komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. sums staðar er...

19
│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 1 Komdu og skoðaðu Hafið Kennsluleiðbeiningar

Upload: others

Post on 19-Jul-2020

5 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 1

Komdu og skoðaðuHafið

Kennsluleiðbeiningar

Page 2: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 2

Markmið með námsefninuNámsefnið kom út árið 2005 og féll undir þágildandi Aðalnámskrá grunnskóla um náttúrufræði og samfélags- greinar. Hér er fjallað um lífríkið og umhverfið í sjónum og við ströndina og einnig tengsl manns og hafs í gegnum tíðina.

Í nýrri Aðalnámskrá (2013) er viðfangsefnið enn á dagskrá. Þar eru m.a. sett fram markmið um náttúru Íslands, um stöðu landsins í heiminum hvað varðar náttúru og menningu, þróun samfélagsins og um sam-spil manns og náttúru. Námsefnið Komdu og skoðaðu hafið fellur þarna vel að.

Markmið í aðalnámskrá eru gjarnan yfirgripsmikil og þeim verður varla náð nema með síendurtekinni reynslu, dæmum og umfjöllun. Mörg þessara markmiða tengjast námsefninu um hafið. Í gegnum náms-efnið Komdu og skoðaðu hafið má segja að nemendur öðlist reynslu og þekkingu sem ásamt fleiru stuðlar að því að þeir nái þeim markmiðum sem sett eru fram í aðalnámskrá.

Markmiðin með námsefninu Komdu og skoðaðu hafið eru þessi:

Nemandi á að

� gera sér grein fyrir því hvað felst í því að Ísland er eyja

� læra að hverju þarf að hyggja í fjöruferð

� geta lýst ströndum út frá lögun

� geta lýst hvað felst í orðunum „flóð og fjara”

� gera sér grein fyrir að aðstæður í sjónum og við ströndina eru mjög margbreytilegar og lífríkið sömuleiðis (lífverurnar eiga sér kjörbýli).

� þekkja nokkra flokka og tegundir sjávarlífvera

� læra að í sjónum eru heitir og kaldir straumar m.a. Golfstraumurinn

� átta sig á samspili manns og náttúru, einkum þegar litið er til íbúa sjávarþorps

� þekkja til sögu sjávarútvegs á Íslandi í stórum dráttum

� kynnast störfum í sjávarútvegi sem eru mörg og ólík

� átta sig á þáttum sem hafa áhrif á myndun þéttbýlis við strönd

� átta sig á því hvers vegna sjávarútvegur er mikilvægur atvinnuvegur og nauðsyn inn- og útflutnings

� vita hvað er höfn og hvað má búast við að sjá þar

� þekkja að hlutverk skipa og báta eru mörg og útlit þeirra sömuleiðis

� læra helstu heiti á skipshlutum

� gera sér grein fyrir að í hafinu eru miklar auðlindir

� gera sér grein fyrir mikilvægi þess að ganga vel um hafið

Vinnubrögð

Börn eru í eðli sínu forvitin. Þeirra aðalverkefni á æskuárum er að öðlast skilning og öryggi í umhverfi sínu. Börnin vinna að því hörðum höndum að átta sig í þessum heimi. Þau eru leitandi og byggja sér eins konar mynd eða kerfi í huganum út frá nýjum uppgötvunum og reynslu. Þau eru að læra og skilja og þau eru iðandi virk í þessari hugsmíði sinni. Leit, upplifun, spurningar, umræður,vettvangskannanir spila þarna stórt hlutverk.

Það er gaman að leika sér. Leikir kalla fram jákvæðni og leikir eru börnum eðlislægir líkt og yrðlingum! Í þannig aðstæðum fer nám auðveldlega fram. Skilin á milli leiks og lærdóms eru ekki skörp. Margt er til í hendingunni „Það er leikur að læra”.

Page 3: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 3

Sjórinn skiptir misjafnlega miklu máli í lífi fólks á Íslandi eftir búsetu og atvinnu. Sjórinn spilar engu að síður stórt hlutverk í lífi Íslendinga sem þjóðar. Hann er okkur því alltaf nálægur. Það er meðal annars þess vegna sem mikilvægt er að börn læri um sjóinn. Fjaran er iðandi af lífi allan ársins hring og er því einkar hentug til athugana skólabarna. Sjórinn er allt í kringum landið og því er tiltölulega stutt að fara niður í fjöru frá flestum skólum landsins. Það reynist oft auðveldara en það sýnist í fyrstu að fá sjávarfang hjá sjómönnum til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir.

Nokkrar hugmyndir að vettvangsferðum:

HVERT HVAÐ SKOÐAÐ

Fjara - Gróður

- Fuglar

- Hryggleysingjar

- Selir

- Hverju skolar á land?

- Landslag

Sjór – sjóferð - Veiðar (fiskur / hryggleysingjar)

- Fuglar

- Hvalir

- Veiðarfæri

- Skipið sjálft

Höfn - Skip – tegundir

- Mannvirki

- Starfsemi

Fiskvinnsla - Unnið úr afla

Safn - Listaverk sem tengjast sjó

- Gamlir munir sem tengjast sjósókn

Vinnubrögð í tengslum við námsefnið Komdu og skoðaðu hafið ættu að vera fjölbreytt. Hér á vefnum er lagt upp með mörg ólík verkefni sem öll tengjast bókinni, mismikið þó. Þessi ólíku verkefni kalla á fjölbreytt vinnubrögð.

Það sem við ættum alltaf að hafa í huga í kennslunni er meginverkefni barnsins sem er að þroskast, þ.e. byggja sér sitt hugtakanet. Við þurfum að hlusta og horfa eftir forhugmyndum barnanna. Þær gætu t.d. komið fram í spurningum þeirra og umræðum, skrifum og teikningum. Við þurfum einnig að taka tillit til þess að áhugi og hæfileikar einstaklinga liggja á mismunandi sviðum og oft er hægt að nálgast sama við-fangsefnið á ólíkan hátt. Við þurfum einnig að styðja vel við barnið í því sem það er að gera og þannig fleyta því sem lengst áfram á braut skilnings, þroska og þekkingarleitar.

Eitt af því sem skiptir máli er að nemandinn fái að sitja við stjórnvölinn í náminu eftir því sem hægt er. Það þarf ekki að skipuleggja öll verkefni í smáatriðum og það að fá svolítið lausan tauminn innan ákveðinna marka er bæði þroskandi og veitir nemandanum aukna ánægju við verkið. Sköpunargleðin veitir jafnan mikla mikla ánægju og hana þarf að glæða.

Vísindaleg vinnubrögð eru eðlileg í þessu fagi og henta vel við ýmis verkefni, einkum tilraunir. Nemendur setja þá fram einfaldar tilgátur eða spurningar, leita eftir upplýsingum (með athugunum, samskiptum eða í heimildum), skipuleggja leiðir, skrá niðurstöður og mælingar, vinna úr og greina upplýsingar og að lokum

Page 4: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 4

túlka þeir þær. Það er mikilvægt að skipuleggja vinnubrögð í þessum anda, þó að nemandinn upplifi e.t.v. ekki mjög vísindalega nálgun. Það er til að mynda óþarfi að tala um „tilgátu” þó að við engu að síður löðum hana fram t.d. í umræðum. Kennarinn hefur hin vísindalegu vinnubrögð bak við eyrað en reynir svo að láta kennslu- og námsferlið þróast eðlilega í þessum anda. Þegar nemendur eru orðnir eldri er við hæfi að tala formlegar um hinar vísindalegu leiðir.

