bjarni Þorleifsson - skemman · 2018. 10. 15. · bjarni Þorleifsson . 4 Ágrip rannsóknir benda...

55
Tengsl hreyfingar og skjátíma við námsárangur unglinga á Íslandi Bjarni Þorleifsson Maí 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild

Upload: others

Post on 27-Jan-2021

0 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

  • Tengsl hreyfingar og skjátíma við

    námsárangur unglinga á Íslandi

    Bjarni Þorleifsson

    Maí 2017

    Lokaverkefni til M.Ed.-prófs

    Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild

  • Tengsl hreyfingar og skjátíma við námsárangur

    unglinga á Íslandi

    Bjarni Þorleifsson

    Lokaverkefni til M.Ed.-prófs í íþrótta- og heilsufræði

    Leiðbeinandi: Sigríður Lára Guðmundsdóttir

    Meðleiðbeinandi: Soffía M. Hrafnkelsdóttir

    Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild

    Menntavísindasvið Háskóla Íslands

    Júní 2017

  • Tengsl hreyfingar og skjátíma við námsárangur unglinga á Íslandi

    Ritgerð þessi er 30 eininga lokaverkefni til M.Ed.-prófs

    í íþrótta- og heilsufræði við íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild,

    Menntavísindasviði Háskóla Íslands

    © 2017, Bjarni Þorleifsson

    Lokaverkefni má ekki afrita né dreifa rafrænt nema með leyfi

    höfundar.

  • 3

    Formáli

    Þessi ritgerð er 30 ECTS eininga lokaverkefni í M.Ed. í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla

    Íslands. Gögn sem þessi ritgerð er unnin úr er úr rannsókninni Heilsuhegðun ungra

    Íslendinga sem fór fram árið 2015. Gagnasöfnunin fór fram áður en ég hóf störf við

    meistaraverkefnið en ég tók þátt í framhaldsrannsókn núna árið 2017 í rannsókninni

    Heilsuhegðun ungra Íslendinga. Það var skemmtilegt verkefni og veitti mér innsýn í

    hversu umfangsmiklar og stórar rannsóknir þetta eru sem hafa verið framkvæmdar með

    þessum þátttakendum sem gefa greinagóðar upplýsingar um lifnaðarhætti ungs fólks á

    Íslandi. Helsta ástæða þess að ég valdi þetta verkefni var áhugi minn á skjátíma. Það lá í

    augum uppi að bera það saman við hreyfingu þar sem hreyfing er eitt af mínum

    aðaláhugamálum. Sigga Lára stakk upp á að skoða þessar breytur í tengsl við

    námsárangur og hljómaði það nokkuð ágætlega í mínum eyrum. Helsta ástæða áhuga

    míns á skjátíma var persónuleg upplifun mín á skjátíma á unglingsárum. Þar varði ég

    sjálfur miklum tíma fyrir framan skjá og þegar ég hugsaði tilbaka þá hafði það áhrif á

    félagslega hæfni, sjálfsímynd, áhugamál og námsárangur á mínum unglingsárum. Ég vil

    þakka Sigríði Láru Guðmundsdóttir, Soffíu M. Hrafnkelsdóttir fyrir góða leiðsögn og Eddu

    kærustu og fjölskyldu fyrir þolinmæði og hvatningu í gegnum ferlið.

    Þetta lokaverkefni er samið af mér undirrituðum. Ég hef kynnt mér Vísindasiðareglur

    Háskóla Íslands. Ég hef gætt viðmiða um siðferði í rannsóknum og fyllstu ráðvendni í öflun

    og miðlun upplýsinga, og túlkun niðurstaðna. Ég vísa til alls efnis sem ég hef sótt til

    annarra eða fyrri eigin verka, hvort sem um er að ræða ábendingar, myndir, efni eða

    orðalag. Ég þakka öllum sem lagt hafa mér lið með einum eða öðrum hætti en ber sjálfur

    ábyrgð á því sem missagt kann að vera. Þetta staðfesti ég með undirskrift minni.

    Reykjavík, 6. maí 2017

    Bjarni Þorleifsson

  • 4

    Ágrip

    Rannsóknir benda til þess að skjátími yfir ráðlögðum viðmiðum og of lítil hreyfing geti

    haft neikvæð áhrif á námsárangur. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna tengsl milli

    skjátíma og ákafrar hreyfingar hjá 15 ára íslenskum unglingum og hvort þessir þættir

    tengjast námsárangri. Rannsóknin var megindleg þversniðsrannsókn þar sem notuð voru

    spurningalistagögn frá árinu 2015 fyrir 285 nemendur sem þá voru í 10. bekk grunnskóla

    og tóku þátt í rannsókninni Heilsuhegðun ungra Íslendinga og upplýsingar um

    frammistöðu þessara nemenda í samræmdum prófum í 10. bekk. Þátttakendum var skipt

    í tvo hópa m.t.t. tíðni ákafrar hreyfingar: ≥4 sinnum í viku og ˂4 sinnum í viku. Skjátíma

    var skipt í tvo flokka miðað við miðgildi úrtaksins: ˃ 5,5 klst. á dag og ≤5,5 klst. á dag. Þegar

    áhrif skjátíma og ákafrar hreyfingar var skoðuð saman er þátttakendum skipt í

    eftirfarandi fjóra hópa: Hópur 1 (áköf hreyfing ≥4 sinnum í viku og skjátími ≤5,5 klst. á

    dag), hópur 2 (áköf hreyfing ≥4 sinnum í viku og skjátími ˃5,5 klst. á dag), hópur 3 (áköf

    hreyfing ˂ 4 sinnum í viku og skjátími ≤5,5 klst. á dag) og hópur 4 (áköf hreyfing ˂ 4 sinnum

    í viku og skjátími ˃5,5 klst. á dag). Um 61% þátttakenda stunduðu ákafa hreyfingu ≥4

    sinnum í viku og 39% ˂ 4 sinnum í viku. Einstaklingar í hópum 2 og 4, þ.e. þeir sem sögðust

    vera við skjá ˃5,5 klst. á dag höfðu einkunnir undir meðaltali úrtaksins í þeim greinum

    samræmda prófa sem skoðaðar voru. Niðurstöður koma heim og saman við fyrri

    rannsóknir á tengslum við skjátíma, hreyfingu og námsárangur en þær hafa gefið til kynna

    að unglingar sem vörðu ˃2 klst. tíma við skjá séu líklegri til að sýna lakari frammistöðu í

    skóla. Forvarnir og fræðsla í gegnum smáforrit gætu verið leiðir til að ná til unglinga og

    upplýsa þá um hugsanlegar afleiðingar mikils skjátíma.

  • 5

    Abstract

    The relationship between physical activity and screen time with academic

    achievement among Icelandic adolescents

    Research shows that exceeded screen time and little physical activity can have negative

    effects on academic achievement. The aim of this study is to assess the potential

    association between screen time and moderate to vigorious physical activity (MVPA)

    for 15-years-old Icelandic adolescents and if those variables are related to academic

    achievement. The study is a quantitative cross-sectional study from 2015 where a

    questionnaire was used for 285 students that were in 10th grade in elementary school.

