ÍsÍ fréttir - febrúar 2011

4

Click here to load reader

Upload: ibrotta-og-olympiusamband-islands

Post on 14-Mar-2016

219 views

Category:

Documents


0 download

DESCRIPTION

Fréttabréf Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

TRANSCRIPT

Page 1: ÍSÍ fréttir - Febrúar 2011

UPPBYGGING AFREKA

ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

FEBRÚAR 2. TBL. 2011

Það er býsna ánægjulegt að fylgjast með því hvernig íslenska þjóðin hefur hrifist með baráttu og árangri strákanna okkar í handknattleikslandsliðinu – enn einu sinni. Götur eru auðar á meðan útsendingar frá leikjum standa yfir, og samfélagið allt frá leikskólum til elliheimila er undirlagt.

En árangur í afreksíþróttum verður ekki til á einni viku. Medalíur falla ekki af himnum ofan. Um er að ræða langtímauppbyggingu sem byggir á skipulegu og heildstæðu kerfi frá grasrót til topps píramídans. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir mikilvægi hvors hluta píramídans fyrir hinn – efniviðurinn kemur úr grasrótinni en fyrirmyndirnar úr afrekunum. Þetta má ekki slíta í sundur.

Þegar afreksfólk okkar kemur heim með verðlaun af alþjóðlegum vettvangi í farteskinu fagnar þjóðin, og fulltrúar stjórnvalda standa þar jafnan fremstir í flokki. Því ber auðvitað að fagna – en á sama tíma höfum við hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands biðlað til stjórnvalda um að taka virkari þátt í að byggja upp þann árangur sem fagnað er. Annað er sagan um litlu gulu hænuna.

Nýlega úthlutaði ÍSÍ fjármunum til afreksmála. Þau framlög eru skammarlega lág, og tilfinning afsökunar er hið eina sem fylgir til íþróttafólksins

okkar, sem hefur fært svo miklar fórnir. Framlög ríkisvaldsins til uppbyggingar afreka í íþróttum eru í raun smánarleg. Árið 2003 var síðast gerður samningur við ráðuneytið upp á 30 milljónir króna, en sá samningur – óverðbættur – rann út í árslok 2008, rétt eftir að þjóðin hafði stigið niður af Arnarhóli eftir að hafa fagnað silfurdrengjunum okkar frá Peking, og rétt eftir efnahagshrun.

Framlög ríkisvaldsins – nú átta árum síðar – nema 24,7 milljónum á fjárlögum. Þrátt fyrir að veruleg fjölgun iðkenda hafi orðið, og nýjar íþróttagreinar og ný sérsambönd hafi litið dagsins ljós. Á sama tíma hefur íslenskt íþróttafólk náð einstæðum árangri á Evrópu- og heimsvísu í mörgum íþróttagreinum bæði karla og kvenna. Hættan er sú að menn líti á þetta sem sjálfbæran árangur. En svo er ekki, veruleg hætta er á að skerðing núverandi framlaga höggvi stór skörð í árangur komandi ára. En það er e.t.v.

ekki eðli stjórnmála að hafa áhyggjur af framtíðinni handan næstu kosninga.

Íslenskt íþróttafólk er í senn bestu og ódýrustu sendiherrar sem land og þjóð á völ á. Við eigum fjölda íþróttastjarna erlendis sem daglega eru áberandi í fjölmiðlum og bera hróður Íslands af stolti. Íslenska ríkið ber engan kostnað af þessu útbreiðslu- og landkynningarstarfi – og það sem verra er, hefur í raun ekki heldur borið kostnað af því að skapa viðunandi umgjörð til að afreksfólkið okkar nái þeim árangri sem raun ber vitni. Hversu margar tilvonandi íþróttahetjur á Íslandi

skyldu aldrei hafa komist á alþjóðlegan stall vegna skorts á fjárframlögum? Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni.

Ég hvet alla Íslendinga til að sameinast áfram í stuðningi við strákana okkar í Svíþjóð – sem og allt okkar afreksfólk á alþjóðavettvangi. Ég hvet alla kjörna fulltrúa stjórnvalda til þess að íhuga vel af hvaða einlægni við hyggjumst fagna næstu tímamótum afreka við heimkomu – og hversu stolt við ætlum að vera af því að hafa átt þátt í því að styðja við þann árangur.

Það geislar smitandi stolt og barátta af handknattleikslandsliðinu. Ef samfélag okkar sýnir sama stolt af því að koma fram fyrir hönd lands og þjóðar og strákarnir okkar í Svíþjóð – og berjast jafn ötullega fyrir árangri og úrslitum – þá þarf þessi þjóð engu að kvíða.

