli hafa útgefendur kerfisins fengið aðila innan hinna ýmsu svæða eða landa til liðs við sig við endurskoð-anir.104 Bretar sáu t.d. um endurskoðun á landstölum sínum, -41/42, og Japanir tóku þátt í að endurskoða sína landstölu, -52. Hjá flestum þjóð-um er mesta vandamálið flokkun á bókmenntum, sögu og landafræði, auk þess sem trúarbrögð og tungumál eru oft erfið viðfangs.

Í kaflanum Indology in Dewey Decimal Classification í bók Comaromis og Satija, Dewey Decimal Classification: history and current status, er fjallað sérstaklega um opinberar útgáfur (authorized adaptations) og óopinberar útgáfur (unauthorized adaptations) Dewey kerfisins.105

Opinberar útgáfur

Dewey-kerfið býður upp á ýmsa valkosti sem gera erlendum notendum kleyft að aðlaga kerfið þörfum sínum. Í fyrsta lagi má bæta bókstöfum við flokkstölu og auðkenna þannig ákveðið land. Í öðru lagi má skipta um flokkstölur á bandarísku efni og efni viðkomandi lands. Til dæmis má taka bókmenntir hvaða tungu sem er og setja í stað bandarískra bókmennta í 810 eins og gert er hér á Íslandi og flokka bandarísku bókmenntirnar með þeim ensku í 820 eða setja þær í þann flokk sem viðkomandi bókmenntir voru teknar úr. Á sama hátt er hægt að skipta út kristinni trú fyrir einhverja aðra úr 290-flokknum106 og hið sama má gera við aðra flokka eftir þörfum, taka jafnvel landstölur U.S.A -74–79 og gera að sínum. Þetta er auðvitað ekki vandalaust og býður upp á ósamræmi, sérstaklega ef einstök söfn taka þessa valkosti. Auk þess verður það til þess að viðkomandi safn getur ekki notað flokkunartölur skráningar- og flokkunarmiðstöðva og þjóðbókaskráa. Þessir valkostir hafa verið teknir upp í ýmsum þýðingum á kerfinu og á þann hátt er þó samræmi innan landsins þótt ekki sé það í samræmi við alþjóðlegu útgáfuna.107

104 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 34 105 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 44 106 Sweeney, 1991, bls. 20 107 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 45

Page 45: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

44

Óopinberar útgáfur

Áður hefur verið drepið á hina miklu notkun kerfisins í ýmsum mismunandi mikið breyttum útgáfum en það hefur verið algengasta lausnin á staðbundnum vandamálum í flokkun. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar til að athuga notkun kerfisins erlendis og þær hafa leitt í ljós gífurlega mikinn fjölda breyttra útgáfna, t.d. þá íslensku. Comaromi og Satija telja það ekki ýkjur að hægt sé að telja þau söfn sem nota kerfið óbreytt á fingrum annarrar handar.108 Ein könnun sýndi að meira en 200 breyttar útgáfur væru til. Sumar hefðu verið gerðar til þess að bæta úr brýnni þörf en aðrar væru tilraunaútgáfur sem hefðu ekki endilega verið teknar í notkun.109 Sum söfn nota tvö kerfi, Dewey fyrir almennt efni og heimatilbúið kerfi fyrir innlent efni.110

V. 2 Ólík lönd - menningarsvæði

Hér munu tekin nokkur dæmi um aðlögun Dewey-kerfisins í löndum utan Bandaríkjanna.

Indland

Indverjar áttu sinn eigin frumkvöðul í bókasafnsmálum í Ranganathan en samt sem áður hefur Dewey-kerfið orðið gífurlega vinsælt á Indlandi. Indverjar kynntust kerfinu fyrst árið 1915 og það er notað í þjóðbókasafninu í Kalkútta og í indversku þjóðbókaskránni.111 Það þótti samt strax ófullnægjandi til flokkunar á efni sem varðaði Indland og ýmsar breyttar útgáfur á því voru unnar í því skyni að aðlaga það indverskum veruleika.112 Árangur þess var misjafn, sumar útgáfurnar hafa verið notaðar eitthvað en aðrar minna eða ekkert.

Indverskir bókaverðir hafa verið mjög ötulir að gagnrýna Dewey-kerfið og koma sjónarmiðum sínum á framfæri og það hefur skilað sér í breytingum á nýjum útgáfum kerfisins. Árið 1976 kom út tímamótaútgáfa á Indlandi en það var opinber þýðing á kerfinu á

108 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 45 109 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 51 110 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 45 111 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 46 112 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 47

Page 46: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

45

Hindú. Hún var byggð á 18. útgáfunni og gefin út af Forest Press.113Í þessari þýðingu, sem ekki er í fullri lengd, voru notaðir ýmsir valkostir sem kerfið býður upp á, t.d. það að skipta um flokksnúmer eins og áður hefur verið lýst. 810-19 er bókmenntir Hindúa og 353 er indversk stjórnsýsla (en ekki bandarísk). Ýmsar fleiri breytingar voru gerðar í þessari þýðingu og svo virðist sem hún hafi, ásamt 19. og 20. útgáfunum, leyst mörg vandamál. Samkvæmt Comaromi og Satija hefur kvörtunum linnt eftir að þýðingin á Hindú kom út.114

Arabaþjóðir

Fyrsta útgáfa af Dewey-kerfinu á meðal Arabaþjóða kom út í Egyptalandi árið 1929. Síðar fylgdu í kjölfarið ýmsar útgáfur en þær áttu það allar sameiginlegt að vera unnar af einstaklingum án alls samráðs við stofnanir, félög eða aðra bókaverði. Að ýmsu leyti stuðluðu þessar útgáfur að stöðnun í bókasöfnum á þessu svæði þar sem þær töfðu fyrir stöðlun í flokkun.115 Á hinn bóginn hafa þær samt ýtt undir notkun Dewey-kerfisins í arabískum bókasöfnum en nú nota nálægt 26000 arabísk söfn Dewey-kerfið í einhverri mynd.116 Árið 1982 kom út opinber útgáfa af kerfinu sem Forest Press tók þátt í og var það í samræmi við stefnu útgefenda kerfisins á þessum tíma að reyna að binda endi á útgáfu óopinberra, breyttra útgáfna af kerfinu og stuðla að samræmingu í þýðingum og breytingum á því.117

Arabíska útgáfan er byggð á 11. styttu útgáfunni af Dewey með viðbótum úr 19. útgáfunni.118 Í henni hefur heimur Araba forgang og því er þar t.d. skipt um númer á kristinni trú og Múhameðstrú. Arabíska er í 410, arabískar bókmenntir í 810-19 og í sagnfræðinni eru hin ýmsu lönd Araba sett í flokka hvert nálægt öðru en ekki á víð og dreif eins og í ensku útgáfunni.119 Margar fleiri breytingar voru gerðar en þessi útgáfa hefur samt ekki þótt fullnægjandi og henni hefur heldur ekki verið haldið við eins og til stóð að gera. Mikill áhugi

113 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 54 114 Comaromi og Satija, 1988a, bls. 58 115 Aman og Salem, 1991, bls. 35 116 Aman og Salem, 1991, bls. 36 117 Aman og Salem, 1991, bls. 37 118 Aman og Salem, 1991, bls. 38 119 Aman og Salem, 1991, bls. 44