    The group is divided into two groups for MVPA: ≥4 times per week and ˂4 times per

    week. Screen time is divided into two groups by the median of the group: ˃5,5 hours

    per day and ≤5,5 hours per day. When the affect of screen time and MVPA is

    summarized, the sample is divided into four groups: Group 1 (MVPA ≥4 times per week

    and screen time ≤5,5 hours per day), group 2 (MVPA ≥4 times per week and screen

    time ˃5,5 hours per day), group 3 (MVPA ˂4 times per week and screen time ≤5,5 hours

    per day), group 4 (MVPA ˂4 times per week and screen time ˃5,5 hours per week).

    About 61% of the participants did MVPA ≥4 times per week and 39% did MVPA ˂4

    times per week. Participants in group 2 and 4 had academic achievement below

    average on national coordinated examinations. These findings are similiar to other

    research on screen time, MVPA and academic achievement, but they show that

    adolescents that exceed the recommended screen time are more likely to have lower

    academic achievement in school. Prevention and education through apps could be a

    good way to reach to adolescents and inform them about potential consequences of

    overexceeded screen time.

  • 6

    Efnisyfirlit

    Formáli ..................................................................................................................... 3

    Ágrip ......................................................................................................................... 4

    Abstract .................................................................................................................... 5

    Efnisyfirlit ................................................................................................................. 6

    Myndaskrá ................................................................................................................ 8

    Töfluskrá ................................................................................................................... 9

    1 Inngangur ..........................................................................................................10

    2 Fræðilegur bakgrunnur ......................................................................................11

    2.1 Hreyfing ................................................................................................................ 11

    Skilgreining ................................................................................................................ 11

    Alþjóðlegar ráðleggingar og hreyfing unglinga ......................................................... 12

    Mælingar á hreyfingu ................................................................................................ 13

    Mikilvægi hreyfingar fyrir unglinga ........................................................................... 16

    Hreyfing unglinga á Íslandi ........................................................................................ 18

    2.2 Skjátími ................................................................................................................. 19

    Skilgreining og mælingar ........................................................................................... 19

    Ráðleggingar um skjátíma ......................................................................................... 20

    Mikilvægi viðmiða/ráðlegginga skjátíma .................................................................. 20

    2.3 Námsárangur ........................................................................................................ 22

    Námsárangur í rannsóknum ...................................................................................... 23

    Námsárangur íslenskra unglinga – Samræmd könnunarpróf & PISA ....................... 23

    2.4 Tengsl milli hreyfingar, skjátíma og námsárangurs .............................................. 27

    Aðrir þættir ............................................................................................................... 28

    2.5 Markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar .................................................. 29

    3 Aðferð ...............................................................................................................30

    3.1 Þátttakendur ......................................................................................................... 30

    3.2 Gagnasöfnun og úrvinnsla .................................................................................... 30

    Úrvinnsla gagna ......................................................................................................... 32

    4 Niðurstöður .......................................................................................................34

    4.4 Samspil hreyfingar, skjátíma og námsárangurs ........................................................ 3

  • 7

    5 Umræða ............................................................................................................. 5

    Tengsl við aðrar rannsóknir............................................................................................ 3

    Styrkleikar og veikleikar ................................................................................................. 4

    Næstu skref .................................................................................................................... 4

    6 Lokaorð .............................................................................................................. 6

    Heimildaskrá ............................................................................................................. 7

  • 8

    Myndaskrá

    Mynd 1 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í íslensku .......................... 24

    Mynd 2 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í stærðfræði .................... 25

    Mynd 3 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í ensku ............................. 25

    Mynd 4 - Niðurstöður Íslands í þremur greinum í PISA könnuninni frá upphafi

    (Menntamálastofnun, 2017) ............................................................. 26

  • 9

    Töfluskrá

    Tafla 1 - dæmi um hreyfingu með tilliti til METs (Taflan miðar við 70kg

    mann) ................................................................................................. 12

    Tafla 2 - lýsandi tölfræði úrtaksins fyrir hvort kyn........................................... 34

    Tafla 3 - tengsl skjátíma við námsárangur ....................................................... 35

    Tafla 4 - tengsl hreyfingar við námsárangur .................................................... 35

    Tafla 5 - tengsl milli námsárangurs og hvort nemendur telja sig standa sig vel

    eða illa í námi ..................................................................................... 36

    Tafla 6 - tengsl námsárangurs og fjöldi stunda sem nemendur lærðu heima

    hjá sér ................................................................................................ 37

    Tafla 7 - fylgnitafla sem sýnir tengsl milli ýmissa breyta ................................... 3

    Tafla 8 - meðaltal einkunna á samræmdum könnunarprófum eftir hreyfingu

    og skjátíma ........................................................................................... 3

  • 10

    1 Inngangur

    Óregluleg hreyfing virðist geta haft neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan unglinga,

    þá má nefna þætti eins og líkamssamsetningu, þrek, hjarta- og æðakerfið, sjálfsímynd,

    félagslega hegðun og námsárangur (Mark S Tremblay o.fl., 2011). Tölur frá

    Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (e. World Health Organization, WHO) (World Health

    Organization, 2010) sýna að hreyfingarleysi sé orðinn fjórði stærsti þátturinn sem tengist

    alþjóðlegri dánartíðni. Um 6% af dauðsfalla vegna lífstílssjúkdóma má tengja við

    hreyfingarleysi. Samkvæmt Embætti Landlæknis er ráðlagt að unglingar hreyfi sig í 60

    mínútur á dag af meðal til mikillar ákefðar (Embætti landlæknis, 2015). Það er margt í

    umhverfinu okkar sem ýtir undir hreyfingaleysi. Það má meðal annars nefna tækniþróun,

    sem hefur gríðaleg áhrif á lifnaðarhætti okkar og er sagt að unglingar í dag hafi heiminn

    í höndum sér sökum upplýsingaflæðis í snjalltækjum þeirra.

    Aukinn skjátími virðist þó vera orðið vandamál (Janssen o.fl., 2005; Mark S Tremblay

    o.fl., 2011) og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lagt til ráðlagðan skjátíma. Þar mæla þeir

    með því að unglingar ættu ekki að verja meira en tveimur klukkustundum fyrir framan

    skjá (World Health Organization, 2010), og hefur Embætti Landlæknis tekið í sama streng

    hér á landi (Embætti landlæknis, 2015). Þeir sem verja yfir ráðlögðum skjátíma eru líklegri

    til að stunda óreglulega hreyfingu (Serrano-Sanchez o.fl., 2011), hafa hærri

    líkamsþyngdarstuðul og lakari námsárangur en þeir sem ná viðmiðum skjátíma, stunda

    reglulega hreyfingu og hafa eðlilegan líkamsþyngdarstuðul (Chomitz o.fl., 2008; Shore

    o.fl., 2008).