Notkun fjölbreyttra miðla er æskileg og er þá mikilvægt að leitast við að nýta kosti hvers miðils í viðkomandi verkefni.

Í samfélagsgreinahluta aðalnámskrár er rætt um samfélagsþróun og víst er að saga sjómennsku er stór þáttur í Íslandssögunni. Ýmsar leiðir eru til að skynja og upplifa söguna, svo sem í gegnum gamla muni og minjar, ljósmyndir, kvikmyndir, í gegnum bókmenntir, með viðtölum, heimsóknum á söfn og með því að endurskapa veruleika með öðrum (t.d. nema land og mynda samfélag). Þetta á mjög vel við þegar nem-endur kynnast þróun sjávarútvegs. Á mörgum söfnum má finna hluti sem tengjast sjósókn fyrri alda. Við-fangsefni margra myndlistarmanna er sjómennskan.

Freydís Kristjánsdóttir teiknar fallegar myndir í bókina Komdu og skoðaðu hafið. Í þeim felst mikill fróðleikur og eru þar mörg atriði til að ræða. Börn geta gleymt sér við að skoða og það er svo sannarlega margt að skoða á myndum Freydísar. Þar eru mörg smáatriði sem auðvelt er að missa af ef lesandinn er á hlaupum!

Grunnþættir menntunar og hafið

Kaflanum var bætt inn í kennsluleiðbeiningarnar vorið 2014.

Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011 er gerð grein fyrir sex grunnþáttum í íslenskri menntun. Þeir varða starfshætti, inntak og umhverfi náms og eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir styðja hver við annan og fléttast jafnframt inn í aðal-námskrár á öllum skólastigum og styrkja ákveðna samfellu skólastarfs. Með því að hugsa út frá þeim má skapa meiri heildarsýn um skólastarfið.

Að finna hreina snertifleti grunnþátta og inntaks eða viðfangsefnis í skóla getur verið snúið. Þó að grunn-þættirnir varði inntak náms er ekki þar með sagt að þeir varði beint allt inntak náms. Að rembast við að finna snertifleti er ekki endilega rétt eða eftirsóknarvert. Út úr því kann að koma eitthvað tilgerðarlegt sem hvorki er í anda viðfangsefnis né grunnþátta. Með þessum orðum er ekki kastað rýrð á gildi grunnþáttanna. Það verður einfaldlega að vinna með þá í samræmi við eðli þeirra og starfa í anda þeirra. Viðfangsefnin verður líka að líta í tæru ljósi.

LÆSINámsefnið Komdu og skoðaðu hafið er ætlað nemendum í 2.–3. bekk. Þó að stærsti hluti þeirra sé þá orðinn læs í þröngri merkingu þess orðs og geti tæknilega breytt bókstöfum í hljóð og þannig lesið er ekki þar með sagt að lestrarnámi sé lokið eða fullri leikni sé náð. Lestur snýst jafnframt um samhengi og inntak. Það tekur stöðugum breytingum og verður erfiðara eftir því sem líður á skólagönguna. Lestrarnámi lýkur aldrei.

Texti námsefnisins er sniðinn að börnum á þessu tiltekna aldursskeiði. Lögð er áhersla á tiltölulega stuttar setningar og gott samhengi þeirra. Málið er að öðru leyti ekki einfaldað og víða má sjá löng orð og sum örugglega ný fyrir nemendur.

Að lesa texta bókarinnar er einungis einn liður í náminu um hafið. Verkefnavinna, vettvangsferðir, tilraunir og umræða eru ekki síður veigamiklir þættir. Þó skal lögð á það áhersla að vinna vel með textann þar sem hann er grunnur eða útgangspunktur alls hins. Ræða ætti erfið orð eða annað sem virðist torskilið. Margt annað er lesið, svo sem aðrar fræðibækur, efni í tímaritum, á netinu og lesið er í landslag og minjar.

Page 5: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 5

Læsi snýst fyrst og fremst um sköpun merkingar og gerist ekki í tómarúmi. Túlkun lesanda og skilningur fer m.a. eftir bakgrunni hans og umhverfi. Fleira kemur inn í myndina en texti á blaði eða bók svo sem aðrir miðlar. Það er hægt að vera læs á fleira en texta. Jafnvel er talað um að lesa umhverfi sitt. Samkvæmt aðal-námskrá grunnskóla (almennur hluti bls. 19) er meginmarkmið læsis að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.

Í heftinu um læsi eru hagnýtar leiðbeiningar um lestrarnám. Þar er meðal annars rætt um mikilvægi þess að faggreinakennari (t.d. sá er kennir um hafið) og lestrar- og ritunarkennarar stilli saman strengi sína. Jafnframt segir:

Með því að lesa efni í ýmsum greinum [...] öðlast þeir [þ.e. nemendur] ekki aðeins grunnþekkingu á við-komandi sviði heldur einnig yfirsýn sem gerir þá að betri lesendum á öllum sviðum.1

SJÁLFBÆRNIAlgengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggi hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. fram-leiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings.2

Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera nemendum kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að sam-spili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Umfjöllun um sjálfbærni á sérlega vel við um hafið. Sjávarútvegur er einn af aðalatvinnuvegum Íslendinga. Hvernig auðlindir hafsins eru nýttar skiptir miklu máli upp á það hvernig viðkomandi stofnum vegnar og almennt hvernig ástandið í sjónum er. Stjórn á fiskveiðum og hafrannsóknir eru mikilvægar í því að stuðla að sjálfbærum veiðum. Í hnotskurn fjallar námsefnið um náttúruna, þ.e. sjó og strönd, og samspil manns við hana.

Margs er að gæta þegar kemur að umgengni við hafið:

Ofveiði felur í sér að svo mikið sé veitt að það komi niður á stærð stofnsins. Þorskstofninn minnkaði mikið á tímabili og umtalsvert minna er nú veitt af þorski en áður. Stofninn virðist vera að ná sér á strik á ný. Hvalir urðu illilega fyrir barðinu á of miklum veiðum sem náðu hámarki á 19. og fram á 20. öld. Ýmsar Evrópuþjóð-ir voru stórtækastar í þeim veiðum.

Hvalastofnum var útrýmt eða stefnt í hættu. Einkum var það spikið sem sóst var eftir en það var notað í lýsi. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 til að hafa stjórn á hvalveiðum á heimsvísu. Árið 1986 bannaði ráðið svo allar hvalveiðar í atvinnuskyni. Nú er hvalaskoðun orðin atvinnuvegur á Íslandi.

Sum veiðarfæri geta skemmt sjávarbotninn og um leið búsvæði margra dýra. Þessi dýr geta verið fæða annarra dýra svo slíkar skemmdir geta haft umtalsverð áhrif á líf í sjó.

Oft koma í veiðarfærin fiskar sem ekki er verið að fiska eftir. Þetta geta verið fiskar sem eru ekki af réttri stærð eða tegund. Borið hefur á því að þessum fiskum sé hent aftur fyrir borð því ekki fæst verð fyrir þá á landi vegna kvótareglna. Talað er um brottkast. Slík hegðun er ekki í samræmi við hugsun um sjálfbærni.