Page 47: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

46

er í heimi Araba á þýðingu og aðlögun á 20. útgáfu kerfisins í fullri lengd.120

Danmörk

Mest notaða flokkunarkerfið í almenningssöfnum í Danmörku er breytt útgáfa af Dewey-kerfinu, „danski Dewey“, Danish Decimal Classification System (líka kallað DK). Friis-Hansen kallar þetta kerfi „óskilgetið afkvæmi Dewey-kerfisins“,121 sennilega vegna þess hve mikið það er frábrugðið upprunalega kerfinu. Það hefur komið út í fimm útgáfum, DK1 (1915) – DK5 (1970) og er notað í almennings-bókasöfnum, skólasöfnum, Konungsbókhlöðu, Bókasafni Kennara-skólans og í dönsku þjóðbókaskránni. UDC er á hinn bóginn frekar notað í rannsóknar- og sérfræðisöfnum. DK á rætur sínar að rekja til 7. útgáfu Dewey-kerfisins sem kom út árið 1911. Þetta kerfi er ólíkt þeim kerfum sem fjallað hefur verið um hér á undan að því leyti að þó það sé rakið til Dewey-kerfisins eru breytingarnar talsvert miklar. Ein af ástæðunum fyrir breytingunum var staðsetning Norðurlandanna í kerfinu, þau eru öll með fimm stafa tölu í því áður en til þess kemur að skipta þeim niður í landshluta, t.d. landafræði Danmerkur 914.89. Tugstafakerfið var notað áfram en marktáknuninni breytt þannig að tvær tölur voru látnar nægja sem grunntala, þ.e.a.s. 900 varð 90 o.s.frv. Aðalflokkarnir eru þeir sömu, nema hvað landafræði og ferðir eru teknar úr 900-flokknum og settar í 40, málfræðin fer í flokk tengdan bókmenntunum (89) en það er breyting sem margir myndu vilja sjá í upprunalega Dewey-kerfinu. Landfræðilegar tölur og málfræðilegar hafa minnisgildi eins og í Dewey. Tvenns konar skrár fylgja kerfinu, stafrófsskrá efnisorða og er þar vísað í þau svið þar sem efnið er að finna, svipað og efnislykillinn í Dewey, og flokkuð skrá, en þar eru undir flokkstölunni þau efnisorð sem tilheyra viðkomandi flokki.122

120 Aman og Salem, 1991, bls. 45 121 Friis-Hansen, 1976a, bls. 91 122 Decimal-klassedeling, 1992, bls. ix

Page 48: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

47

V. 3 Útgáfur fyrir lítil söfn

Styttar útgáfur

Dewey-kerfið þykir henta best meðalstórum söfnum þótt það sé notað í söfnum af öllum stærðum. Samkvæmt Osborn er ritafjöldi á meðalstóru safni frá u.þ.b. eitthundrað þúsund upp í eina milljón.123 Fyrsta útgáfa Dewey-kerfisins (1876) var einungis 44 síður á lengd en samt þótti sumum sem hún væri óþarflega nákvæm fyrir lítil söfn. Þegar árið 1894 kom út fyrsta stytta yfirlitið yfir kerfið til þess að koma til móts við óskir bókavarða á litlum söfnum, en styttu útgáfurn-ar hafa ekki verið endurútgefnar jafn ört og hinar. Styttu útgáfurnar voru ýmist í samræmi við óstyttu útgáfuna (1.-2. og 6.-9. útg.) eða óháðar henni (3.-5. og 10. útg.). Síðustu tvær hafa verið beinar styttingar af óstyttu útgáfunni, sú 11.(1979) samsvarar 19. útgáf-unni(1979) en sú 12.(1990) samsvarar 20. útgáfunni(1989). Þessi leið þykir allmiklu heppilegri því að með þessu móti er hægt að nota saman styttu og óstyttu útgáfurnar, flokka eftir óstyttu útgáfunni í flokkum þar sem fínflokkunar er þörf en notast við styttu útgáfuna ella. Þá er einnig auðvelt að breyta yfir ef þurfa þykir og annaðhvort flokka fínna eða grófara án þess að þurfa að endurflokka.124 Stytta útgáfan er venju-lega um 1/5 af óstyttu útgáfunni og er ætluð skóla- og almennings-bókasöfnum með bókakost upp á u.þ.b. 20.000 bækur.125

Skólasafnaútgáfur

En það eru til söfn með ennþá minni bókakost og útgefendur Dewey-kerfisins ganga lengra í því að koma til móts við mismunandi þarfir notenda kerfisins með útgáfu á minna kerfi, Dewey decimal classification for school libraries. Þetta kerfi var hannað fyrir bresk skólabókasöfn og útgefendur eru Forest Press og School Library Association í Bretlandi. Fyrsta útgáfan kom árið 1961 og var byggð á 8. styttu útgáfunni en sú fjórða og nýjasta árið 1986 og hún er í sam-ræmi við 11. styttu og 19. óstyttu útgáfuna. Nýjasta útgáfan (4. útg.) ber undirtitilinn British and international edition og í henni hefur

123 Osborn, 1991, bls. 38 124 Dewey, 1987, bls. iv 125 Satija, 1991, bls. 55

Page 49: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

48

verið dregið úr breskum áherslum og reynt að höfða líka til skólasafna utan Bretlands.126 V. 4 Tilraunir til samræmingar Aukin tölvunotkun í bókasöfnum upp úr 1970 varð til þess að breyta til muna vinnubrögðum á bókasöfnum. Með tölvuvæðingunni opnuðust nýjar leiðir og möguleikar til þess að samnýta vinnu við flokkun og skráningu í bókasöfnunum og þörfin fyrir samræmingu varð brýn. Um þetta leyti var MARC (Machine Readable Cataloguing) sniðið þróað og ýtti það undir kröfur um stöðlun í flokkun og skráningu. Hér mun fjallað um samvinnu og samræmingu á milli Bandaríkjanna og Bretlands hvað varðar flokkun efnis eftir Dewey-kerfinu. Bandaríkjamenn voru nokkuð mörgum skrefum á undan Bretum í því að veita skráningar- og flokkunarþjónustu innanlands því LC hefur gefið bókum Dewey-flokkunartölur síðan 1930. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1969 sem Dewey-flokkunartölur byrjuðu að birtast í British National Bibliography í Bretlandi ásamt BNB flokkun-artölum.127 Í fyrstu voru bækur þar ekki flokkaðar tvisvar, þ.e. bæði eftir BNB kerfinu og DDC, heldur voru notaðar töflur (conversion tables) til að flytja flokkunina yfir á Dewey-flokkunartölur. Þetta reyndist ekki nógu vel sem kom m.a. fram í því að Bandaríkjamenn gátu ekki notað Dewey-tölur frá BNB fyrir breskar bækur. Tilraunir til að endurbæta aðferðir við að yfirfæra flokkunartölur mistókust og seinna sama ár, 1969, var farið að flokka bækurnar tvisvar. Árið 1971 hættu svo Bretar að flokka eftir BNB-kerfinu og sneru sér eingöngu að Dewey-kerfinu. Áhugi var fyrir því að reyna að ná fram sem mestri samræmingu í flokkuninni á milli þjóðanna og margs konar samvinna var viðhöfð, flokkunartölur voru t.d. sendar á milli eftir því hvor þeirra flokkaði bók á undan. Það kom í ljós að Bandaríkjamenn voru tilbúnir til þess að nota breska flokkun í u.þ.b. 80% tilfella en Bretar voru hins vegar sáttir við bandaríska flokkun í 97-98% tilvika.128 Fyrir kom að flokkunartölur bærust of seint á milli landanna til þess að koma að gagni við flokkun og hafði