    Í þessari ritgerð verða gögn skoðuð úr rannsókninni Heilsuhegðun ungra Íslendinga

    þar sem skoðað verður hvort tengsl séu milli hreyfingar og skjátíma og áhrif þessara

    breyta á námsárangur á samræmdum könnunarprófum. Hreyfing og skjátími voru mæld

    með niðurstöðum úr spurningalista. Hreyfing hefur áður verið mæld hér á landi í

    tengslum við námsárangur og hafa niðurstöður gefið til kynna að með aukinni hreyfingu

    voru þeir unglingar sem hreyfðu sig meira, líklegri til að ná betri námsárangri en þeir

    unglingar sem stunduðulitla hreyfingu (Sigfúsdóttir, Kristjánsson og Allegrante, 2006).

    Ekki veit ritgerðarhöfundur til þess að skjátími hafi verið rannsakaður hér á landi og er

    spennandi að skoða hann með tilliti til námsárangurs þar sem margir skólar eru nú þegar

    byrjaðir á innleiðingu spjaldtölva og aðrir skólar að íhuga kosti þessara snjalltækja til

    náms.

  • 11

    2 Fræðilegur bakgrunnur

    2.1 Hreyfing

    Skilgreining

    Sú skilgreining sem notuð er um hreyfingu er „þegar einstaklingur notar

    beinagrindavöðva til að hreyfa sig og orkunotkun er umfram það sem hún er í hvíld“

    (Caspersen, Powell og Christenson, 1985) og fer orkunotkunin eftir ákefð, tegund og

    lengd hreyfingarinnar. Hreyfing getur því talist að fara út með hundinn eða á

    knattspyrnuæfingu. Margir þættir spila saman þegar meta á hreyfingu og það er

    mismunandi eftir rannsóknum hvaða aðferð er beitt. Oft er huglægri aðferð beitt þar sem

    notast er við spurningalista og einnig hafa rannsóknir stuðst við hlutlægar mælingar með

    því að nota til dæmis hreyfimæla. Hvort sem huglæg eða hlutlæg aðferð er notuð þá er

    mikilvægt að skilgreina og flokka hreyfingu. Algengt er að flokka hreyfingu eftir ákefð, en

    einnig hafa rannsakendur skipt henni upp eftir hreyfingu af ásettu ráði (að æfa/hreyfa

    sig) eða hreyfingu við athafnir daglegs lífs og eftir hreyfingu á virkum dögum eða um

    helgar (Caspersen o.fl., 1985).

    Ákefð hreyfingar er oft skilgreind útfrá orkunotkun (e. metabolic equivalents – hér eftir

    kallað METs). Eitt MET er skilgreint sem grunnorkuþörf í hvíld (3,5ml O2/kg/mín – sem

    væri um 1,2 kcal/mín fyrir 70kg manneskju), til dæmis þegar við sitjum á stól. Ef við

    stundum ákafari hreyfingu, til dæmis létt ganga (~4 METs) þá margföldum við 4 með 3,5

    ml og orkuþörfin væri þá 14ml O2/kg/mín (Jetté, Sidney og Blumchen, 1990). Út frá METs

    má skilgreina ákefð hreyfingar og Jetté og félagar (1990) leggja til eftirfarandi þrjú stig

    ákefðar:

    Létt ákefð (1-4 METs): Þegar viðkomandi reynir lítið sem ekkert á sig, líkamshiti

    eykst aðeins, svitamyndun er lítil, öndunin eykst örlítið. Létt ákefð hentar ekki

    heilbrigðum einstaklingum til að auka þol eða bæta hjarta- og æðakerfi.

    Meðal ákefð (5-8 METs): Svitamyndun er greinileg og öndun er farin að aukast.

    Áreynsla af meðal ákefð hentar kyrrsetufólki, sjúklingum og eldra fólki til þess að

    bæta þol og styrkja hjarta- og æðakerfi.

    Mikil ákefð (˃ 8 METs): Mikil svitamyndun, hröð og stutt öndun. Hentar fólki í

    góðu líkamlegu ásigkomulagi til að bæta þol og styrkja hjarta- og æðakerfi.

    (Jetté o.fl., 1990)

  • 12

    Tafla 1 - dæmi um hreyfingu með tilliti til METs (Taflan miðar við 70kg mann)

    Tegund hreyfingar - létt ákefð (1 - 4 METs) Fjöldi METs

    Kyrrseta í sófa / bíl 1,0

    Standa í biðröð 1,2

    Vökva garð með garðslöngu 1,5

    Sitja í kennslustofu að glósa 1,8

    Standa og leiðbeina umferð 2,0

    Ganga um og bera áburð á garðinn 2,5

    Spila keilu 3,0

    Bogfimi 3,5

    Ganga á 4,8 km/klst 4,0

    Tegund hreyfingar - meðal ákefð (5 - 8 METs)

    Hjólabretti 5,0

    Kylfuberi (golf) 5,5

    Synda (almennt) 6,0

    Ferma og afferma flutningabíl 6,5

    Tennis 7,0

    Smíðavinna (saga harðvið með handsög) 7,5

    Strandblak 8,0

    Tegund hreyfingar - mikil ákefð (˃ 8 METs)

    Grafa skurð með skóflu 8,5

    Hlaupa á 8,4 km/klst 9,0

    Róður í róðravél 9,5

    Bardagaíþróttir (Júdó, karate, tae kwon do) 10,0

    Hjóla á hjólatæki (200W) 10,5

    Hjóla á hjólatæki (250W) 12,5

    Hlaupa á 13,8 km/klst 14,0

    Hlaupa upp stiga 15,0

    Hraðakeppni á hjóli (˃ 32,3 km/klst) 16,0

    Hlaupa á 17,5 km/klst 18,0

    (Ainsworth o.fl., 1993)

    Alþjóðlegar ráðleggingar og hreyfing unglinga

    Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (World Health Organization, 2010) eiga

    unglingar að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur á dag af meðal til mikilli ákefð, það

    þarf þó ekki að vera í einni skorpu. Þetta á mest að vera loftháð þjálfun en hreyfing sem

    ýtir undir aukinn styrk og beinþéttni ætti þó að vera stunduð að minnsta kosti þrisvar í

    viku. Þessar ráðleggingar eru byggðar á þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á

    hreyfingu unglinga og heilsufari. Virðist hreyfing unglinga samkvæmt ráðleggingum geta

  • 13

    bætt hjarta- og æðakerfi, aukið styrk og bætt beinheilsu, stuðlað að bættum efnaskiptum

    og hugsanlega minnkað einkenni um þunglyndi og kvíða.

    Þáverandi Lýðheilsustöð (2008), nú Embætti landlæknis gaf út ráðleggingar um

    hreyfingu (Embætti landlæknis, 2015) sem eru byggðar á innlendum og erlendum

    rannsóknum, ásamt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og

    annarra landa í kringum okkur. Eins og í alþjóðlegu viðmiðunum er hér ráðlagt að

    unglingar ættu að hreyfa sig í 60 mínútur hið minnsta á dag og á það vera hreyfing með

    meðal til mikilli ákefð. Þessum tíma má skipta upp í stuttar lotur yfir daginn, um 10-15

    mínútur í senn. Flestar íslenskar og erlendar rannsóknir benda til þess að fæstir unglingar

    uppfylli þessi viðmið um hreyfingu og verji of miklum tíma í kyrrsetu, þó mismunandi

    aðferðafræði rannsókna torveldi samanburð niðurstaðna þeirra. Í rannsókn þar sem

    hreyfimælar voru notaðir kom í ljós að krakkar og unglingar eyddu allt að níu

    klukkustundum á dag í kyrrsetu (Mark S Tremblay o.fl., 2011).