„Lengi tekur sjórinn við“ var oft haft á orði í gamla daga. Greinilegt er að heilmikið rusl fer í sjóinn miðað við það sem berst á land við strendur. Hvaðan það kemur er ekki alltaf vitað. Ekki fyrir svo mjög mörgum árum var rusli af skipum hent beint í sjóinn.

1 Rit um grunnnþætti menntunar – Sjálfbærni. 2013. Mennta- og menningamálaráðuneyti. Kápa. http://vefir.nams.is/flettibaekur/namsefni/sjalfbaerni/sjalfbaerni.html.

2 Rit um grunnþætti menntunar. 2013. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. bls. 41 http://www.nams.is/Namsefni/Valid-namsefni/?productid=cc831add-21f0-4ffa-934d-21a24a11e34e&categoryid=

Page 6: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 6

Menn hafa nýtt sjófugla til matar, einkum svartfugl og eins egg þeirra. Þarna má ekki fara of geyst í veiðum eða eggjatöku svo ekki komi það niður á stofninum. Þjóðsagan um Guðmund góða og Drangey passar vel inn í þessa umfjöllun. Boðskapur hennar er að taka ekki allt heldur skilja eitthvað eftir. Til að krydda söguna eru Kölski og Guð kallaðir til leiks.

Að nýta náttúruauðlind á sjálfbæran hátt felur í sér að skerða hana ekki heldur viðhalda. Ekki skal gengið á höfuðstólinn. Sumar auðlindir eru takmarkaðar og ganga til þurrðar en aðrar eru endurnýjanlegar. Lífríki er endurnýjanleg auðlind. Þannig er t.d. hægt að veiða fisk um ókomna tíð ef þess er gætt að veiða ekki meira en stofninn vex frá ári til árs.

Rætt er um viðskipti í námsefninu. Auðvelt er að tengja þá umfjöllun sjálfbærni. Það er í anda umhverfis-verndar að flytja ekki vörur langar leiðir ef þær er hægt að framleiða á staðnum. Til þessara flutninga þarf eldsneyti. Velta mætti fyrir sér hversu nauðsynlegt er að flytja inn allar þær vörur sem fást á Íslandi. Einnig má skoða helstu vörur sem framleiddar eru á Íslandi. Sumt af því sem flutt er inn til landsins er hægt að framleiða hérlendis.

Þó að nemendur séu ungir eru þeir vel móttækilegir fyrir umræðu um þessi mál ef hún er sett fram á skýr-an hátt og við hæfi. Að nota orðin sjálfbær þróun eða sjálfbærni er alls ekki nauðsynlegt. Aðalatriðið er að skilja hugsunina sem í þessum hugtökum felst, að efla þekkingu á náttúrunni og um leið efla umhverfis-vitund og vilja til náttúruverndar. Svo segir um menntun til sjálfbærni í ritröð um grunnþætti menntunar:

„Markmið:

• Aðskiljaþáhugsunsemfelstíhugtakinusjálfbærni.

• Aðeflaumhverfisvitund;þekkingu,skilningogvæntumþykjuánáttúru,umhverfiogfólki.

• Aðaukaviljatilnáttúruverndarogvirðingufyrirfjölbreytileikanáttúruogmannlífs.

• AðtemjasérlífsvenjursemstuðlaaðheilbrigðiJarðar,náttúruogfólks.

• Aðþjálfahæfnitillýðræðis;samlíðanmeðfólki,gagnrýnahugsunogsamskipti.

• Aðhorfatilframtíðar,virðaréttkomandikynslóðatilsæmandilífsogheilbrigðis.“3

HEILBRIGÐI OG VELFERÐHeilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.

Hafið hefur mikið aðdráttarafl. Í fjörunni er endalaust hægt að leika sér, auk þess sem þar er nóg að skoða og rannsaka. Vellíðan fer saman við útiveru og sjónum tengist einhver sérstök tilfinning. Líklega er það vegna öldugangs og krafts ásamt víðáttu og leyndardómum. Það er hollt að vera úti og hreyfa sig. Rann-sóknir sýna að hreyfing og útivera eykur námsárangur.

Mikilvægur þáttur í heilbrigði og velferð hvers einstaklings er jákvæð sjálfsmynd. Þetta er talsvert rætt í hefti um heilbrigði og velferð í ritröð um grunnþætti menntunar. Þar er einnig komið inn á fjölgreindar-kenninguna. Þegar nemendur læra um hafið eru margar leiðir færar. Vinnubrögðin geta verið fjölbreytt og í námsefninu er það einmitt lagt til. Með fjölbreyttum vinnubrögðum er líklegra að nemendur fái betur notið sín. Einum hentar eitt, öðrum annað. Þannig er nemendum mætt í styrkleika sínum. Þeir læra betur.

Skörun heilbrigðis og vellíðunar við nám um hafið er að öðru leyti almenns eðlis. Í skólastarfi öllu þarf að gefa mikinn gaum að líðan nemenda almennt. Vellíðan er forsenda árangurs og jafnframt grunnur að far-sælu lífi. Í skólum þarf að skapa börnum aðstæður til heilbrigðra lífshátta:

3 Ritumgrunnnþættimenntunar–Sjálfbærni.2013.Mennta-ogmenningarmálaráðuneytibls.51http://vefir.nams.is/flettibaekur/namsefni/sjalfbaerni/sjalfbaerni.html.

Page 7: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 7

Það skuli gera með því að efla færni þeirra í samskiptum, byggja upp sjálfsmynd þeirra, færni í að taka ákvarðanir, setja sér markmið og hafa stjórn á streitu. Lögð er rík áhersla á jákvæðan skólabrag og að heilsueflandi áherslur skóla nái yfir holla og heilsusamlega næringu, hreyfingu, hvíld, hreinlæti, öryggi og kynheilbrigði.4

LÝÐRÆÐI OG MANNRÉTTINDITengsl námsefnisins Komdu og skoðaðu hafið við lýðræði og mannréttindi má líklega fyrst og fremst finna í umræðum um nýtingu auðlindarinnar. Það mál má vel ræða við nemendur, þrátt fyrir ungan aldur þeirra. Þeir geta velt fyrir sér: Hverjir eiga að njóta gróðans af fiskinum sem veiðist? Hverjir eiga fiskinn í sjónum? Með lögsögu yfir miðunum í kringum landið ráða Íslendingar yfir þeim. Hvernig er best að útfæra þá ráð-deild?

Í raun og sann er þetta ekki augljóst mál í heimi fullorðinna en það er spurning hvernig nemendur taka á þessu. Nemendur ættu sem mest að ræða þessar spurningar á sínum forsendum og gott er að vísa til land-námsaðferðar Herdísar Egilsdóttur í því sambandi. Þar er nemendum fært það verkefni að byggja þjóðfélag og þurfa að ræða mörg flókin og alvarleg mál í því sambandi (lifsleikni.is).

Snertifleti námsefnisins Komdu og skoðaðu hafið við lýðræði og mannréttindi má einnig finna í vinnubrögð-um. „Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“ Bls. 7 – hefti. Jafnframt segir í aðalnámskrá bls. 21: „Umhyggja fyrir fólki, dýrum og umhverfi er einnig hluti lýðræðismenntunar og á heima í öllum námsgreinum.“ Í námsefninu um hafið er þess vænst að nemendur öðlist sýn á hafið og lífríki þess sem einkennist af forvitni og væntumþykju.