126 South, 1986, bls. 4 127 Bruin, 1971, bls. 61 128 Bruin, 1971, bls. 62

Page 50: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

49

þá hvorugur aðilinn flokkunartölu hins þegar efni var flokkað. Þá var um aðra flokkunartölu að ræða í yfir helmingi tilvika. Tekið er fram í þessu sambandi að einungis hafi verið um fáar bækur að ræða í þessum tilfellum.129 Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart þeim sem unnið hafa við flokkun eða eins og Friis-Hansen segir:

Identical use of DC in all countries is impossible and hardly any

chance of it exists. Identical classification of the same book is a

difficulty in one country, even by one person on different weekdays.130

Á árunum 1970-80 var áfram mikil samvinna og skoðanaskipti á milli stofnananna tveggja, LC og BNB. Samkvæmt Trotter var þetta mjög mikils virði fyrir báða aðila hvað varðaði samræmingu í túlkun á kerfinu.131 Árið 1972 var skipst á starfsmönnum, hvor um sig sendi starfsmann í sex vikna dvöl hjá hinum til þess að öðlast betri skilning á notkun hans á kerfinu. Þessi nánu samskipti minnkuðu eftir því sem leið á áratuginn, í fyrsta lagi vegna þess að þörfin minnkaði þar sem munur á flokkun varð minni og í öðru lagi vegna þess að stofnanirnar höfðu ekki efni á þessu vegna meira álags og aukins fjölda rita sem í gegnum hendur þeirra fóru.132

129 Bruin, 1971, bls. 63 130 Friis-Hansen, 1976b, bls. 223 131 Trotter, 1993, bls. 63 132 Trotter, 1993, bls. 64

Page 51: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

50

VI. Tölvuvæðing Dewey-kerfisins

Hér verður gerð grein fyrir nokkrum þáttum tölvuvæðingar Dewey-kerfisins. Tölvuvæðing handbóka kerfisins auðveldar stöðuga endurskoðun sem hægt er að koma á framfæri með litlum fyrirvara. Einnig auðveldar hún notkun kerfisins við flokkun, efnisleitir, tilraunir og rannsóknir á notkun kerfisins.

VI. 1 20. útgáfa á tölvuformi

Tuttugasta útgáfan er fyrsta útgáfa Dewey-kerfisins, og jafn-framt fyrsta flokkunarkerfi í sögu bókasafna, sem unnið er á tölvu.133 Þetta veldur straumhvörfum í framtíðarútgáfum kerfisins eins og í allri annarri útgáfustarfsemi. Nú er hægt að gera allar breytingar jafnóðum og halda kerfinu þannig stöðugt við. Það er því aldrei úrelt og alltaf til-búið til útprentunar með stuttum fyrirvara. Sparnaður í tíma og fjár-munum er mikil og getur haft mikil áhrif á hve oft kerfið kemur út.

Sweeney bendir á að nú þegar kerfið er til á tölvuvæddu formi væri hægt að útvíkka það með þarfir hinna ýmsu þjóða í huga án þess að allar þessar útvíkkanir þyrftu að vera prentaðar með í aðalútgáfunni. Viðkomandi þjóðir gætu fengið annað hvort allt kerfið beinlínutengt (online) eða á geisladiski eða sinn hluta sérstaklega útprentaðan.134

V1. 2 Tölvuvæðing bókasafna

Tölvuvæðing bókasafna hefur mikla hagræðingu í för með sér. Hún eykur m.a. geysilega möguleika á leit eftir efni því mjög margir leitarmöguleikar geta verið fyrir hendi í bókasafnskerfum. Auk þess að leita má eftir höfundi og titli er hægt að leita eftir efnisorðum, flokkstölum og lykilorðum flokkunarkerfa og tengja þetta saman. Að sumu leyti getur virst sem flokkun efnis færist yfir á notandann þar

133 Satija, 1990, bls. 107 134 Sweeney, 1991, bls. 18

Page 52: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

51

sem hann raðar saman efnisorðum við tölvuskjáinn. Þessi aðferð er nytsamleg og notkun hennar færist í vöxt.135 VI. 3 Flokkunarkerfið sjálft tölvuvætt

Það er afar mikilvægt að finna bestu leið til þess að nálgast upplýsingar og þess vegna er athyglisvert að skoða rannsóknir á gagnsemi flokkunarkerfa sem leitartækis í efnisleit.

Fyrsta tilraun til þess að nota flokkunarkerfi til þess að finna upplýsingar eftir efni í gagnabanka var gerð árið 1968 af Freeman and Atherton og var þá UDC-kerfið notað í þessum tilgangi.136 Árið 1981 var þessi tilraun að nokkru leyti endurtekin en þá hófst athugun á vegum OCLC (Online Computer Library Center), Forest Press og Council of Library Resources í Bandaríkjunum á því hvernig nota mætti Dewey-flokkunarkerfið sem leitartæki í gagnabanka (The DDC Online Project). Nítjánda útgáfa Dewey-kerfisins hafði verið unnin að nokkru leyti á tölvuformi og gerði það mögulegt að nota kerfið í þessari rannsókn. Mikilvægi þess að byggja tölvuleit á flokkunarkerfi á þennan hátt liggur í því að það skapar notendum fjölbreytt tækifæri til að leita eftir efni og gefur þeim um leið yfirsýn yfir það efni sem þeir eru að leita að, þ.e.a.s. þeir geta skoðað flokkana í kring og áttað sig betur á samhengi hlutanna.

Í DDC Online Project var Dewey-kerfið ásamt efnislyklinum tengt gagnabanka með færslum frá 4 söfnum í Bandaríkjunum. Fjórir þættir Dewey-kerfisins voru notaðir til þess að aðstoða notendur við efnisleit: efnisorð úr kerfinu sjálfu, stigveldið, efnisorð úr efnislyklin-um og flokkunartölur bæði úr kerfinu og efnislyklinum.137

Helstu spurningar sem rannsóknin átti að svara voru:

1. Er Dewey-kerfið á tölvutæku formi hentugt sem leitartæki í beinni leit

til þess að finna efni?

2. Skilar leitin betri árangri við það að Dewey-kerfinu er bætt við

efnisorð í beinni leit?