    Mælingar á hreyfingu

    Alþjóðlegar ráðleggingar miðast við tíðni og ákefð hreyfingar. Í rannsóknum er því

    hreyfing oft mæld með þá þætti að leiðarljósi og er mismunandi hvort huglægar eða

    hlutlægar mælingar eru notaðar. Algengast er þó að nota huglægar mælingar þar sem

    það er oft þægilegri kostur þó svo að hlutlægar mælingar geti verið nákvæmari, báðar

    aðferðir gefa þó upp nokkuð góða mynd af hreyfingu þátttakenda.

    Huglægar mælingar

    Spurningakönnun virðist algengasta aðferðin þegar meta á hreyfingu. Kostir þessarar

    aðferðar eru að hún er tiltölulega auðveld í framkvæmd, tekur stuttan tíma, kostar lítið

    og úrvinnslan nokkuð þægileg. Gallar þessarar mæliaðferðar eru þeir að huglægar

    mælingar eru ekki jafn áreiðanlegar og hlutlægar mælingar. Niðurstöður úr

    spurningalistum gefa upp ákveðna mynd af lífstíl einstaklinga en eru ekki mjög nákvæmur

    mælikvarði. Þegar borinn er fram spurningalisti þarf að útskýra og skilgreina vel fyrir

    þátttakendum hvað hreyfing er, og hvað er átt við með lítilli, meðal eða mikilli ákefð.

    Þetta er sjálfsmat og vilja þátttakendur stundum ekki líta „illa“ út í rannsóknum og geta

    því fegrað niðurstöður eða svarað eftir því sem þeir halda að rannsakendur vilji sjá

    (Kopcakova o.fl., 2017; Lacy o.fl., 2011).

    Flokkun hreyfingar eftir huglægum mælingum er mismunandi. Í rannsókn

    Eiðsdóttur og félaga (2008) var þátttakendum skipt í fjóra hópa, þeir sem hreyfðu sig

    reglulega af mikilli ákefð (≥4 sinnum í viku) og þeir sem stunduðu óreglulega hreyfingu af

  • 14

    mikilli ákefð (˂1 sinnum í viku), þar var markmiðið að skoða muninn milli þessara hópa

    og voru þátttakendur sem hreyfðu sig af meðal ákefð ekki teknir með. Hinir tveir hóparnir

    voru til að kanna þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi, annar hópurinn flokkaðist sem virkur

    þátttakandi (sá sem æfði ≥4 sinnum í viku með íþróttafélagi) og hinn sem óvirkur

    þátttakandi (sá sem æfði ˂1 sinnum í viku með íþróttafélagi). Kopcakova og félagar

    (2017) miðuðu við ráðleggingar WHO þar sem þátttakendum var skipt í tvo hópa, þá sem

    hreyfðu sig af mikilli ákefð í að minnsta kosti 60 mínútur á dag – alla daga vikunnar og þá

    sem náðu ekki settum ráðleggingum. Aðrar rannsóknir tóku aðeins tillit til virkra daga,

    þar var þátttakendum er skipt í tvo flokka; Hvort þátttakendur hreyfðu sig reglulega alla

    virka daga og tóku þátt í leikjum í að minnsta kosti einum frímínútum og/eða sóttu í

    skipulagt íþróttastarf eftir skóla og í hinum hópnum voru þeir sem hreyfðu sig ekki

    daglega virka daga og tóku ekki þátt í leikjum í frímínútum og/eða sóttu skipulagt

    íþróttastarf, þarna skipti ákefð ekki máli (Lacy o.fl., 2011). Aðrar nálganir hafa verið

    notaðar, til dæmis í rannsókn Chomitz og félaga (2008) þar sem þátttakendur tóku þrek

    og liðleikapróf. Þátttakendum var skipt í þrjá flokka, „þátttakendur“ (þeir sem tóku þátt

    en náðu ekki prófunum), „lokið“ (þeir sem náðu prófunum) og „framúrskarandi“ (þeir

    sem sköruðu framúr í prófunum), þarna skipti ákefð einnig ekki máli.

    Hlutlægar mælingar

    Í hlutlægum mælingum eru tæki og tól á borð við hreyfimæla, skrefamæla, púlsmæla o.fl.

    notaðir til mælinga. Kostir þessara mæliaðferða eru háðir viðkomandi mælitækjum. Með

    sumum þessara tækja er hægt að greina ákefð hreyfingar. Yfir heildina litið virðast þau

    nákvæmari í að meta hreyfingu og kyrrsetu miðað við huglægar mælingar. Skrefamælar

    eru dæmi um hlutlægt mælitæki, þá má nálgast á auðveldan hátt í gegnum snjallsíma.

    Þessir mælar sýna fjölda skrefa sem gefur upplýsingar um magn hreyfingar, þó ekki með

    tilliti til ákefðar. Með auknum fjölda tegunda slíkra mæla eykst þörf á rannsóknum sem

    sannreyna gildi þeirra og slíkum birtingum hefur fjölgað á undanförnum árum (Major og

    Alford, 2016; Smith, Egercic, Bramble og Secich, 2017). Hreyfimælar (e. accelerometer)

    hafa sýnt góðan áreiðanleika og réttmæti þegar meta á hreyfingu meðal barna, hvort

    sem þeir voru settir á mjöðm eða ökkla (Puyau, Adolph, Vohra og Butte, 2002). Hlutlæg

    mælitæki eru oft dýr og það tekur yfirleitt nokkra daga að fá heildarmynd af daglegri

    hreyfingu einstaklingsins.

    Samkvæmt yfirlitsgrein frá 2011 (Mark S Tremblay o.fl., 2011) notuðu einungis 14 af 232

    rannsóknum hreyfimæla í stað spurningalista til að meta hreyfingu og töldu höfundar

    brýna þörf á því í framtíðinni að fleiri rannsakendur noti hreyfimæla til að fá nákvæmari

    mælingu á kyrrsetu en hægt var að fá með spurningalistum. Gögn sem safnað er með

  • 15

    hlutlægum mælitækjum koma yfirleitt fram sem samfelldar breytur svo sem slög á

    mínútu, skref á dag. Þó telja ýmsir rannsakendur eftirsóknarvert að skipta þessum

    niðurstöðum upp í flokka. Sem dæmi hafa skrefamælar verið notaðir í rannsóknum til að

    meta daglega hreyfingu og viðmið rannsakenda um hvort þátttakendur náði ráðlagri

    daglegri hreyfingu verið um 10.000 skref á dag (Choi, Pak, Choi og Choi, 2007). Árið 2012

    fór fram kanadísk rannsókn þar sem skref voru flokkuð eftir ákefð með tilliti til ráðlagðrar

    daglegrar hreyfingar hjá unglingum. Rannsakendur notuðu hröðunarmæla með

    skrefamælum til að tengja ákefð daglegrar hreyfingar unglinga við skrefafjölda (Colley,

    Janseen og Tremblay, 2012). Fyrir börn og unglinga (6-19 ára) komust Colley og félagar

    (2012) að því að 12.000 skref á dag væri nokkuð nálægt 60 mínútna hreyfingu af meðal

    til mikillar ákefðar á dag og mældu með 12.000 skrefum til að uppfylla alþjóðleg viðmið

    hreyfingar fyrir unglinga. Rannsakendur hafa þó stuðst við 10.000 – 12.000 skref í

    gegnum tíðina sem viðmið til að viðhalda heilsu og fyrir kyrrsetufólk er þetta góð leið að

    heilsufarstengdu markmiði og skref í átt að bættum lífstíl (Choi o.fl., 2007; Tudor-Locke

    o.fl., 2011).