JAFNRÉTTIMörg störf tengjast sjávarútvegi. Hefð er fyrir því að karlar sinni ákveðnum störfum og konur öðrum. Karlar eru t.d. í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem stunda sjómennsku. Margir telja að það sé vegna þess að mikið líkamlegt afl sé nauðsynlegt í þessum störfum. Það er ekki alls kostar rétt því mörg dæmi sýna að konur ráða vel við verkin. Auk þess eru störfin mismunandi létt eða erfið um borð í skipunum (dæmi: háseti, kokkur, skipstjóri, vélstjóri, stýrimaður). Bent hefur verið á að uppeldishlutverk kvenna hindri þær í að stunda sjó-mennsku þar sem þær séu bundnar yfir heimili og börnum. Vissulega þurfa foreldrar sem stunda sjóinn oft mikinn stuðning frá sínu nánasta fólki . Þetta á bæði við um feður og mæður einkum í ljósi aukinnar þátttöku og ábyrgðar karla á heimilum í breyttu samfélagi. Sumir halda því fram að karlar og konur séu sköpuð sem andstæður og gegni mismunandi samfélagslegum hlutverkum. Þetta er ríkjandi í tíðarandanum og menn-ingunni og fólk þarf stundum að hafa bein í nefinu til að sinna störfum sem hitt kynið „á“. Sjómennska er ekki endilega karlastarf. Minnkuð kynjaskipting á vinnumarkaði er mikilvægur þáttur í jafnréttisbaráttu kynjanna.

Jafnréttismenntun felur m.a. í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu.

SKÖPUNMargt er leyndardómsfullt við sjóinn. Þar eru vægast sagt fjölbreyttar lífverur og aðstæður sömuleiðis. Enn er ýmislegt ókannað hvort sem um er að ræða óþekktar lífverur, ókunnugt samspil lífvera eða lífshætti. Mörg tilefni eru til að heillast og undrast. Ímyndunarafl fer auðveldlega af stað og sköpunargleðin fylgir þá gjarnan með.

Einkenni skapandi skólastarfs eru listuð á bls. 7 í heftinu um sköpun í ritröð um grunnþætti menntunar. Námsefnið Komdu og skoðaðu hafið fellur vel að því sem þar er sagt. Það býður upp á aðferðir er einkenna

4 Ritumgrunnnþættimenntunar–Heilbrigðiogvelferð.2013.Mennta-ogmenningarmálaráðuneytibls.7http://www.nams.is/Namsefni/Valid-namsefni/?productid=feecc92d-16de-4cda-b527-7fb25ec52a42&categoryid=

Page 8: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 8

skapandi skólastarf og skal þar fyrst nefnt frelsi í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Frelsið eflir hugsun og því fylgir meiri ánægja og áhugi. Frelsið stuðlar að þroska einstaklingsins hvað varðar sjálfstæði hans í hugsun, ímyndunarafli og frumleika.

Í verkefnum er samþætting við aðrar námsgreinar (t.d. íslensku, myndlist, leiklist og íþróttir) og þau eru mörg hver opin og bjóða upp á að farnar séu ólíkar leiðir. Kennari gæti útfært enn frekari samþættingu við fleiri greinar.

Vettvangsferðir einkenna skapandi skólastarf. Námsefnið Komdu og skoðaðu hafið kallar á vettvangsferðir en nám verður mun árangursríkara og skemmtilegra þegar unnt er að veita nemendum beina reynslu af viðfangsefninu.

Lögð er áhersla á að verk nemenda séu sýnileg og þannig vel fallin til að ræða um og velta fyrir sér með öðrum. Auk þess er gott að hafa efni fyrir augunum til að einbeita sér betur..

Einhverjum kann að virðast hugtakið sköpun snúast um eitthvað háfleygt, listrænt og frumlegt. Það er ekki alls kostar rétt. Svo segir í heftinu um sköpun í ritröð um grunnþætti menntunar á bls. 26:

Skapandi nám snýst ekki um endalausa leit að frumlegum hugmyndum sem spretta úr tóminu. Það snýst um að þjálfast í að skoða, hlusta, muna og skilja umhverfið og að leyfa því að gerjast innra með sér. Skap-andi nám styrkir skilning nemandans á heiminum með því að þjálfa nákvæma athygli og æfa hann í að greipa umhverfið og samfélagið í minni sitt og túlkun. Sköpun snýst um samtal við umhverfið.

1. OPNA (BLS. 2–3)

LykilatriðiÍsland er eyja – hafið í kringum Ísland heitir Atlantshaf – stemning við hafið.

UmræðupunktarÞað liggur beint við að láta hugann reika í framhaldi af texta bókarinnar:

Við færum á mis við margt ef ekki væri sjór allt í kringum Ísland. „Hvað fleira dettur ykkur í hug?” er spurt.

Kennari gæti punktað niður hugmyndir barnanna. Ef vel tekst til með að hugstorma væri hægt að gera enn meira og búa til myndir af atriðunum sem komu fram. Einnig mætti skipuleggja umræðuna þannig að dregnir væru fram kostir þess og gallar að Ísland er eyja.

Það væri vel við hæfi að draga fram hnattlíkan eða heimskort til þess að skoða legu landsins og einnig heimsins höf. Hvaða höf þekkja börnin og hvar er þau að finna? Að lokinni kortaskoðun má snúa um-ræðunni að landnámsmönnum og hvernig þeir komust til Íslands. Í þessu sambandi fer vel á að lesa söguna um Garðar Svavarsson.

Sjóferðir víkingannaKennari getur frætt nemendur um tvær meginleiðir sæfaranna þ.e. eyjaleiðina (frá Noregi til Hjaltlands (Shetlandseyja) eða Orkneyja, síðan til Færeyja og þaðan til Íslands) og úthafsleiðina og skoðað þær á korti. Í kjölfarið er tilvalið að fá nemendur til að velta eftirfarandi spurningum fyrir sér:

� Hvort ætli hafi verið betra að fara eyjaleið eða úthafsleið?

� Hvað heita löndin sem þú sérð á kortinu?

Með því að fara eyjaleiðina komust menn hjá því að sigla marga daga á rúmsjó þar sem ekki sá til lands. Það var öryggi af því að sjá til lands ef eitthvað kom upp á.

Úthafsleiðin var beint á milli Noregs og Íslands. Á leið til Íslands þurftu menn að gæta vel að til þess

Page 9: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 9

að rata til landsins eða „hitta“ á það! En væru menn að sigla til Noregs frá Íslandi reyndist auðveldara að finna landið enda er Noregur langur!

Það fór mjög eftir veðrum og vindum hversu fljótir víkingarnir voru í för. Þeir þurftu byr ef vel átti að ganga. Líklega hafa víkingarnir yfirleitt verið einhverjar vikur á leiðinni en talið er að þeir hafi getað verið þrjá sól-arhringa að fara úthafsleiðina ef veður voru eins og best verður á kosið.

Hvernig tókst landnámsmönnum að rata?Talið er að landnámsmenn Íslands séu meðal fyrstu manna í Norður-Evrópu sem sigldu langar leiðir yfir opið haf. Slíkar siglingar voru áhættusamar enda allra veðra von á slóðum þeirra. Í logni rak skipin fyrir straumi, oft langt af leið, því þau voru of þung til þess að hægt væri að róa þeim nema stuttan spöl. Þannig gat einnig farið í stórviðrum er fella þurfti bæði segl og siglutré og það eitt til ráða að hleypa undan vindi til þess að verja skipið áföllum.