135 South, 1986, bls. 3 136 Markey, 1987, bls. 37 137 Drabenstott o.fl., 1990, bls. 180

Page 53: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

52

3. Kjósa notendur fremur að leita þar sem stuðst er við Dewey-kerfið í

beinni leit?138

Með þessari tilraun átti einnig að fá Dewey-sérfræðinga til þess að benda á hvernig best væri að setja upp Dewey-kerfið í tölvukerfi og nýta það í beinni leit.139

Tilraunaskráin var raunar tveir grunnar, DOC-grunnur (Dewey Online Catalogue) þar sem Dewey-kerfið var inni sem leitartæki (searcher´s tool) og SOC (Subject Online Catalogue) þar sem Dewey-kerfið var ekki með. Nauðsynlegt var að hafa tvo grunna til þess að hægt væri að bera saman notkun þeirra.140 Í báðum grunnum var hægt að leita að efni eftir efnisorðum, LC-efnisorðum og flokkunartölum en í DOC var auk þess mögulegt að skoða skylt efni, bæði þrengri flokka og víðari.141 Notendur voru bæði starfsmenn og notendur bókasafna og voru niðurstöður aðeins mismunandi eftir því um hvorn hóp var að ræða. Starfsmenn bókasafnanna virtust yfirleitt heldur ánægðari með DOC heldur en SOC en þessu var öfugt farið hjá notendum, en munur var að vísu mjög lítill. Í heildina voru DOC-leitir heldur skilvirkari. Þeir sem stóðu að rannsókninni komust því að þeirri niðurstöðu að

1) Dewey-kerfið hentaði vel sem leitartæki í efnisleit.

2) Efnisorðin úr Dewey efnislyklinum ykju möguleika á að nálgast efni.

3) Með því að nota Dewey-kerfið á þennan hátt yrðu til nýjar leiðir til

þess að leita og skima eftir efni sem eru ekki færar í venjulegri

efnisleit.142

Meginniðurstaða þessara athugana er því sú að það sé gagnlegt að byggja leitarkerfi bókasafna á flokkunarkerfi og því má vænta þess að þessi kerfi verði í auknum mæli notuð saman.

VI. 4 Electronic Dewey

Árið 1993 var Dewey-kerfið gefið út á geisladiski. Á honum er 20. útgáfa kerfisins, þ.e.a.s. kerfið sjálft, hjálpartöflur, efnislykill og handbók, ásamt öllum breytingum og viðbótum sem birst hafa í DC&

138 Markey og Demeyer, 1986, bls. vii 139 Markey, 1987, bls. 39 140 Markey, 1987, bls. 39 141 Bright, 1987, bls. 128 142 Bright, 1987, bls. 129

Page 54: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

53

til og með 5. árg., 4. hefti sem kom í mars 1993. Auk þess er þar að finna efnisorð Library of Congress og er mögulegt að nálgast flokk-ana líka í gegnum þau. Á diskinum er ekki formálinn að kerfinu né heldur listar yfir tilfærslur, aðrar breytingar eða samanburðartöflur.143

Ætlast er til að kerfið á diskinum sé notað sem hjálpartæki við flokkun og er notkun þess mjög svipuð og notkun kerfisins á prentuðu formi. Þrjár aðferðir eru aðallega notaðar til þess að nálgast rétt númer og eru þær notaðar eftir aðstæðum hverju sinni svipað og væri verið að nota prentaða kerfið. Ein leið er sú fletta strax upp á flokkstölunni, svipast þar um í stigveldinu og velja réttu töluna. Ef flokkari þekkir vel efni rits og veit nokkurn veginn hvar það á heima í kerfinu er þessi leið gjarnan farin. Ef aftur á móti efnið er tiltölulega lítt þekkt má til dæmis nota leit eftir efnisorði. Þá koma fram allir staðir sem innihalda viðkomandi efnisorð, einnig í skýringum, athugasemdum og Library of Congress-efnisorðum. Ef staðirnir eru mjög margir má þrengja leit með því að bæta við öðru efnisorði. Þriðja aðferðin er að fletta upp í efnislyklinum og má þá leita eftir einu orði eða samsettum heitum. Þar eru tengsl efnis og fræðigreina skoðuð og líklegasta talan valin. Í báðum síðastnefndu aðferðunum er endað á því að fara inn í stigveldið í kerfinu sjálfu til að fullvissa sig um að rétt tala hafi verið valin og athuga hvort formgreinar byrji á einu núlli eða fleirum. Ef bæta á við tölum úr töflum er hægt að geyma færsluna eða skrifa hjá sér stofntölu í sérstakan athugasemdadálk í tölvunni sem síðan er bætt við.144 Sérstakar leiðir eru síðan notaðar til þess að leiða flokkara í töflurnar og frá einni til annarar eins og í prentuðu útgáfunni. Sem dæmi má taka rit um ákveðið efni í Japan. Til þess að fá -0952 þarf að taka tvö skref í tölvukerfinu. Í fyrsta lagi skrifa geographical and tn:t1. Þá kemur m.a. upp T1--093–T1--099. Farið er inn í það og skrifað japan and tn:t2 og kemur þá landstala Japans -52. Eins og sjá má af þessu er aðferðin í grundvallaratriðum sú sama og verið væri að nota prentuðu útgáfuna.

Ekki hafa enn verið gerðar athuganir á því hagræði sem hafa má af þessari tölvuútgáfu en væntanlega er það talsvert.

143 Electronic Dewey user guide: DDC 20, 1993, kafli 1. 2 144 Electronic Dewey hands-on exercises : DDC 20, 1993, bls. 4-6

Page 55: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

54

VII. Dewey-kerfið á Íslandi

VII. 1 Notkun

Hér á Íslandi er Dewey-kerfið mest notaða flokkunarkerfið. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar sem hafa falið í sér könnun á notkun flokkunarkerfa á Íslandi. Árið 1977 gerði Ingibjörg Árnadóttir skrá yfir rannsóknar- og sérfræðibókasöfn í Reykjavík og kom þar m.a. fram hvort og þá hvaða flokkunarkerfi þau notuðu.145 Af 86 söfnum notaði rúmlega þriðjungur Dewey-kerfið. Tíu árum síðar stóð Samstarfsnefnd um upplýsingamál að gerð svipaðrar skráar en að ráði varð að taka einnig með helstu almenningsbókasöfn og skólasöfn.146 Í þeirri skrá voru 167 söfn og af þeim notuðu 113 Dewey-kerfið eða af-brigði af því, eða um 2/3 hlutar. Könnun var gerð á vegum Flokkunar-nefndar árið 1981 og var í þessu tilfelli könnuð notkun flokkunarkerfa, bæði á meðal rannsóknarbókasafna og á meðal almenningsbókasafna. Niðurstöður sýndu að á meðal rannsóknarbókasafna hafði orðið lítil breyting frá því sem fram kom í skrá Ingibjargar. Um helmingur af almenningsbókasöfnunum sendi svar og af þeim notaði um 3/4 hluti Dewey-kerfið eða afbrigði af því.147 Sem dæmi um önnur kerfi er nefnd voru í athugunum þessum má nefna UDC, NLM, ýmis sérkerfi stofnana eða önnur heimatilbúin kerfi. Nokkur af almenningsbóka-söfnunum nefndu auk þess aðfengna flokkun og er þar vafalítið um Dewey-tölur að ræða.