    Eftir bestu vitund höfundar hefur aðeins verið birt ein grein þar sem skrefafjöldi

    hefur verið borinn saman við ákefð hreyfingar unglinga en í henni (LeBlanc og Janssen,

    2010) var stuðst við flokkun Treuth og félaga (2004) þó svo að þátttakendur hafi einungis

    verið unglingsstelpur. Flokkun hreyfingar hjá unglingsstelpum í gegnum hreyfimæla fólst

    í því að miða við fjölda slaga/mínútu:

    Kyrrseta ≤100 slög/mínútu

    Létt ákefð 101 - 2.999 slög/mínútu

    Meðal ákefð 3.000 - 5.200 slög/mínútu

    Mikil ákefð ˃5.200 slög/mínútu

    (Treuth o.fl., 2004)

    Rannsóknir hafa notað svipaða flokkun á ákefð hreyfingar mældri með hreyfimælum fyrir

    bæði kyn og er algengt að neðri mörk meðal ákefðar sé metin um 3.000 – 3.600

    slög/mínútu á dag (Kristján Þór Magnússon, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Þórarinn

    Sveinsson og Erlingur Jóhannsson, 2011; LeBlanc og Janssen, 2010; Puyau o.fl., 2002;

    Treuth o.fl., 2004). Það virðist þó vera munur á fjölda slaga á mínútu milli gerðar

    hreyfimæla og hvar hann er staðsettur, á mitti, úlnlið eða á ökkla (Puyau o.fl., 2002).

  • 16

    Huglægar mælingar og hlutlægar mælingar

    Eins og fram kemur hér fyrir framan fást ólíkar niðurstöður með huglægum og hlutlægum

    mæliaðferðum á hreyfingu. Hvorar um sig hafa kosti og galla og því hefur báðum

    tegundum aðferða stundum verið beitt samtímis, bæði til að auka næmni rannsókna en

    einnig til að bera saman ólík mælitæki. LeBlanc og Janssen (LeBlanc og Janssen, 2010)

    skoðuðu muninn á mælingu hreyfingar hjá þátttakendum sem voru 12 – 19 ára.

    Rannsakendur notuðu hreyfimæla á mjöðm og svöruðu þátttakendur einnig

    spurningalista. Þátttakendur voru með hreyfimæli á sér í sjö daga á meðan þeir voru

    vakandi og áttu að taka hann af sér ef þau ætluðu að stunda vatnaíþróttir eða fara í

    sturtu/bað. Aðeins þeir mælar sem sýndu gögn í að minnsta kosti fjóra daga, þar af einn

    helgardag, voru með í tölfræðiúrvinnslu. Spurt var um hreyfingu sem þátttakendur höfðu

    stundað síðastliðna 30 daga, allt frá hreyfingu í frímínútum, hádegishléi eða í gegnum

    samgöngur. Einnig var spurt um tíðni hreyfinga, lengd og ákefð. Til að koma í veg fyrir

    misvægi var hreyfing í vatni tekin út úr spurningalista. Einungis 3,2% þátttakenda náðu

    viðmiðum WHO, um 60 mínútur af hreyfingu daglega af meðal til mikillar ákefðar

    samkvæmt hreyfimæli. Samkvæmt sjálfsmati þátttakenda náðu 37,9% að uppfylla

    viðmiðin. Þátttakendur sem hreyfðu sig hvað minnst ofmátu sjálfa sig tölfræðilega meira

    en þeir sem hreyfðu sig meira. Ekki fannst marktækur munur milli kynja þegar kom að

    hreyfingu milli hreyfimæla eða sjálfsmats. Af ofangreindu má sjá að mikil fjölbreytni

    einkennir aðferðafræði rannsókna á hreyfingu og því mikil áskorun að bera saman

    niðurstöður og öðlast góða heildarmynd af áhrifum hennar.

    Mikilvægi hreyfingar fyrir unglinga

    Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á heilsufarslegum áhrifum hreyfingar meðal

    ungmenna. Í samantektargrein Strong og félaga (Strong o.fl., 2005) þar sem flestar

    rannsóknirnar voru íhlutunarrannsóknir hreyfðu ungmenni sig með meðal eða mikilli

    ákefð þrisvar til fimm sinnum í viku í um 30-45 mínútur í senn. Niðurstöður sýndu að þeir

    sem voru kyrrsetufólk og stunduðu ekki reglulega hreyfingu fyrir íhlutun voru líklegri til

    að vera offeitir, voru líklegri til að vera með sykursýki af týpu tvö og efnaskiptavillu (þó

    fáar rannsóknir hafi metið efnaskiptavillu hjá ungmennum). Regluleg hreyfing sýndi veik

    jákvæð tengsl við styrk eðlisþungs fitupróteins (e. High Density Lipoprotein, HDL) og

    þríglýseríða í blóði en lítil tengsl við styrks eðlislétts fitupróteins (e. Low Density

    Lipoprotein, LDL). Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að í daglegu lífi þar sem

    unglingar hreyfðu sig án eftirfylgni eða umsjónar, þurftu þeir líklega að stunda hreyfingu

    í um 60 mínútur daglega með meðal eða mikillar ákefð til þess að ná svipuðum áhrifum

  • 17

    á lífeðlisfræðilega þætti og þeir sem fengu íhlutun í hreyfingu. Ungmennin þurfa þá að

    stunda hreyfingu sem þau hafa gaman af og er fjölbreytt (Strong o.fl., 2005).

    Einn þeirra þátta sem eykst við reglulega hreyfingu er beinþéttni sem nær

    hámarki um tvítugt. Það er því mikilvægt fyrir unglinga sem vilja stuðla að meiri

    beinþéttni að stunda reglulega hreyfingu, sérstaklega æfingar þar sem beinin verða fyrir

    áreiti (högg/þyngdar æfingar, e. high-impact) og ná þannig að styrkjast (Kenney, Wilmore

    og Costill, 2012). Beinþéttnin sem myndast á unglingsárum fylgir einstaklingum fram á

    fullorðins ár og geta einstaklingar viðhaldið beinþéttninni og minnkað rýrnun

    beinþéttninnar töluvert með reglulegri hreyfingu (Kenney o.fl., 2012; Strong o.fl., 2005).