Landnámsmenn skorti þau siglingatæki sem nú eru notuð á leið yfir úthafið, svo sem sjókort og áttavita. Tækin sem þeir höfðu voru mjög fábrotin, naumast annað en lóð til að mæla dýpt sjávarins. En sæfarar höfðu þó ýmislegt við að styðjast:

Sól og stjörnur, talið er að norrænir menn hafi stuðst við stjörnur til að rata á dimmum, heiðskírum nóttum. Gátu þeir tekið mið af pólstjörnunni sem ávallt er í hánorðri. En þetta var ekki hægt þegar bjart var. Ýmsir telja að þá hafi verið stuðst við sólina, til þess hefur þurft að kunna skil á gangi hennar.

Farfuglar eða sjófuglar, af flugi þeirra fengu sæfarar vísbendingu um hvar land væri að finna.

� Hvernig?

Skýjabólstar, sem hrannast upp yfir fjallatindum, sjást víða að.

� Hvernig gætu landnámsmenn hafa notfært sér það?

Hvalir, gátu gefið vísbendingu um hvar menn voru staddir í hafi. Mjaldur geldur sig á norðlægum slóðum, búrhvalur sunnar og hnísa sést mjög oft nærri landi.

Þegar þoka grúfði yfir urðu menn að treysta á heyrnina. Kliður úr fuglabjargi eða brimgnýr hafa að líkindum verið hættumerki.5

� Hvers vegna ?

Garðar Svavarsson og Garðarshólmi í (Ævintýri og sögur) tengist einnig landnáminu.

Annað efniÝmis víkingaskip hafa varðveist, til dæmis Gauksstaðaskipið og Ásubergsskipið í Noregi og allmörg skip kringum Hróarskeldu í Danmörku.

Vefsíða um Gauksstaðaskipið (http://home.online.no/~joeolavl/viking/gokstadskipet.htm)

Vefsíða um Ásubergsskipið (http://home.online.no/~joeolavl/viking/osebergskipet.htm)

Vefsíða um Tuneskipið (http://home.online.no/~joeolavl/viking/

osebergskipet.htmhttp://home.online.no/~joeolavl/viking/tuneskipet.htm)

Sjáeinnig:http://wind.caspercollege.edu/~gnelson/scandinavia/vikingships.htm

5 Ingvar Sigurgeirsson. 1994. Landnám Ísands bls. 22–23

Page 10: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 10

2. OPNA (BLS. 4–5)

LYKILATRIÐIStrendur eru fjölbreyttar – landslag við strönd – rofmáttur sjávar – allan ársins hring er líf í fjörum – flóð og fjara.

Landslag við ströndGott er að byrja á því að kanna orðaforða nemenda í tengslum við landslag við strönd. Slíka umfjöllun má hefja með skoðun á hugtökum sem líklegt er að allir þekki, svo sem eyja, fjörður og vík. Síðan má leiða umræðuna áfram. Nokkur hugtök til viðbótar: vík, vogur, nes, tangi, skagi, höfði, ós, flói, fjörður, eyri, bjarg, sker, eyja. Gott er finna til landslagsmyndir til að gera umræðuna meira lifandi.

Til umræðu: � Þekkja nemendur örnefni um landslag af þessu tagi í sinni heimabyggð? (búa til lista, útskýra þarf

orðið örnefni)

� Útvíkkun: til eru fleiri heiti yfir landslag sem tengjast ekki strönd. Nemendur nefni þau. Dæmi: hóll, fjall, kvos.

� Nemendur teikna sína eigin ímynduðu strandlengju og merkja inn á örnefni. Seinna mætti taka þessa mynd aftur fram til að búa til myndir sem sýna þróun byggðar. Mætti hugsa sér að nota glærur.

Sandkassi Í bók Ísaks Jónssonar, Átthagafræði, er sagt frá ýmsum kennsluútbún-aði, meðal annars sandkassa. Hann er til margra hluta nytsamlegur og er hugsaður til notkunar innan dyra. Í honum má móta skólann, leik-svæðið, nánasta umhverfi skólans og síðast en ekki síst landslag s.s. fjöll, dali, strönd, ár og vötn.

Ísak gefur upp mál að kassanum og leggur til að hann sé 110 cm x 100 cm á fótum og með loki. Neðan á lokinu er tafla. Þar mætti teikna landslag (líkt og á landakorti) og skrifa inn á landafræðileg heiti. Sand-urinn sé frekar grófur, hreinn og dálítið rakur. Gott er einnig að geta gripið til steina.

Það væri lærdómsríkt fyrir nemendur að móta strönd úr sandi í samræmi við landakort sem mætti teikna á töfluna. Ef enginn sandkassi er til staðar má hugsa sér aðrar leiðir. Þannig mætti búa til líkanaf strandlengju úr pappamassa og sjórinn gæti verið úr sellófan og hreyfanlegur svo að líkja mætti eftir flóði og fjöru.

Ísak Jónsson. 1962. Átthagafræði. Reykjavík, Ríkisútgáfa námsbóka.

Lábarið grjót (Á vettvangi)Kennarinn velji steina sem nota á í þetta verkefni. Mikilvægt er að hafa innan um „mjúka” steina eins og rauðamöl eða sandstein og alls kyns kantaða steina.

Steinarnir skoðaðir þegar búið er að hrista í nokkra stund. Trúlega hefur eitthvað molnað af þeim og finna má mulning eins og sandkorn í dósinni. Horn og kantar nuddast af þeim og sandur myndast. Þetta er einmitt það sem gerist í fjörunni og í árbotnum. Steinar þar eru á stöðugri hreyfingu og rekast hver á annan. Þess vegna verða þeir ávalir og mjúkir og sandur myndast smátt og smátt.

Page 11: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 11

Að fleyta kerlingar (Leikir)Markmiðið með þessum leik er meðal annars að nemendur kynnist vel grjótinu í fjöruborðinu. Nemendur gætu einnig valið sér steina í fjörunni til að útbúa steinkarla og -kerlingar.

3. OPNA (BLS. 6–7)

LYKILATRIÐIFjölbreytt búsvæði lífvera í fjörunni – lífverur fjörunnar.

Það er mikilvægt að leggja áherslu á hversu fjölbreytt búsvæði fjörunnar eru. Fjörur eru af ýmsum gerðum: leirur, sandfjörur, klapparfjörur, hnullungafjörur, klettóttar fjörur og björg. Lífverurnar hafa aðlagast þess-um ólíku aðstæðum og bera þess merki bæði í útliti og lífsháttum. Það eru því mismunandi lífverur á ólíkum strandsvæðum.

Í tengslum við þessa opnu er best, ef hægt er að koma því við, að skoða raunverulegar lífverur. Vettvangs-ferð í fjöru er auðvitað besti kosturinn því þá er hægt að skoða mismunandi fjörugerðir um leið og lífverur eru skoðaðar. Heimsóknir á söfn eru líka gagnlegar, þar sem slíkt er til staðar. Brýna þarf fyrir nemendum í vettvangsferðum að ganga vel um og halda sýnatöku í hófi. Rétt er að kynna fyrir nemendum eftirtaldar lífverur: þang og þara, marflær, kuðunga, skeljar, ígulker, krossfiska, krabba, orma og hrúðurkarla.

Dýr í fjöru (Í handraðanum)

Vettvangsferð (Á vettvangi og aftast í kennsluleiðbeiningum)

4. OPNA (BLS. 8–9)

LYKILATRIÐIFjölbreytt búsvæði lífvera úti í hafinu – lífverur hafsins – mjög margar tegundir.