VII. 2 Ýmsar útgáfur

Bókasafnsrit I

Ýmsar íslenskar útgáfur af Dewey-kerfinu hafa birst á prenti hér á landi. Í Bókasafnsriti I eftir Björn Sigfússon og Ólaf Hjartar sem Menntamálaráðuneytið gaf út árið 1952 er rúmlega 14 síðna yfirlit yfir kerfið. Ekki er tekið fram að þetta sé Dewey-kerfið svo ekki er ljóst 145 Ingibjörg Árnadóttir, 1977 146 Skrá um íslensk bókasöfn, 1987, bls. 5 147 Flokkunarnefnd, 1981

Page 56: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

55

við hvaða útgáfu er miðað. Sú 14. kom út árið 1942 og 6. styttri útgáfan árið 1944 þannig að líklegt er að önnur hvor þeirra hafi verið lögð til grundvallar. Ein tafla, formgreinataflan, var hluti af kerfinu á þessum tíma. Skiptingar eftir landssvæðum eru mögulegar með því að nota landstölur úr kerfinu sjálfu. Flokkunartölur sem eru teknar frá fyrir íslenskt efni eru ekki merktar sérstaklega en skipt er á bandarísku efni og íslensku eins og flokkunarkerfið býður upp á. Íslenskar alfræðibækur eru t.d. í 031, íslensk tímarit í 051, rit íslenskra vísinda-félaga í 061 og íslensk dagblöð í 071. Flokkurinn 410 er tekinn fyrir íslenskt mál og 810 fyrir íslenskar bókmenntir. Gert er ráð fyrir að erlendar bækur þýddar á íslensku flokkist með íslensku bókmenntun-um og er um tvær leiðir að ræða til að aðgreina þýðingarnar frá þeim íslensku. Annars vegar er „í“ sett fyrir framan, í81 væri þá erlend skáldrit þýdd á íslensku. Hins vegar er skipt eftir tungumálum og flokkarnir 818.2-9 væru þá notaðir fyrir erlend skáldrit þýdd á íslensku, 818.2 væri þá rit þýtt úr ensku, 818.3 úr þýsku, úr frönsku 818.4.148 Í þessu yfirliti yfir kerfið er 349.1 notað fyrir íslenska réttarsögu, 091.1-6 fyrir íslensk handrit og 094.1-6 fyrir íslensk fágæt rit. Saga Íslands er 949.1 samkvæmt alþjóðlegri útgáfu og gefnir eru tveir möguleikar á tímabilaskiptingu, annars vegar 949.104, söguyfirlit til 1950, og 949.105, saga síðan 1950. Hinn möguleikinn er að nota .101-.104 fyrir nákvæmari tímabilaskiptingar en hann er talinn „meir til meins en gagns“.149

Aftast í ritinu er 13 síðna efnisorðaskrá þar sem vísað er í flokkstölur. Í sumum tilfellum er þar vísað á fleiri en einn flokk ef efni getur flokkast víða. Notaðar eru „sjá“ tilvísanir, þó ekki í miklum mæli.

Útgáfa Bókavarðafélagsins

Árið 1970 kom út að tilhlutan Bókavarðafélags Íslands Flokkunarkerfi fyrir íslensk bókasöfn, þýtt og staðfært eftir Dewey Decimal Classification. Flokkunarnefnd Bókavarðafélagsins annaðist þýðinguna. Leyfi var fengið fyrir þýðingunni hjá Forest Press, þáver-andi handhafa höfundaréttar kerfisins og var það skilyrði sett að

148 Björn Sigfússon og Ólafur Hjartar, 1952, bls. 69 149 Björn Sigfússon og Ólafur Hjartar, 1952, bls. 72

Page 57: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

56

íslensk frávik yrðu auðkennd með stjörnu.150 Undirbúningur verksins hófst 1961 og í upphafi var ætlun nefndarinnar að leggja 16. útgáfu kerfisins til grundvallar þýðingunni. Af ýmsum ástæðum dróst verkið á langinn og árið 1965 komu út 17. útgáfa og 9. styttri útgáfa Dewey-kerfisins. Rétt þótti að taka tillit til breytinga sem orðið höfðu á kerfinu í millitíðinni.151 Í þessari þýðingu er ein hjálpartafla, formgreinatafla, eins og í 16. útgáfu en í 17. útgáfu kerfisins bættist landstölutafla við. Þessi þýðing er afar mikið stytt, er 174 síður en 16. útgáfan er hátt á fjórða þúsund síður.

Frávik eru svipuð og í Bókasafnriti I. Flokkarnir 031, 051, 061 og 071 eru ekki stjörnumerktir en ættu þó að vera það samkvæmt skilyrðinu um íslensk frávik. Stjörnumerktir flokkar eru 345, lagasöfn Norðurlanda, en í 16. útgáfu er sá flokkur notaður fyrir bandarísk lög, og 346, lagasöfn annarra landa, en í 16. útg. er hann notaður fyrir bresk lög. Réttarsaga Íslands er í þessari útgáfu 349.491 en ekki 349.1 eins og í Bókasafnsritinu og er það í samræmi við hefð kerfisins. Flokkurinn 366, bindindissamtök, er stjörnumerktur, í 16. útg. er hann notaður fyrir félög almennt. Sömuleiðis 381, innanríkisverslun, og 382, utanríkisverslun, en frá þeim er vísað í 658, verslun. Flokkarnir 410 og 810 eru stjörnumerktir eins og vera ber og líka 759.1 sem er tekinn fyrir íslenska málaralist í stað bandarískrar og 759.21 sem er notaður fyrir bandaríska málaralist en er fyrir enska í 16. útgáfunni. Í bókmenntunum eru gefnir tveir möguleikar á flokkun, annars vegar eftir frummáli og flokkast þá saman skáldverk og þýðingar þeirra á önnur mál og hins vegar að flokka saman allar bækur á sama máli án tillits til frummáls. Mælt er með seinni aðferðinni.152 Íslenskt afbrigði er einnig skipting Íslands eftir sýslum og hnikar það til flokkstölum ýmissa landa, t.d. Hollands og Belgíu. Ennfremur eru íslensk afbrigði flokkstölur Finnlands, 948.95, og Færeyja, 948.98.

Efnisorðaskráin er svipuð og í Bókasafnsriti I en hún er nú 50 síður og oftar er vísað í fleiri en einn flokk. Bæði „sjá“ og „sjá einnig“ tilvísanir eru notaðar.