    Líkamssamsetning unglinga breytist einnig við hreyfingu, bæði með loftfirrtri og loftháðri

    þjálfun, fitumassi minnkar og vöðvamassi eykst, sérstaklega hjá strákum þar sem

    testósterone magnið hækkar töluvert hjá þeim á kynþroskaskeiðinu (Kenney o.fl., 2012)

    og ýtir undir aukna vöðvavefsmyndun. Þeir unglingar sem stunda litla sem enga hreyfingu

    sýna frekar merki um kvíða- og þunglyndi, eru líklegri til að vera of feitir, þróa með sér

    lífstílssjúkdóma og sýna einnig lakari námsárangur en þeir unglingar sem stunda

    reglulega hreyfingu (Strong o.fl., 2005; Mark S Tremblay o.fl., 2011).

    Í rannsókn frá 2011 (Lacy o.fl., 2011) voru lífsgæði unglinga könnuð með

    spurningalista sem innihélt spurningar tengdar líkamlegum, andlegum, félagslegum og

    skólatengdum þáttum. Þeir unglingar sem stunduðu reglulega hreyfingu í skólaviku

    skoruðu marktækt hærra á lífsgæðaskalanum en þeir sem hreyfðu sig ekki reglulega. Var

    þá hreyfing í frímínútum eða hádegishléi og þátttaka í skipulagðri hreyfingu alla virka

    daga eftir skóla metin sem regluleg hreyfing. Þeir sem voru ekki líkamlega virkir, sátu eða

    gengu um í frímínútum/hádegishléi eða tóku þátt í skipulagðri hreyfingu fjórum sinnum

    eða sjaldnar eftir skóla í skólaviku voru metnir sem svo að þeir stunduðu ekki reglulega

    hreyfingu. Hreyfing um helgi eða íþróttakennsla í skóla var ekki tekin með í þessari

    rannsókn (Lacy o.fl., 2011).

    Hreyfing er einnig mikilvæg fyrir andlega þætti og þau jákvæði áhrif virðast stuðla

    að bættum námsárangri. Aukin íþróttakennsla í námskrá, jafnvel hreyfing í gegnum

    tölvuleiki (Staiano og Calvert, 2011), hefur jákvæð áhrif á hegðun í kennslustofu,

    einbeitingu og minni nemenda og frammistöðu þeirra í bóklegu námi (Strong o.fl., 2005).

    Það virðist einnig hjálpa til að taka 10 mínútna hlé frá bókunum í kennslustofunni og

    hreyfa sig af mikilli ákefð í þessar 10 mínútur því það ýtir undir aukna einbeitingu og

    athygli (Budde, Voelcker-Rehage, PietraByk-Kendziorra, Ribeiro og Tidow, 2008). Í

    yfirlitsgrein Rasberry og félaga (2011) voru tengsl hreyfingar við andlega þætti á borð við

    vitsmunalega færni, viðhorf og hegðun innan kennslustofunnar skoðuð. Þegar tengsl

  • 18

    þessara þátta voru skoðuð kom í ljós að í um helmingi rannsókna fundust marktæk

    jákvæð tengsl hreyfingar við andlega þætti sem stuðlaði að bættum námsárangri, sumar

    rannsóknir sýndu veik jákvæð tengsl eða engin tengsl en aðeins um 1,5% greinana sýndu

    neikvæð tengsl við námsárangur (Rasberry o.fl., 2011). Rannsóknir sýna því fram á það

    að hreyfing á unglingsárum er gott veganesti fyrir fullorðinsár. Þeir sem stunda reglulega

    hreyfingu á æskuárum eru líklegri til að halda áfram að stunda reglulega hreyfingu á

    fullorðinsárum, sterkari tengsl eru þó hjá körlum en konum (Telama o.fl., 2005).

    Hreyfing unglinga á Íslandi

    Hreyfing unglinga á Íslandi hefur reglulega verið mæld (Eiðsdóttir, Kristjánsson,

    Sigfúsdóttir og Allegrante, 2008). Eiðsdóttir og félagar (2008) tóku saman niðurstöður úr

    þversniðsrannsóknunum „Youth in Iceland“ þar sem gagnasöfnun fór fram árin 1992,

    1997, 2000 og 2006 til að athuga hreyfingu og þátttöku unglinga í íþróttastarfi.

    Gagnasöfnunin fór fram með spurningalistum. Árið 1992 stunduðu 39% 14 til 15 ára

    unglingar reglulega hreyfingu með mikilli ákefð fjórum sinnum eða oftar á viku svo að

    þau svitnuðu eða mæddust verulega. Frá 1997 til 2006 stunduðu um 45% unglinga

    hreyfingu með mikilli ákefð, fjórum sinnum eða oftar á viku, og á þessum árum hafði

    myndast nokkur stöðugleiki í hreyfingu unglinga á Íslandi. Þeim sem stunduðu óreglulega

    hreyfingu eða hreyfðu sig einu sinni eða sjaldnar af mikilli ákefð í viku, fjölgaði á milli ára

    (1997 til 2006) og voru um 23% unglinga árið 2006 (Eiðsdóttir o.fl., 2008).

    Ef litið er til rannsóknar þar sem hreyfing var mæld með hreyfimæli á mjöðm, hjá

    15 ára unglingum á Íslandi á árunum 2003-2004, kom í ljós að einungis um 9% unglinga

    hreyfðu sig að meðaltali með meðal eða mikilli ákefð í 60 mínútur eða lengur á dag

    (Kristján Þór Magnússon o.fl., 2011). Unglingar á aldrinum 14 til 15 ára sem sóttu

    hreyfingu í gegnum íþróttafélag fjölgaði frá árunum 1992 til 2006. Árið 1992 stunduðu

    um 17% unglinga skipulagða hreyfingu og fjölgaði þátttakendum jafnt og þétt til ársins

    2006 þegar þeir voru orðnir rúm 31% (Eiðsdóttir o.fl., 2008). Í niðurstöðum hjá

    Magnússon og félögum kom einnig í ljós að flestar stelpur (um 46%) hreyfðu sig í um 15-

    30 mínútur af meðal eða mikilli ákefðar á dag en flestir strákarnir (um 34%) hreyfðu sig í

    30-45 mínútur á dag með sömu ákefð. Svipaðar niðurstöður má sjá hjá Eiðsdóttir og

    félögum (2008), þar sem strákarnir hreyfðu sig töluvert meira en stelpur af meðal til

    mikillar ákefðar á dag. Árin 1992-2006 hreyfðu um 52% stráka sig af mikilli ákefð fjórum

    sinnum eða oftar á viku á meðan um 36% stelpna hreyfðu sig af sömu ákefð fjórum

  • 19

    sinnum eða oftar á viku og sjá má svipað mynstur ef horft var á mun milli kynja sem taka

    þátt í skipulögðu íþróttastarfi (Eiðsdóttir o.fl., 2008).