Líkt og í fjörunni eru hafsvæðin ólík. Lífverurnar bera merki þess umhverfis sem þær lifa í. Birta, hitastig, þrýstingur og straumar eru þarna meginhugtökin. Dýpi og þrýstingur: Því dýpra sem dýr fer ofan í sjóinn því meiri og þyngri verður sjórinn sem hvílir ofan á því.

Birta: Þótt vatn sé í eðli sínu gegnsætt og sólin geti því skinið í gegnum það þá eru alltaf örlitlar agnir í því, lífverur, rykagnir, loftbólur o.fl. sem skyggir á sólina og því þykkari sem þessi „veggur“ er því minna sólarljós kemst í gegnum vatnið.

Fróðleikskista um fiskTveir og tveir nemendur velja sér einn fisk til að fjalla um. Fiskurinn lifi í sjó og í norðanverðu Atlantshafi. Þeir afla sér heimilda um fiskinn og skoða myndir af honum. Í upplýsingunum sem nemendur setja niður komi sem mest af eftirtöldum atriðum fram:

� útlit (mynd) + stærð

� hvað fiskurinn verður almennt gamall

� hvar fiskurinn lifir í sjónum

� hvað fiskurinn étur

� hvort fiskurinn er étinn

� annað athyglisvert

Page 12: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 12

Nemendur setja efnið sitt saman í bók, á vefsíður, á glærusýningu, á veggspjöld eða annað. Ein hugmynd um framsetningu er að teikna og lita fiskinn og klippa hann síðan út. Upplýsingar um fiskinn eru settar á blað sem hefur sömu lögun og fiskurinn. Hægt er að setja upp net í stofunni og hengja fiskana upp og setja upplýsingarnar um þá á netið.6

Fiskar á peningum (Á vettvangi)Sjá einnig Komdu og skoðaðu land og þjóð, – Sjávardýr (Á vettvangi) og námsefnið Lesum meira saman (lestrarbók ásamt vinnubók).

Frímerki hafa verið gefin út með myndum af fiskum. Kannski eru einhverjir frímerkjasafnarar í bekknum sem gætu komið með fiskafrímerki í skólann til að sýna bekkjarfélögunum.

Stimplað með fiskum (Á vettvangi)

Samkeppni um nafn á fiskbúð (Á vettvangi)

5. OPNA (bls. 10–11)

LYKILATRIÐISjávarspendýr: hvalir og selir – hvalir stærstu dýr jarðar – bjargfuglar: verpa í björgum – nýting.

EndurminningarÁ ferðalögum kunna nemendur að hafa séð seli við strönd, fuglabjörg eða jafnvel farið í hvalaskoðunarferð-ir. Hvetja ætti nemendur til að segja frá þessu. Hvað sáu þeir og heyrðu? Þeir geta enn fremur málað vatns-litamynd af því sem fyrir augu bar og samið texta við myndina.

BjargsigTil eru ýmsar kvikmyndir sem sýna bjargsig áður fyrr sem gaman væri að sýna nemendum ef kennarar geta nálgast. Sem dæmi um mynd má nefna Verstöðin Ísland (4 myndbönd). 1991–92. Reykjavík, Lifandi myndir. Líklegt er að margir eigi í erfiðleikum með að nálgast slíkt myndband en þá geta kennarar annaðhvort frætt nemendur um það eða fengið einhvern, sem þekkir vel til bjargsigs, til að koma í heimsókn og ræða við nemendur. Ef nemendur horfa á mynd þar sem fylgst er með bjargsigi mætti láta þá fá atriði til að horfa eftir í myndinni:

� hversu mikið er tekið af eggjum?

� af hverju brotna eggin ekki?

� hvað er gert við eggin?

� hvernig er sigmaðurinn búinn?

� hvað gera mennirnir á brúninni?

Ennþá er sigið í björg þó það sé minna gert en áður fyrr. Af hverju ætli hafi dregið úr því? Ástæður gætu ver-ið að nú eru fleiri stór hænsnabú þar sem egg eru framleidd sem seld eru í verslanir. Fuglabjörg eru sum á svæðum þar sem fólki hefur fækkað og færri eru til þess að nýta sér hlunnindin, eða hafa kunnáttu til þess. Það er hættulegt að síga í björg og ef þörfin er ekki brýn er það látið eiga sig.

6 © 2005 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir

Page 13: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 13

Vígð Drangey – Guðmundur góði blessar Drangey Pysjunætur (Ævintýri og sögur)

Pysja og Pæja (Ævintýri og sögur)

Hvalur á skólalóðinni (Á vettvangi)

Verkefnið gengur út á að teikna hval, þ.e. steypireyði, á skólalóðina í réttum hlutföllum. Kennari þarf að finna hentugan stað fyrir teikninguna og hugsanlega þarf að fara út fyrir skólalóðina. Kennari þarf sömuleiðis að ákveða hvað sé heppilegt að nota til að teikna en það fer fyrst og fremst eftir aðstæðum á hverjum stað. Einnig þyrfti að búa til nokkra ramma sem eru metri á kant, þ.e. einn fermetri. Málbönd eða bandspotta sem eru einn metri að lengd er sömuleiðis nauðsynlegt að hafa og enn fremur er gott að hafa eitt mjög langt málband.

Best er að byrja á að teikna um 22 m langa línu á völlinn, þetta er bak hvalsins. Um þremur metrum frá þessari línu er teiknuð önnur lína nokkru styttri sem er kviður hans. Þá er gott að skipta krökkunum í þrjá hópa. Einn hópur teiknar hausinn, annar sporðinn og sá þriðji mótar bak- og kviðlínur og teiknar bægsli.

Þegar spurt er hvað hvalurinn sé margar krakkalengdir er best að þau leggist á jörðina þannig að einn krakki leggist við trýni hvalsins, næsti krakki við sporðinn á honum o.s.frv. Er hvalurinn lengri en allur bekkurinn samanlagður? Hvað þarf marga krakka til að vera samanlagt jafn löng og steypireyður?

Sagan af Sednu (Ævintýri og sögur)Hér er sagan um Sednu sögð öll. Mælt er með að hún sé stytt og milduð þegar hún er sögð börnum. Söguna um Sednu má segja sem dæmisögu til þess að undirstrika hvað náttúrufólk áleit sig nákomið náttúrunni. Til eru fjöldamargar sambærilegar sögur um hvernig fólk breytist í dýr, eða stjörnur, sól eða mána eða nánast hvað sem er, eða öfugt, þessir hlutir breytast í menn. Skil manns og náttúru eru nánast engin, hlutir í nátt-úrunni eru eins og ættingjar eða vinir en í henni búa líka voldugar verur. Það þarf ekki að fara til fjarlægra landa til að finna slíkar sögur heldur úir og grúir af þeim í íslenskum þjóðsögum og goðsögnum.

Söguna um Sednu má líka segja til að undirstrika að hin blóðheitu spendýr hafsins höfðu sérstöðu – menn fundu meiri skyldleika með þeim en hinum köldu fiskum og öðrum dýrum með misheitt blóð.

Þrír vinir – ævintýri litlu selkópanna (Ævintýri og sögur)

Selurinn Snorri (Ævintýri og sögur)

Selur hlýðir á messu (Ævintýri og sögur)

Selshamurinn (Ævintýri og sögur)

Sofa urtubörn á útskerjum (Á vettvangi)

Page 14: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 14

6. OPNA (Bls. 12–13)

LYKILATRIÐISjósókn áður fyrr – árabátar og þilskip – verbúðir – þurrkaður fiskur.