150 Dewey, 1970, bls. 8 151 Dewey, 1970, bls. 7 152 Dewey, 1970, bls. 104

Page 58: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

57

Útgáfa Samstarfsnefndar um upplýsingamál

Árið 1987 kom út á vegum Samstarfsnefndar um upplýsingamál staðfærð, íslensk þýðing á 11. styttri útgáfu kerfisins sem kom út í Bandaríkjunum 1979. Heppilegt þótti að nota þessa útgáfu m.a. vegna þess að hún er í samræmi við 19. útgáfuna og því auðvelt að nota þær saman. Íslensk afbrigði í þessari þýðingu eiga að vera merkt sérstak-lega. Þau helstu eru eins og áður 031, 051, 061, 071 (þó ekki merkt) og 410-flokkurinn er notaður fyrir íslenska tungu og 810 fyrir íslenskar bókmenntir. Einnig eru smávægilegar breytingar í tungu-málum og bókmenntum Norðurlanda, 439.6 er norska og 439.8 er danska en í 11. útg. eru danska og norska báðar í 439.8.153 Það sama gildir um bókmenntirnar, norskar eru í 839.6 og danskar í 839.8. Færeyska er í íslensku útgáfunni í 439.69 og færeyskar bókmenntir eru flokkaðar í 839.69. Flokkurinn 639 er nánar sundurliðaður en í 11. útgáfunni,154 reyndar í sama dúr og í íslensku 1970-útgáfunni. Landafræði Færeyja er hér í 948.98 eins og í útgáfunni 1970 en í 11. útgáfu eru bæði Færeyjar og Ísland í 949.1. Undir flokknum 920, ævisögur, er boðið upp á tvo valkosti. Annars vegar að flokka ævisögur manna sem tengjast tiltekinni fræðigrein með henni að viðbættri formgrein 092 en hins vegar að nota 920.1-928. Í 11. útgáfunni er frekar mælt með fyrri kostinum en hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að taka seinni kostinn. Íslenskt afbrigði er að flokka ævisagnasöfn í 920 en ævisögur einstaklinga í 921. Í 11. styttu útgáfunni eru fjórar töflur, formgreinar, landstölur, bókmenntir og tungumál. Í íslensku útgáfunni eru þær, sem fyrr getur, tvær, formgreinatafla og landstölutafla. Íslenskan útgáfan er svipuð að lengd og sú enska. Hún er 571 síða en hin er 618 Efnislykill íslensku útgáfunnar er 188 síður en kerf-ið sjálft 311 síður, samtals 499 s. Samsvarandi síðufjöldi í 11. útgáf-unni er 160 og 341, samtals 501 síður og þéttleiki texta á síðu er svip-aður. Munurinn liggur því nær eingöngu í töflunum tveimur og ýmiss konar öðru efni í 11. útgáfunni, s.s. lista yfir tilfærslur á milli 10. og 11. útgáfu og lista yfir breytt númer á milli þessara tveggja útgáfna:

153 Dewey, 1979, bls. 267 154 Dewey, 1987, bls. vi

Page 59: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

58

efnislykill kerfið samtals

ensk útgáfa 160 341 501 síða

íslensk útgáfa 188 311 499 síður

Við lauslegan samanburð á íslensku útgáfunni og 11. styttri útgáfu virðist mjög lítill munur á þeim. Það er helst að nefna að í flokkunum 970 (saga Norður-Ameríku), 971 (saga Kanada) og 973 (saga Bandaríkjanna) er nákvæmari sundurliðun í ensku 11. styttu útgáfunni, en flokkunum 972 (Saga Mexíkó) og 980 (saga Suður-Ameríku) eru gerð ítarlegri skil í íslensku útgáfunni.

VII. 3 Nokkur söfn sem nota Dewey-kerfið

Landsbókasafn Jón Ólafsson ritstjóri hafði flúið land til Vesturheims árið 1873 vegna blaðaskrifa í riti sínu Göngu-Hrólfi um stjórnmálaástandið á landinu. Hann vann á söfnum í Bandaríkjunum og kynntist Dewey-kerfinu þar og innleiddi fyrstur manna notkun þess hér á landi. Um aldamótin réðst hann til Landsbókasafns til skráningar- og flokkunar-starfa. Hann byrjaði fyrst að vinna eftir öðru kerfi sem síðan var horfið frá og vinna þurfti það verk allt upp á nýtt.155 Jón skrifaði grein sem hann kallaði Smá bókasöfn í Tímarit hins íslenzka bókmentafélags árið 1902 og var tilgangur hans með því aðallega að kynna Dewey-kerfið og leiðbeina um notkun þess. Hann tekur þar dæmi um hvernig sundurliðun kerfisins í flokka og undirflokka er háttað en fer ekki mikið út í nákvæma sundurliðun. Hann heldur sér mest við hundruðin og stöku sinnum við nokkra tugi innan þeirra, enda ætlar hann þessar leiðbeiningar smáum söfnum. Flokkunarvandamálin hafa byrjað snemma, Jón Ólafsson skrifar:

En það stendur ekki heldur á svo ýkjamiklu tiltölulega, hvert kerfið

valið er. Hitt er vandasamara, að heimfæra bækurnar rétt undir þá

flokka, sem maður hefir einu sinni valið sér. Það er óhætt að segja, að

það er lang-vandasamasta atriðið í allri bókvörzlufræðinni.156

155 Jón Jacobson, 1920, bls. 69 156 Jón Ólafsson, 1902, bls. 88

Page 60: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

59

Ætla má að þegar í byrjun hafi Dewey-kerfið verið aðlagað íslenskum aðstæðum að einhverju leyti. Skilja má á orðum Jóns Ólafssonar í grein hans frá 1902 að íslenskar bókmenntir hafi þá þegar verið flokkaðar í 810. Hann segir:

Gerum nú ráð fyrir, að 810 sé ísl. bókmentir, almenn rit; 810.1 sé ljóð;

810.2 sjónleikar; 810.3 skáldsögur; 810.4 ritsöfn höfunda.157

Tökum eftir því hér að núllið fellur ekki brott á undan formskipting-unni. Á Landsbókasafni hefur aldrei verið flokkað mjög þröngt. Ýmsar hefðir hafa skapast í flokkun sem lengi vel var ekki breytt heldur var sá kostur tekinn að reyna að halda samræmi innan safnsins. Bókmenntir voru flokkaðar eftir því máli sem þær birtust á eins og mælt var með í 1970 útgáfunni á íslensku en því var hætt fyrir all-löngu. Fornleifafræði var lengi flokkuð í 913 en rétta talan fyrir hana frá og með 19. útgáfu er 930.1. Sú breyting varð líka í 19. útg. kerfis-ins að mælt var með því að flokka ævisögur með þeirri grein sem ein-staklingar tilheyrðu en þetta hefur ekki náð fram að ganga í Lands-bókasafni. Í bókmenntasögu hefur ekki verið skipt eftir bókmennta-formi og er ein og sama talan notuð hvort sem um er að ræða umfjöllun um ljóð, leikrit eða skáldsögur. Íslenskar fornbókmenntir voru lengi flokkaðar í 839.6, eddukvæði í 293 og íslensk málfræði í 439.6 en þessu var breytt og það flutt í 810 og 410. Ýmsar fleiri breytingar hafa orðið í flokkun samkvæmt nýjustu útgáfum kerfisins og hafa flestar verið teknar upp í flokkun á nýjum bókum. Undantekning á því er þó 780-flokkurinn, tónlist, sem ekki hefur verið farið út í að breyta. Flokkun í Íslenskri bókaskrá sem gefin er út af Landsbókasafni er frekar gróf eins og flokkun á safninu yfirleitt, að mestu leyti í samræmi við styttu íslensku útgáfuna sem kom út 1987. Áhöld hafa lengi verið um hvort ekki ætti að taka upp þrengri flokkun í bókaskránni, en spjöld hafa verið prentuð eftir skráningartexta hennar og hún þannig þjónað ýmsum söfnum vítt og breitt um landið. Flokka mætti út á ysta staf en gera síðan ráð fyrir að söfn sem ekki þyrftu á slíkri fínflokkun að halda gætu stytt flokkstölurnar.