Áfram Ísland.

Ólafur E. Rafnsson,

forseti ÍSÍ

MEÐAL EFNIS:

Lífshlaupið 2011

Afreksstyrkir ÍSÍ 2011

Vetrarólympíuhátíð Evrópu-

æskunnar - Liberec 2011

Fjarnám ÍSÍ

SIDE-

ÓLYMPÍUFJÖLSKYLDA ÍSÍ

ÍÞRÓTTAÞING ÍSÍ

Íþróttaþing ÍSÍ 2011 fer fram 8.– 9. apríl nk.

Verður það haldið að Gullhömrum í Grafarholti í Reykjavík.

Sambandsaðilum hefur nú þegar verið sent fyrsta fundarboð með helstu upplýsingum um þingið, fjölda þingfulltrúa o.fl.

Page 2: ÍSÍ fréttir - Febrúar 2011

Lífshlaupið er fræðslu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands þar sem allir landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu í frítíma, heimilisstörfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.

Lífshlaupið er þríþætt. Á hverju ári í 3 vikur í febrúar fer fram, annarsvegar keppni milli vinnustaða og hinsvegar hvatningarleikur fyrir grunnskóla. Öllum vinnustöðum og grunnskólum er boðið að taka þátt og felst átakið í því að þátttakendur hreyfi sig samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um hreyfingu, en þar er börnum og unglingum ráðlaggt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur daglega og fullorðnum í a.m.k. 30 mínútur daglega. Þegar þessum ráðleggingum er náð geta þátttakendur skráð sína hreyfingu inná vef Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is og safnað dögum og mínútum fyrir sinn vinnustað/skóla. Í vinnustaðakeppninni er keppt í fjöldi daga og mínútna hlutfallslega miða við heildar fjölda starfsmanna og er vinnustöðunum skipt niður í flokka eftir starfsmannafjölda. Í hvatningarleik grunnskólanna er keppt í fjöldi daga hlutfallslega miða við

heildar fjölda nemenda í skólanum og er grunnskólunum einnig skipt niður í flokka eftir nemendafjölda. Í lok átaks fá svo 3 efstu vinnustaðirnir og 3 efstu grunnskólarnir í hverjum flokki og hverri keppnisgrein viðurkenningar fyrir árangurinn. Þriðji þáttur Lífshlaupsins er einstaklingskeppnin, en hún er í gangi allt árið og á hverju Lífshlaupsári gefst einstaklingum kostur á því að vinna sér inn brons-, silfur-, gull- og platínumerki Lífshlaupsins. Þeir sem taka þátt í einstaklingskeppninni geta samhliða

tekið þátt með sínu liði eða sínum bekk í vinnustaðakeppninni eða hvatningarleik grunnskólanna. Nýtt Lífshlaupsár hefst samhliða þriggja vikna átakinu í febrúar og hófst því nýtt Lífshlaupsár 2. febrúar síðastliðinn og stendur til 31. janúar 2012. Þeir sem skrá sig í einstaklingskeppnina og skrá reglulega inn sína hreyfingu geta fylgst

með sinni hreyfingu yfir allt árið þar sem hægt er að skoða tölfræði hreyfingarinnar inná vef Lífshlaupsins.

Í einstaklingskeppninni býðst þátttakendum einnig að halda persónulega dagbók á vefnum sem eingöngu er aðgengileg hverjum fyrir sig og nefnist dagbókin „Síðan mín―. Þar geta þátttakendur haldið matar- og svefndagbók, svarað spurningum um almenna heilsu, skráð inn upplýsingar um líkamsástand sitt einu sinni í viku og skráð niður allt það sem þeir vilja um daginn og veginn á hverjum degi.

Að þessu sinni fer Lífshlaupið fram í fjórða sinn dagana 2. – 22. febrúar og hafa nú þegar 415 vinnustaðir og 38 skólar skráð sig til leiks. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur þig og þína til þess að skrá sig til leiks og taka þátt í heilbrigðu og skemmtilegu átaki sem kætir bæði líkama og sál.