Heimsókn á safnAllt í kringum landið eru söfn sem sýna gamla muni er endurspegla líf Íslendinga áður fyrr. Heimsókn á slíkt safn, þar sem sjónum er fyrst og fremst beint að munum sem tengjast sjósókn, er lærdómsrík. Safnvörður eða kennari þarf að glæða hlutina lífi svo nemendur sjái fyrir sér notkun þeirra. Verkefnavinna í tengslum við heimsóknina gerir hana enn árangursríkari. Gæta verður þess að taka tillit til ungs aldurs nemenda og þess hve lengi börnin hafa þolinmæði til að hlusta. Út á hvað verkefnavinnan gengur verður að meta á hverjum stað. Hugsa mætti sér einhvers konar feluleik (eða öllu heldur „að finna” leik), þar sem nemendur eiga að finna ákveðna fyrirfram gefna hluti. Þegar hluturinn er fundinn gætu nemendur fengið það verkefni að fræðast um hann, móta hann úr leir, teikna hann eða mæla. Einnig mætti setja niður stöðvar í safninu með ákveðnum viðfangsefnum sem tengjast hlutunum við stöðina. Sýningar sem settar eru þannig upp að þar megi snerta, máta og reyna verða óhjákvæmilega mun meira lifandi en hinar þar sem allt er lokað á bak við gler. Stundum má líkja eftir vinnubrögðum með látbragði einu.

Hver rífur svo langan fisk úr roði? (Ævintýri og sögur)

Þuríður formaður (Ævintýri og sögur)

7. OPNA (Bls.14–15)

LYKILATRIÐIMisgóðar náttúrulegar hafnir við ströndina – myndun þéttbýlis.

SandkassiHægt væri að nota sandkassann, sem sagt er frá við 2. opnu, til að sýna þróun byggðar. Kannski mætti taka stafrænar myndir af þróun byggðar við strönd sem nemendur setja fram í sandkassanum. Það mætti líka hugsa sér gerð líkans úr pappamassa sem verður til í áföngum.

Mynd grannskoðuðFreydís Kristjánsdóttir hefur teiknað skemmtilegar myndir í bókina Komdu og skoðaðu hafið. Á 7. opnu er að sérstaklega mörgu að gæta:

� Hefur landslagið sjálft eitthvað breyst í tímans rás?

� Hvar er aðalleiðin inn í þorpið?

� Sjást merki þess að samgöngur hafi breyst?

� Eru einhver hús sem hafa fengið að standa lengi?

� Skoðið sérstaklega svæðið í kringum kirkjuna. Hvernig hefur það breyst?

� Er einhver aðalgata í þorpinu?

� Hvernig hefur hafnarsvæðið breyst?

Page 15: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 15

8. OPNA (BLS. 16–17)

LYKILATRIÐIViðskipti við útlönd með fisk – landhelgi – þorskastríð – ofveiði.

Umræður um inn- og útflutningHvað í kringum okkur hefur verið flutt inn? Hvað er íslenskt? Gott er að skrá niður þau atriði sem fram koma. Af hverju er talað um að það sé mikilvægt að kaupa íslenskt?

Viðtöl um þorskastríðAuðvelt er að finna fólk sem man eftir þorskastríðunum. Nemendur gætu fengið það verkefni að taka viðtal við foreldra, eða afa og ömmu um þessi átök. Nemendur skrifa hjá sér spurningar sem þeir ætla að spyrja. Hægt er að undirbúa nemendur fyrirfram með því að aðstoða við gerð spurninganna:

� Hvernig voru þorskastríð?

� Við hverja var „barist”?

� Hvers vegna urðu þessi stríð?

Hvað gæti gerst ef of mikið væri veitt?Þessari spurningu er varpað fram í nemendabókinni. Varað skal við að gera svarið einfalt, því það er það alls ekki. Vistkerfi hafsins er mjög flókið. Það felst þó í spurningunni að „of mikið” sé veitt og því hlýtur fiskunum að fækka. Hvað það hefur í för með sér getur verið erfitt að segja til um. Fækkun í einum stofni getur haft þau áhrif að í öðrum stofnum fjölgar eða fækkar. Áhrifin eru ekki endilega þau að fjölgi í þeim stofnum sem ofveiddi fiskurinn lifði á og fækki í þeim stofnum sem étur ofveidda fiskinn. Fleiri tegundir koma við sögu og getur það samspil verið býsna flókið.

AuðlindinHverjir eiga fiskinn í sjónum?

Hverjir eiga að njóta gróðans af fiskinum sem veiðist?

Sjá nánar umræðu í kaflanum um lýðræði og mannréttindi á bls. x

Page 16: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 16

9. OPNA (BLS. 18–19)

LYKILATRIÐIHöfn – hvað er það? – hvað er þar að finna?

Gönguferð niður á höfnNemendur taka litlar bækur með sér og skrá það sem fyrir augu ber. Að vettvangsferð lokinni geta nemend-ur samið ljóð eða texta um höfnina. (Ljóð t.d. í tengslum við skynjun. Ég sé, ég heyri, ég finn lykt af ...). Þegar texti og ljóð eru komin er nemendum skipað í hópa og þeir eiga að semja stutta leikþætti út frá ljóðunum og sögunum og setja á svið.7

Hafnir á Íslandi

10. OPNA (bls. 20–21)

LYKILATRIÐIGerðir skipa og báta – heiti skipshluta – nafngiftir – störf í sjávarútvegi – unninn fiskur.

Skipshlutar (Í handraðanum)

Allir eiga sín nöfn; bátar, skip og menn! (Á vettvangi)

Fiskisaga (Í handraðanum)

Fiskur (Í handraðanum)

Hvað heita fiskarnir? (Í handraðanum)

Færiband – myndverk um hafiðKennari spilar tónlist sem tengist hafinu eða sjávarhljóðum. Nemendur mála eftir tónlistinni/ hljóðunum óhlutbundið með ýmiss konar litum og áhöldum (vax-, krítar-, vatns-, klessu- og þekjulitir, penslar, svampur, rúllur ...). Uppsetning gæti verið á ýmsa vegu en hér eru tvær hugmyndir. Sú fyrri minnir vissulega á færi-bandavinnubrögð í fiskiðju!

1. Pappírsrenningur er settur undir og yfir borðaröð. Pappírsendar límdir saman undir borði.

Pappírsrenningurinn er færður úr stað nokkrum sinnum á eftirfarandi hátt: Tónlist leikin, flutningur stöðvaður, pappírsrenningurinn er færður úr stað og nemendur mála hver ofan í mynd annars. Hver nemandi heldur sínum stað.

Tónlist leikin ... og þannig koll af kolli.

2. Pappírsrenningur er settur á borðaröð.

Pappírsendarnir eru festir við borðendana með límleir og nemendur raða sér við borðaröðina.

Tónlist leikin, flutningur stöðvaður og nemendur færa sig eitt skref áfram. Nemendur mála ofan í mynd-flöt hver hjá öðrum. Tónlist leikin og þannig koll af kolli.