    Flestir unglingar á Íslandi virðast því ekki ná að uppfylla viðmið Embættis

    Landlæknis (2008) um hreyfingu (Eiðsdóttir o.fl., 2008; Kristján Þór Magnússon o.fl.,

    2011), þar sem kveðið er á um að unglingar ættu að hreyfa sig í 60 mínútur á dag með

    meðal til mikilli ákefð (Embætti landlæknis, 2015). Ef litið til annarra Evrópulanda

    (Janssen o.fl., 2005; Kopcakova o.fl., 2017), má sjá svipað mynstur víða, að fæstir

    unglingar ná að uppfylla viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (World Health

    Organization, 2010). Það virðist einnig vera algengara að strákar hreyfi sig með meiri

    ákefð á dag en stelpur (Eiðsdóttir o.fl., 2008; Kopcakova o.fl., 2017; Kristján Þór

    Magnússon o.fl., 2011; Lacy o.fl., 2011; Serrano-Sanchez o.fl., 2011).

    2.2 Skjátími

    Skilgreining og mælingar

    Við lifum á sannkallaðri tækniöld þar sem flestir geta haft samskipti sín á milli óháð því

    hvar þeir eru staddir í heiminum. Í dag verjum við töluvert meiri tíma fyrir framan skjá en

    við gerðum áður fyrr, þá oft vegna vinnu, skóla eða afþreyingar, án þess að afleiðingar

    þess séu ljósar og er því mikilvægt að rannsaka skjátíma og áhrif hans á líf okkar. Í

    rannsóknum er skjátími oft skilgreindur sem sá tími sem þátttakendur verja fyrir framan

    skjá í frítíma sínum. Rannsakendur nota mismunandi aðferðir til að meta skjátíma, sumar

    rannsóknir taka meðaltal skjátíma yfir daginn (Lacy o.fl., 2011; Serrano-Sanchez o.fl.,

    2011) á meðan aðrar rannsóknir leggja saman þá þætti sem teljast til skjátíma

    (Kopcakova o.fl., 2017). Þeir þættir sem telja má til skjátíma er tími sem fer í að horfa á

    sjónvarp og notkun á tölvu, leikjatölvu eða snjallsíma.

    Mæling skjátíma er flókin og er skjátíminn oft mældur með spurningalistum sem

    hefur sína kosti og galla, þar sem það er huglægur mælikvarði. Sjálfsmat getur ýtt undir

    það að einstaklingurinn skrái þær niðurstöður sem hann heldur að rannsakandinn leiti

    eftir eða vilji þóknast umhverfinu (Kopcakova o.fl., 2017; Lacy o.fl., 2011). Auk þess virðist

    fólk oft gleyma sér við tölvunotkun. Tremblay og félagar (Mark S Tremblay o.fl., 2011)

    benda á í yfirlitsgrein sinni að í framtíðinni ætti að gera rannsóknir þar sem skjátími

    verður rannsakaður betur með beinni athugun.

  • 20

    Ráðleggingar um skjátíma

    Samkvæmt ráðleggingum frá þáverandi Lýðheilsustöð árið 2008, nú Embætti landlæknis

    (Embætti landlæknis, 2015) ætti skjátími ekki að vara lengur en tvær klukkustundir á dag.

    Þessar ráðleggingar eru byggðar á kanadískum viðmiðum Tremblay og félaga (Mark S.

    Tremblay o.fl., 2011). Kanadískir vísindamenn og aðrir hagsmunaaðilar komust að þessari

    niðurstöðu eftir að hafa tekið saman rannsóknarniðurstöður og birt í yfirlitsgrein (Mark

    S Tremblay o.fl., 2011) tengdri kyrrsetuhegðun barna og unglinga. Tekið er fram að þessar

    tvær klukkustundir miðast við skjátíma í afþreyingu. Ástralska heilbrigðisstofnunin hefur

    sömu viðmið, þar sem ekki er ráðlagt að verja meira en tveimur klukkustundum á dag í

    skjátíma. Jafnfram er tekið fram að 9 af hverjum 10 áströlskum unglingum ná ekki settum

    viðmiðum hreyfingar (Australian Government, 2014).

    Sumar þjóðir taka aðra stefnu í þessum málum eins og til dæmis Bretland. Þar

    hafa engin tímasett viðmið verið sett varðandi skjátíma heldur nefna bresk

    heilbrigðisyfirvöld að börn og unglingar ættu að hafa kyrrsetu í lágmarki og minnka ætti

    skjátíma eins og unnt er, auk þess telja bresk heilbrigðisyfirvöld mikilvægt að brjóta upp

    kyrrsetu til dæmis með stuttum göngutúr (Chief Medical Office, 2011). Bandaríski

    Barnalækningaháskólinn (American Academy of Pediatrics) er með enn eina stefnuna þar

    sem þeir mæla með að foreldrar fylli út spurningalista

    (https://www.healthychildren.org/English/media/Pages/default.aspx#planview) á

    vefsíðunni hjá þeim og geti þannig reiknað út ráðlagðann skjátíma fyrir hvern og einn

    einstakling. Bandaríski Barnalækningaháskólinn nefnir einnig reglur sem má nota sem

    forvörn mikils skjátíma, eins og að unglingar sofi ekki með snjalltæki í herberginu sínu,

    hafa snjalltækjafría tíma og má þar nefna til dæmis að kvöldmatartíminn verði

    snjalltækjafrír tími til að njóta fjölskyldusamverunnar (Pediatrics, 2016).

    Mikilvægi viðmiða/ráðlegginga skjátíma

    Í nokkuð nýlegri yfirlitsgrein Janssen og félaga (2005) varði að minnsta kosti einn þriðji

    unglinga í Evrópu meira en ráðlögðum tíma fyrir framan skjá á dag (Janssen o.fl., 2005). Í

    nýrri evrópskri yfirlitsgrein frá Kopvakova og félögum (2017), kom fram að aðeins 16,8%

    unglinga uppfylltu alþjóðlegar ráðleggingar varðandi skjátíma. Aukinn skjátími virðist

    haldast í hendur við minni hreyfingu á virkum dögum. Marktækur munur hefur mælst á

    milli hópa eftir ákefð hreyfingar og skjátíma. Unglingar sem hreyfa sig mikið virtust líklegri

    til að vera undir viðmiðum í skjátíma en sá hópur sem hreyfði sig minna var líklegri til að

    vera yfir viðmiðum í skjátíma (Lacy o.fl., 2011; Serrano-Sanchez o.fl., 2011; Mark S.

    https://www.healthychildren.org/English/media/Pages/default.aspx#planview

  • 21

    Tremblay o.fl., 2011). Í yfirlitsgrein Tremblay og félaga sýndu átta af tólf

    þversniðsrannsóknum að þeir sem voru yfir viðmiðum hvað varðar skjátíma höfðu minni

    súrefnisupptöku (VO2max) og þolið þeirra var minna, en hjá þeim sem uppfylltu

    viðmiðum skjátíma (Mark S Tremblay o.fl., 2011). Einnig bentu niðurstöður til þess að

    þeir sem voru yfir viðmiðum í skjátíma höfðu minna sjálfsálit, auk þess sem þeir virtust

    kvíðnari og höfðu meiri einkenni um þunglyndi. Aukin árásagirni eða neikvæð hegðun

    virtust einnig tengjast auknum skjátíma á meðan þeir sem voru undir viðmiðum um

    skjátíma virtust í betra andlegu jafnvægi, voru hugmyndaríkari og höfðu meiri

    sjálfsstjórn.