LÍFSHLAUPIÐ 2011

Lífshlaupið hófst formlega þann 2. febrúar með setningarathöfn í Víkurskóla í Grafarvogi Árný Inga Pálsdóttir, skólastjóri Víkurskóla bauð alla velkomna og þar á eftir ávörpuðu Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, Eva Einarsdóttir, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, Margrét Björnsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra gesti og kepptu í skemmtilegri þraut í anda Skólahreystis undir stjórn Andrésar Guðmundssonar. Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ veitti tveimur einstaklingum platínumerki Lífshlaupsins, þeim Hlöðveri Erni Vilhjálmssyni og Bjarna Kr. Grímssyni. Þeir ásamt tveimur öðrum tókst að vinna sér inn platínumerkið 3. janúar 2011 og höfðu því hreyfti sig daglega frá 3. febrúar 2010, eða samfleytt í 335 daga. Á meðfylgjandi mynd má sjá platínuhafana með viðurkenningar sínar ásamt Ólafi Rafnssyni.

Samstarfsaðilar ÍSÍ vegna Lífshlaupsins eru: velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Lýðheilsustöð, Skýrr, Rás 2 og Ávaxtabíllinn.

Hér sést hvernig hreyfingin birtist fyrir síðustu 7 daga. Græna lína sýnir ráðleggingar

Lýðheilsustöðvar. Einnig er hægt að skoða síðustu vikur, mánuði og svo hvert ár í heild sinni.

Kökuritið sýnir svo hversu mikill tími fer í hverja „hreyfingu―.

Page 3: ÍSÍ fréttir - Febrúar 2011

2. TBL. 2011

AFREKSSTYRKIR ÍSÍ 2011

Þann 19. janúar var tilkynnt úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fyrir árið 2011.

Líkt og á síðasta ári er aðeins einn íþróttamaður á A-styrk, Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari. Litlar breytingar eru á listum þeirra sem hljóta A, B og C styrki sjóðsins, en þó fjölgar þeim er hljóta hærri styrki sjóðsins. Alls eru 15 íþróttamenn á þeim styrkjum. 1 á A-styrk, 10 á B-styrk og 4 á C-styrk.

Sundsamband Íslands hlaut styrk vegna landsliðsfólks sem er á skólastyrkjum í Bandaríkjunum. Íslendingum á skólastyrkjum í Bandaríkjunum er ekki heimilt að vera á afreksstyrkjum frá ÍSÍ á meðan á skóladvöl stendur. Með þessu móti er Afrekssjóður að koma til móts við fjármögnun verkefna íþróttamanna eins og Hrafnhildar Lúthersdóttur, sem annars væri klárlega styrkþegi sjóðsins.

Þá er framlag til fagteymisþjónustu vegna styrkhafa aukið úr 1 m.kr. í 4 m.kr. á árinu 2011. Er ætlunin að vera með virkara eftirlit og aukna þjónustu til

styrkþega með það að leiðarljósi að fækka meiðslum og auka árangur á alþjóðlegum vettvangi.

Verkefni sambanda á árinu 2011 eru fjölmörg og fleiri en tekið var þátt í á síðasta ári. Áberandi er að sótt er um styrki fyrir fleiri íþróttamenn en á undanförnum árum, og gefur það til kynna að fjölmargir ætli sér að stefna að þátttöku á Ólympíuleikunum í London 2012.

Kostnaðaráætlanir þeirra 21 sérsambanda/séríþróttanefnda sem sóttu um styrk vegna íþróttamanna og verkefna til Afrekssjóðs ÍSÍ 2011 nema tæplega 366 m.kr. Framlag Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda kr. 46,040 m.kr. nemur um 15,65% af kostnaðaráætlun þeirra vegna þessara verkefna. Þess ber að geta að ekki er sótt um styrk vegna allra landsliðsverkefna sambanda.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2011 er 24,7 m.kr. Árið 2006 var styrkurinn 30 m.kr. og hafði sú upphæð verið óbreytt árin þar á undan. Flestir kostnaðarliðir sambandsaðila sem styrktir eru með fjármagni úr sjóðnum

er erlendur kostnaður. Verðgildi þess styrks hefur rýrnað mjög ef borin eru saman framlög síðustu ára. Þannig var framlag ríkisins árið 2006 í erlendum upphæðum um 480 þús. bandaríkjadalir eða tæplega 400 þús. evrur, en er 2011 sem nemur rúmlega 211 þús. bandaríkjadölum eða tæplega 157 þús. evrum. Ef framlagið til sjóðsins er borið saman við þróun vísitalna og gengis er ljóst að um verulega rýrnun á virði framlaga til sjóðsins er að ræða.

Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings.

Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu.

Upplýsingar um styrki til sérsamabnda úr sjóðunum, s.s. Nöfn styrkþega og upphæðir má finna á heimasíðu ÍSÍ www.isi.is

LIBEREC 2011

Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Liberec í Tékklandi dagana 12.– 19. febrúar nk.

Í fyrsta skipti mun Ísland senda keppanda til leiks í listhlaupi á skautum.