7 © 2005 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir

Page 17: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 17

Nemendur fá hver og einn hvítt blað og klippa út lítinn ramma. Þeir velja sér mynd og afmarka hana með blýanti og skrifa nafnið sitt í hornið. Þegar allir hafa valið sér mynd klippa þeir hana út og setja á karton. Nemendur gefa myndunum nafn. Þeir geta einnig samið texta við myndina eða ort ljóð.

Að lokum er haldin sýning. Tónlist leikin. Nemendur segja frá myndverkum sínum og lesa sögur sínar eða ljóð.8

Störf í sjávarútvegiHvaða störf tengjast sjónum? Hvað dettur nemendum í hug? Hugarflug, skráning. Nemendur velja sér starfsheiti og búa til dúkkulísu. Þeir gera sér grein fyrir persónunni og skrá upplýsingar um hana: nafn, ald-ur, starfsheiti, starfslýsingu, búsetu og fleira.9

Til að kynnast betur ólíkum störfum gætu nemendur fengið það verkefni að leita upplýsinga með því að taka viðtöl við fólk í mismunandi stéttum og spyrja það út í starfið.

11. OPNA ( BLS. 22–23)

LYKILATRIÐILíf í sjávarþorpi – sjómannadagurinn.

Lesum meira samanÍ bókinni Lesum meira saman eftir Iðunni Steinsdóttur eru nokkrir textar sem tengjast lífi við ströndina. Má þar nefna:

� Í fjörunni

� Veitt á bryggjunni

� Rauðmaginn, grásleppan og marglyttan (þjóðsaga)

� Fjöruferð

� Selshamurinn (þjóðsaga)

Með bókinni fylgir vinnubók eftir Ragnheiði Gestsdóttur og Ragnheiði Hermannsdóttur. Gott er að hafa opin augu fyrir tengingum sem þessum við annað námsefni sem nemendur vinna með.

Ljóð um sjómennskuKennari velur ljóð til að lesa með börnunum og ræða um. Þau gætu fengið það verkefni að myndskreyta ljóðið. Dæmi um ljóð: Þorpið eftir Jón úr Vör.

Eftirminnilegur sjómannadagurÍ stað þess að nota dagskrá sem sett er fram mætti skoða dagskrá Sjómannadagsins eins og hún var hjá nemendum síðastliðið sumar. Ef hún er ekki tiltæk getur nemendahópurinn ásamt kennara eflaust sett niður hefðbundna dagskrá í sameiningu.

8 © 2005 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir

9 © 2005 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir

Page 18: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 18

Á frívaktinni Áður fyrr var mikið um að gerð væru dægurlög um sjómennsku. Hátt hlutfall fólks starfaði við sjómennsku og fiskvinnslu. Ekki var laust við að yfir þessum störfum væri ævintýraljómi. Sérstakur óskalagaþáttur var vikulega á dagskrá útvarpsins sem nefndist á Frívaktinni og var einkum ætlaður sjómönnum þó að fleiri hefðu gaman af honum – og það kannski flestir!

Fiskverkun og sjómennska í myndlist (Á vettvangi) – Myndverkið getur verið stytta, málverk, grafíkverk, teikning eða ljósmynd.

12. OPNA (BLS. 24)

LYKILATRIÐIStraumar – Golfstraumurinn – hafið sem auðlind – mikilvægi góðrar umgengni.

Þegar komið er undir lok bókarinnar er rétt að líta aðeins til baka og fara yfir það sem nemendur hafa lært. Það festir betur í minni og veitir yfirsýn. Einnig væri við hæfi að velta fyrir sér lokasetningum bókarinnar og ræða umgengni. Hvað á höfundur við? Gaman væri að sýna fallega kvikmynd um hafið í lokin og ræða um að þar er margt að kanna og margs að gæta.

Myndir sem gætu komið til greina: Fylgst með þeim vaxa – Sjávardýr. 1992. Námsgagnastofnun.

og Neðansjávarmyndir. 2009. Námsgagnastofnun.

VETTVANGSFERÐIREðlilegt er að fara í vettvangsferðir í fjöru eða jafnvel út á sjó með börnum sem eru að læra um sjóinn. Fjar-an er aðgengileg allt árið. Þar verður ekki mikið frost og ekki mikill hiti. Þar er tiltölulega stöðugt ástand og því er þar alltaf líf.

Vettvangsferð út í náttúruna þarf að undirbúa vel. Aldrei verður það of vel brýnt að búa sig vel. Það er fátt ömurlega en að vera blautur og kaldur og truflar það allt annað sem fer fram í ferðinni ef upp kemur.

Hugmyndir um hvað má gera í fjöruferð með börnum sem eru að lesa og læra af námsefninu Komdu og skoðaðu hafið:

� Skoða mismunandi fjörur (fá nemendur til að bera saman).

� Leikir í fjöru – (að láta ölduna elta sig, að fleyta kerlingar, að búa til steinkarla og -kerlingar).

� Gera könnun á flóði og fjöru (hvert nær sjórinn á mismunandi tímum).

� Þrautakóngur þar sem kennari velur fjölbreytt undirlag (nemendur eiga að horfa sérstaklega niður fyrir tærnar á sér).

� Leit að dýrum þar sem dýrin eru skoðuð í réttu umhverfi en ekki tekin heim. Gott að skipta í hópa og setja mörk um hvert má fara. Kennari leiðbeinir um hvar sé vænlegt að leita (undir þangi og steinum, í skorum og í fjörupollum).

� Þang og þari: Hópar geta fengið það verkefni að safna sýnum af þörungum.

� Nemendur fá það verkefni að finna fimm til sex fyrirframgefnar lífverur í fjörunni. Kennari gæti sett þessar lífverur á spjald undir dúk sem er síðan vippað af eftir útlistun á verkefninu. Hópurinn skoðar fenginn saman.

Page 19: Komdu og skoðaðu - mms · til að rannsaka og jafnvel koma fyrir í sjóbúri. Sums staðar er hægt að fá að fara með nemendahópa í stuttar sjóferðir. Nokkrar hugmyndir

│ Komdu og skoðaðu │ Hafið │ Klb. │ © Sólrún Harðardóttir │ Námsgagnastofnun 2014 │ 9637 │ 19

� Nemendur fá það verkefni að finna eitthvað

a) mjúkt

b) hvasst

c) þurrt

d) rakt

e) gult

f) hart o.s.frv.

Allt sem finnst er skoðað saman og þá er hægt að útskýra hvað er hvað. Ekki er rétt að láta nemendur fá fleiri en þrjú atriði í einu. Verkefnið skerpir athygli nemenda.

� Nemendur fá það verkefni að búa til listaverk á plast – eða pappadisk úr því sem finnst í fjörunni. Á eftir er listasýning.

� Ef rusl er í fjörunni má velta fyrir sér hvaðan einstaka hlutir eru komnir.

� Rannsaka steina fjörunnar og skoða hvernig sjórinn hefur máð þá.

� Fuglar við ströndina skoðaðir. Hvernig líta þeir út? Er hægt að sjá sömu fugla í trjám, á grasflöt eða á tjörn? Hvað eru þeir að gera?

Nemendur velja sér lífveru (gróður eða dýr) í fjörunni. Þeir afla sér upplýsinga í fræðibókum og á netinu, skrá og teikna mynd af lífverunni. Einnig er hægt að móta lífveruna úr leir eða teikna og mála á tvöfaldan maskínupappír, klippa út og fylla með tróði eða dagblöðum og hefta helmingana saman. Hægt er að nota pípuhreinsara fyrir fætur og fálmara.