157 Jón Ólafsson, 1902, bls. 100

Page 61: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

60

Háskólabókasafn Háskólabókasafn var formlega sett á laggirnar árið 1940. Björn Sigfússon tók við stöðu forstöðumanns af Einar Ól. Sveinssyni árið 1945. Hann tók Dewey-kerfið í notkun á safninu fljótlega eftir að hann tók við starfinu. Björn var annar höfundur Bókasafnsrits I sem rætt var um hér á undan og vísast til þess kafla um flokkun á Háskólabókasafni á þeim tíma. Háskólabókasafn hefur síðar fylgt þeirri meginstefnu að styðjast alltaf við nýjustu útgáfu Dewey-kerfisins. Undantekningar eru þó til frá því og eru þessar helstar: Í bókmenntum er tímabili sleppt og ekki er gerður greinarmunur í bókmenntasögu á því hvort fjallað er um einn eða fleiri höfunda. Ævisögum hefur verið haldið saman í 920 eins og á Landsbókasafni. Í bókfræði var flokkurinn 016 (sérefnisskrár) ekki notaður heldur efni dreift og notuð formgrein 016 (bókaskrár) en þessu hefur að mestu verið breytt til samræmis við flokkun Landsbókasafns sem hefur haft hinn háttinn á og er það í samræmi við fyrirmæli í aðalútgáfunni. Tölfræði hefur verið haldið saman í 519, landstölur hafa verið notaðar þegar efni rits hefur gefið tilefni til og tímabilstölur eingöngu verið notaðar í sögu og listum. Á Háskólabókasafni hefur endurflokkun í fönix-flokkum verið látin ganga fyrir en endurflokkun vegna smávægilegra breytinga á marktölum mætt afgangi.158

Borgarbókasafn Sigurgeir Friðriksson, fyrsti forstöðumaður safnsins, tók upp flokkun eftir danskri útgáfu af Dewey-kerfinu árið 1923. Sigurgeir hafði numið bókasafnsfræði í Danmörku og kynnst danska Dewey-kerfinu þar. Fyrr í þessari ritgerð er fjallað um danska afbrigði Dewey-kerfisins og mun því ítarlegri umfjöllun sleppt hér. Vert er þó að geta þess að Sigurgeir breytti kerfinu þannig að í stað þess að hafa punkt á eftir tveimur stöfum eins og er í DK hafði hann punktinn á eftir þremur stöfum eins og í upprunalega kerfinu. Auk þess er kerfið að ýmsu leyti aðlagað íslenskum aðstæðum eins og yfirleitt þykir nauðsynlegt.

158 Greinargerð um flokkun og skráningu í Háskólabókasafni og Landsbókasafni, 1987.

Page 62: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

61

Samræmi Björn Sigfússon skrifar árið 1956 í grein um flokkun sem birtist í Menntamálum:

Við lifum á öld samræmingar og samstarfs, og flokkun safns þarf í

aðaldráttum að verða eins um allt land og í nokkru samræmi við

alþjóðlegt kerfi. Slíkt kerfi bókaflokkunar, kennt við Dewey, hefur

verið lengi í notkun í Landsbókasafni og helstu söfnum öðrum hér, og

erlendis er það útbreiddast allra kerfa.159

Nú, rúmum 40 árum síðar, er samræmingin kannski styttra á veg komin en æskilegt hefði verið. Misræmi í flokkun á milli Háskóla-bókasafns og Landsbókasafns minnkaði þó verulega á árunum 1970-87.160 Misræmið mun nú fyrst og fremst vera í fornleifafræði, þ.e.a.s. eldra efni á Landsbókasafni er enn flokkað í 913 í stað 930. Einnig í bókmenntasögu þar sem Landsbókasafn gerir ekki greinarmun á hvort fjallað er um skáldsögur, ljóð eða leikrit en Háskólasafn gerir það aftur á móti. Bækur í 780-flokknum sem bylt var í 20. útgáfu Dewey-kerfisins hafa verið endurflokkaðar á Háskólabókasafni en ekki hefur verið ráðrúm til þess á Landsbókasafni. Auk þess er ennþá munur á dýpt flokkunar en þrengra hefur verið flokkað á Háskólabókasafni en Landsbókasafni.

Tölvuvæðing Búið er að panta hingað til lands á Háskólabókasafn 20. útg. Dewey-kerfisins á geisladiski og mun notkun þess hér líklega hefjast innan skamms.

159 Björn Sigfússon, 1956, bls. 137 160 Greinargerð um flokkun og skráningu í Háskólabókasafni og Landsbókasafni, 1987.

Page 63: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

62

VIII. Framtíð Dewey-kerfisins Ekki leikur mikill vafi á því að Dewey-flokkunarkerfið verður notað í mörgum bókasöfnum hér á landi og víða annars staðar næstu áratugina. Þrátt fyrir ýmsa annmarka á kerfinu þá býr það líka yfir mörgum kostum sem tryggja munu áframhaldandi notkun þess. Þar má nefna útbreiðslu þess, endurbætur og viðhald í ljósi nýrrar þekkingar og staðlaða flokkun í sífellt fleiri löndum. Tölvuútgáfa kerfisins mun þróast á næstu árum og væntanlega gera flokkunina fljótlegri. Ef til vill munu forsendur fyrir því hvað kallast gott flokkunarkerfi breytast með tölvuvæðingunni, þ.e.a.s. kerfin eru vafalítið misjafnlega hentug til notkunar í tölvu. Rannsóknir á Dewey-kerfinu gefa góðar vonir um nytsemi þess sem leitartækis í tölvuleit. Vera má að mikilvægi nákvæmrar flokkunar minnki þegar öflug tölvuleitarkerfi eru notuð því þá er hægt að „raða“ bókum saman í tölvunni á ýmsa vegu og skoða safn þannig, í stað þess að rölta um og skima eftir efni í hillunum. Rannsóknir á skilvirkni tölvuleitar í bókasöfnum munu væntanlega skera úr um þetta atriði. Ef minni þörf verður fyrir nákvæma flokkun af þessum sökum þá mun það styrkja Dewey-kerfið í sessi, því minni deilur verða þá um ágæti einstakra flokkunarkerfa og minna tilefni til þess að skipta um kerfi, jafnvel þótt einhverjum þyki efnisleg rök vera fyrir því.

Page 64: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

63

Heimildaskrá

Aman, M.M. og Salem S. (1991). The use of the DDC in the Arab world. Í R.P. Holley (Ritstj.), Dewey: an international perspective. Papers from a workshop on the Dewey decimal classification and DDC20 (bls. 32-47). München: K G Saur. Amankwe, N. (1972). Africa in the standard classification schemes. Library Resources & Technical Services, 16(2), 178-194. Beall, J. (1991). International aspects of DDC20. Í R.P. Holley (Ritstj.), Dewey: An International Perspective. Papers from a Workshop on the Dewey Decimal Classification and DDC20 (bls. 64-80). München: K G Saur. Berman, S. (1989). DDC 20: The scam continues. Library Journal, September 15, 45-48. Björn Sigfússon (1956). Flokkun safnsbóka. Menntamál, XXIX. árg., 137-142. Björn Sigfússon og Ólafur Hjartar (1952). Bókasafnsrit I. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið. Bloomberg, Marty (1976). An introduction to classification and number building in Dewey. Littleton: Libraries unlimited. Bright, F. (1987). [Ritdómur um Dewey Decimal Classification online project: evaluation of a library schedule and index integrated into the subject searching capabilities of an online catalog.] Cataloging & Classification Quarterly, 7(3), 127-130. Bruin, Joyce E. (1971). The practice of classification: a study towards standardization. Journal of Librarianship, 3(1), 60-71. Bury, Súsanna (1974). Liðflokkun. Reykjavík. Bury, Súsanna (1975). Bliss og flokkunarkerfi hans. (Sérprent úr afmælisriti Björns Sigfússonar.) Reykjavík. Comaromi, J.P. (1976). Conception and development of the Dewey decimal classification. International Classification, 3(1), 11-15.