Heildarfjöldi íslenskra keppenda að þessu sinni er 11; 8 keppendur í alpagreinum skíðaíþrótta, 2 keppendur í skíðagöngu og einn keppandi í listhlaupi á skautum.

Þátttakendur eru eftirfarandi:

Alpagreinar:

Erla Ásgerisdóttir, Freydís Halla Einarsdóttir, Helga María Vilhjálmsdóttir, Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, Einar Kristinn Kristgeirsson, Jakob Helgi Bjarnason, Róbert Ingi Tómasson og

Sturla Snær Snorrason.

Skíðaganga:

Gunnar Birgisson og Sindri Freyr Kristinsson.

Listhlaup:

Heiðbjört Arney Höskuldsdóttir.

Aðalfararstjóri verður Friðrik Einarsson úr framkvæmdasjórn ÍSÍ, María Magnúsdóttir verður sjúkraþjálfari

hópsins og þau Daníel Jakobsson, Arnór Þorkell Gunnarsson og Svetlana Akhmerova eru þjálfarar.

FJARNÁM ÍSÍ

Fjarnámi ÍSÍ í þjálfaramenntun 1. og 2. stigs almenns hluta sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar var vel sótt á haustönn 2010. Um 20 þjálfarar luku námi á 1. stigi og um 40 þjálfarar á 2. stigi. Þjálfararnir eru búsettir mjög víða á landinu og koma úr fjölmörgum íþróttagreinum.

Fjarnám ÍSÍ verður aftur í boði á vorönn 2011 eins og áður og þá á báðum stigum. Auglýsingar þessa efnis verða m.a. birtar á isi.is.

Vinna við gerð námsefnis fyrir 3. stig stendur nú yfir og verður vonandi hægt að bjóða upp á það nám á haustönn 2011.

Allar upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur sviðsstjóri fræðslusviðs á [email protected] eða í síma 514-4000.

Page 4: ÍSÍ fréttir - Febrúar 2011

Íþróttamiðstöðinni í Laugardal

Engjavegi 6

104 Reykjavík

Sími: 514 4000

Fax: 514 4001

Netfang: [email protected]

ÍÞRÓTTA- OG

ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) varð til við sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands árið 1997.

ÍSÍ er landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda og er einu heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. ÍSÍ er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum.

Félagsaðildir í íþróttahreyfingunni eru rúmlega 200 þúsund og fjöldi virkra iðkenda er um 85 þúsund.

ALMENNINGSÍÞRÓTTAVIÐBURÐIR 2011

2.– 22. FEBRÚAR 4.– 24. MAÍ 4. JÚNÍ

STARFSSKÝRSLUSKIL Í FELIX

Sambandsaðilar eru minntir á að skila þarf starfsskýrslum til ÍSÍ vegna starfsársins 2010 fyrir 15. apríl nk.

Búið er að opna fyrir skilin á www.felix.is

Aðstoð er veitt á skrifstofu ÍSÍ vegna skila á starfsskýrslum.

Á heimasíðu ÍSÍ má finna frekari upplýsingar um viðburði ársins 2011,

Ólympíuleika, Lífshlaupið og fjölmargt annað um íþróttir á Íslandi.

www.isi.is

<< MYND MÁNAÐARINS

Vetrarólympíuleikarnir 1956 í Cortina D’Ampezzo á Ítalíu fóru fram dagana 26. janúar til 5. febrúar.

Jakobína V. Jakobsdóttir var fyrsta íslenska stúlkan sem tók þátt í vetrarleikum fyrir Íslands hönd. Keppti hún í stórsvigi, svigi og bruni.

AFMÆLISDAGAR

3. febrúar

ÍA— stofnað 1946, 65 ára

10. febrúar

ÍS— stofnað 1983, 28 ára

16. febrúar

STÍ— stofnað 1979, 32 ára

25. febrúar

SSÍ— stofnað 1951, 60 ára

28. febrúar

KAÍ— stofnað 1985, 26 ára

ÍSS—stofnað 1995, 16 ára

ALÞJÓÐLEGIR LEIKAR 2011

VETRARÓLYMPÍUHÁTÍÐ

12.– 19. FEBRÚAR

SMÁÞJÓÐALEIKAR

30. MAÍ – 4. JÚNÍ

ÓLYMPÍUHÁTÍÐ

24.– 29. JÚLÍ

ÍSÍ fréttir ● 2. tbl. 2011 ● Ábyrgðarmaður: Ólafur E. Rafnsson ● Ritstjóri: Andri Stefánsson ● Myndir: Úr safni ÍSÍ