Page 65: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

64

Comaromi, J.P. og Satija, M.P. (1988a). Dewey decimal classification: history and current status. New York: Envoy Press. Comaromi, J.P. og Satija, M.P. (1988b). Revising the Dewey decimal classification. International Classification, 15(1), 17-20. Custer, B.A. (1980). The View from the editor´s chair. Library Resources & Technical Services, 24(2), 99-105. Decimal klassedeling (1992). [Kaupmannahöfn]: Dansk Biblioteks Center. Dewey, M. (1958). Dewey decimal classification and relative index (16. útg.). New York: Forest Press. Dewey, M. (1970). Flokkunarkerfi fyrir íslensk bókasöfn (þýtt og staðfært af Flokkunarnefnd Bókavarðafélags Íslands). Reykjavík: Bókafulltrúi ríkisins. Dewey, M. (1979). Abridged Dewey decimal classification and relative index (11. útg.). New York: Forest Press. Dewey, M. (1987). Flokkunarkerfi (þýtt og staðfært af Flokkunarnefnd bókasafna eftir 11. styttri útg.). Reykjavík: Samstarfsnefnd um upplýsingamál. Dewey, M. (1989). Dewey decimal classification and relative index (20. útg.). New York: Forest Press. Dhyani, P. (1987). Universe of subjects and DDC engineering. International classification, 14 (1), 19-22. Drabenstott, K.M. (1990). Analysis of a bibliographic database enhanced with a library classification. Library Resources & Technical Services, 34(2), 179-198. Electronic Dewey hands-on exercises: DDC 20 (1993). Dublin: OCLC. Electronic Dewey user guide: DDC 20 (1993). Dublin: OCLC.

Page 66: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

65

Flokkunarnefnd (1981). Könnun á ástandi flokkunarmála – yfirlit og greinargerð. Óútgefin. Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson (1992). Gagnfræðakver handa háskólanemum (2. útg.). Reykjavík: Háskólaútgáfan. Friis-Hansen, J.B. (1976a). Library classification systems in Denmark. International Classification, 3(2), 91-93. Friis-Hansen, J.B. (1976b). What Dewey knew --. Libri, 26(3), 216-230. Greinargerð um flokkun og skráningu í Háskólabókasafni og Landsbókasafni, ásamt fylgiritum, unnin í júní 1987. Óútgefin. Hunter, E.J. (1988). Classification made simple. Aldershot: Gower Publishing. Ingibjörg Árnadóttir (1977). Skrá yfir rannsóknar- og sérfræðibóka-söfn opinberra stofnana og félagasamtaka í Reykjavík. Reykjavík: Bókavarðafélag Íslands, Félag bókasafnsfræðinema, Félag bókasafns-fræðinga. Iwuji, H.O.M. (1989). Africana in LC and DD classification schemes: a need for an Africana scheme? Journal of Librarianship, 21(1), 1-18. Jensen, E.A. (1959). Lærebog i biblioteksteknik (Bind III). [Kaupmannahöfn]: Dansk Bibliografisk Kontor. Jón Jacobson (1920). Landsbókasafn Íslands 1818-1918: Minningar-rit. Reykjavík. Jón Ólafsson (1902). Smá bókasöfn: ýmislegt um fyrirkomulag þeirra, einkum röðun og skrásetning. Tímarit hins íslenzka bókmentafélags, 23, 84-103. Linden, R. (1982). Some thoughts on the Dewey decimal classification. Library Resources & Technical Services, 26(2), 183-187. Line, M.B. og Bryant, P. (1969). How golden is your retriever?: thoughts on library classification. Library Association Record, 71(5), 135-138.

Page 67: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

66

Markey, K. (1987). Searching and browsing the Dewey decimal classification in an online catalog. Cataloging & Classification Quarterly, 7(3), 37-68. Markey, K. og Demeyer, A.N. (1986). Dewey decimal online project: evaluation of a library schedule and index integrated into the subject searching capabilities of an online catalog. Dublin: OCLC. Osborn, A.D. (1991). From Cutter and Dewey to Mortimer Taube and beyond: A complete century of change in cataloguing and classification. Cataloging & Classification Quarterly, 12(3/4), 35-50. Pacey, P. (1989). The classification of literature in the Dewey decimal classification: The primacy of language and the taint of colonialism. Cataloging and Classification Quarterly, 9(4), 101-107. Richmond, P. A. (1990). General theory of classification. Í B.G. Bengtson og J.S. Hill, (Ritstj.), Classification of Library Materials (bls. 16-25). New York: Neal-Schuman Publishers. Satija, M.P. (1990). [Ritdómur um Dewey decimal classification and relative index. Devised by Melvil Dewey. Ed.20]. International Classification, 17(2), 107-108. Satija, M.P. (1991). [Ritdómur um Abridged Dewey decimal classification, 12th ed.] International Classification, 18(1), 55-56. Skrá um íslensk bókasöfn (1987). Reykjavík: Samstarfsnefnd um upplýsingamál. Soudek, M. (1980). On the classification of psychology in general library classification schemes. Library Resources & Technical Services, 24(2), 114-127. South, M.L. (Ritstj.) (1986). Dewey decimal classification for school libraries: British and international edition. New York: Forest Press. Svenonius, E. (1981). Directions for research in indexing, classification, and cataloging. Library Resources & Technical Services, 25(1), 88-103.

Page 68: Dewey-flokkunarkerfið fyrir bókasöfn BAr 1994.pdf · 2011-01-29 · Dewey-flokkunarkerfið 6 I. Dewey-kerfið - saga og uppbygging I. 1 Saga Talsverðar breytingar áttu sér stað

Dewey-flokkunarkerfið

67

Sweeney, R. (1991). An overview of the international use of the Dewey decimal classification. Í R.P. Holley (Ritstj.), Dewey: an international perspective. Papers from a Workshop on the Dewey decimal classification and DDC 20 (bls. 11-31). München: K G Saur. Trotter, R. (1984). Dewey as an asset. Catalogue & Index, 72, 1-4. Trotter, R. (1993). Dewey and Britain: a continuing partnership. Í J. Byford, K. Trickey og S. Woodhouse (Ritstj.), AACR, DDC, MARC and friends: the role of CIG in bibliographic control (bls. 61-76). London: Library Association Publishing. Wynar, B.S. (1976). Introduction to cataloging and classification (5. útg.). Littleton: Libraries Unlimited. Wynar, B.S. (1985). Introduction to cataloging and classification (7. útg.). Littleton: Libraries Unlimited.