    Í langtímarannsókn (Johnson, Cohen, Kasen og Brook, 2007) þar sem

    sjónvarpsáhorf unglinga var kannað kom einnig í ljós að unglingar sem vörðu meiri tíma

    í að horfa á sjónvarp áttu töluvert erfiðara með einbeitingu þegar þau urðu eldri, auk

    þess sem skjátíminn tók tíma frá þeim sem þau hefðu annars getað nýtt í lærdóm eða

    lestur sér til ánægju, sem svo kom niður á námsárangri. Samræmi virðist því vera í

    niðurstöðum rannsókna þegar skjátími er rannsakaður og tengsl hans við þessa þætti

    könnuð. Of mikill skjátími (˃2 klukkustundir á dag) virðist taka tíma frá öðrum

    áhugamálum og verkefnum sem unglingar hefðu annars varið tíma í eins og hreyfingu,

    heimanám, samveru með vinum eða fjölskyldu.

    Hugsanlegar afleiðingar af miklum skjátíma unglinga hafa ekki verið rannsakaðar

    hér á landi. Þó var gerð skýrsla varðandi innleiðingu spjaldtölva í Norðlingaskóla. Það

    virtist almenn ánægja meðal kennara, foreldra og nemenda með innleiðingu spjaldtölva

    í Norðlingaskóla. Nemendur töldu þetta hjálpa sér við nám þó svo að samræmd

    könnunarpróf það ár hafi sýnt fram á annað (Sólveig Jakobsdóttir og Skúlína Hlíf

    Kjartansdóttir, 2015). Sumir foreldrar höfðu þó áhyggjur af mikilli skjánotkun barna sinna

    og var nefnt í skýrslunni að það

    „höfðu flestir áhyggjur af andlegri heilsu barna (31%), að notkun tæki tíma frá

    fjölskyldusamveru, félagslífi eða hefði slæm líkamleg áhrif (23%). Þá var í einstaka

    tilviki nefnt mögulegt ofbeldi, áreitni, einelti eða ... að notkun tæki tíma frá náminu

    (8%)“.

    (Sólveig Jakobsdóttir og Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, 2015)

  • 22

    2.3 Námsárangur

    Fjölmargir þættir geta haft áhrif á frammistöðu unglinga í námi svo sem stefna skóla,

    kennarar, kyrrseta og áhugamál. Mikil reynsla kennara og markviss stefna skóla hafa

    jákvæð tengsl við betri einkunnir hjá nemendum í stærðfræði og lestri miðað við

    einkunnir þeirra nemenda sem hafa reynslulítinn kennara og stefna skóla er ekki markviss

    (Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen, 2011; Rivkin, Hanushek og

    Kain, 2005). Þá virðist það hafa jákvæð áhrif ef kennarar hafa það fag sem þeir kenna sem

    aðalfag á sínum námsferli (Darling-Hammond, 2000). Aðrir þættir sem virðast hafa

    jákvæð áhrif á námsárangur er að nemendur séu ekki fleiri en 22 í bekk (Rivkin o.fl., 2005)

    og að sú kennsluaðferð sem kennt er í bekknum einblíni á skilning nemanda á námsefni,

    þessir þættir virðast ýta undir betri námsárangur á samræmdum prófum úr 4., 7. og 10.

    bekk (Amalía Björnsdóttir o.fl., 2011). Amalía og félagar (2011) telja að þeir skólar sem

    leggja áherslu á „forystu og stefnufestu“, þar sem skólastjórnendur setja markvissa

    skólastefnu og kennarar starfa eftir því, virðist námsárangur betri hjá 4., 7. og 10. bekk í

    samræmdum prófum miðað við aðra skóla þar sem stjórnunarhættir á borð við „stjórn

    og völd“ og „nýbreytni“ er haft að leiðarljósi .

    Hér á landi hefur spjaldtölvuvæðing í skólum rutt sér til rúms síðastliðin ár.

    Misjafnar skoðanir eru á þessari þróun þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að aukinn

    skjátími ýtir undir þætti sem hafa neikvæð áhrif á námsárangur. Peiró-Velert og félagar

    (Peiró-Velert o.fl., 2014) rannsökuðu áhrif skjátíma í frítíma þátttakenda á námsárangur

    unglinga á Spáni með spurningalista. Rannsakendur komust að því að sá hópur sem varði

    mestum tíma fyrir framan skjá (um fimm klukkustundir á dag, um 10% af úrtakinu) voru

    með lakasta námsárangurinn. Aðeins heildarskjátími tengdist við lakari námsárangur en

    ekki hvað þátttakendur voru að gera í skjátímanum.

    Fleiri rannsakendur hafa komist að svipaðri niðurstöðu – Hastings og fleiri

    (Hastings o.fl., 2009) athuguðu hvort tölvuleikjaspilun hafði áhrif á námsárangur og

    hegðun barna. Mikil tölvuleikjanotkun hjá strákum hafði neikvæð áhrif á námsárangur og

    ýtti undir neikvæða hegðun. Þeir sóttust meira í ofbeldisfulla leiki á meðan stelpur sóttust

    meira í þrautaleiki, og tíminn sem þær vörðu í þrautaleiki hafði ekki marktæk tengsl við

    neikvæða hegðun auk þess sem skjátími stelpna virtist ekki koma niður á námsárangri

    þeirra. Foreldrar stelpnanna voru mun meðvitaðri um það hvað stelpurnar voru að gera

    í skjátímanum heldur en foreldrar strákanna. Hár líkamsþyngdarstuðull virðist einnig

    tengjast námsárangri því ungmenni sem voru í ofþyngd voru líklegri til að standa sig verr

    í bóklegum og verklegum fögum en þeir sem voru í kjörþyngd (Shore o.fl., 2008) og voru

  • 23

    þeir sem stóðu sig betur í þrekprófum líklegri til að fá betri einkunnir í stærðfræði

    (Chomitz o.fl., 2008).

    Námsárangur í rannsóknum

    Námsárangur er metinn á mismunandi hátt en oft eru meðaltöl einkunna fyrir

    námsgreinar á borð við stærðfræði, lestur og tungumál notuð. Á samræmdum

    könnunarprófum hérlendis er prófað í íslensku, ensku og stærðfæði, og er algengt að

    miða við meðaltal hverrar greinar fyrir sig, hvort sem það er á milli skóla, landshluta,

    bæjarfélaga eða milli kynja (Menntamálastofnun, 2009).

    Erlendar rannsóknir hafa notað margskonar mat á námsárangri. Í rannsókn Shore

    og félaga miða þeir við GPAs (e. grade point averages) sem er meðaltal allra námsgreina

    yfir önnina og er lestur metinn sérstaklega (Shore o.fl., 2008). Í rannsókn Chomitz og

    félaga voru notaðar einkunnir úr frá MCAS (e. Massachusetts Comprehensive

    Assessment System) fyrir ensku og stærðfræði og ákváðu rannsakendur að nota bæði

    meðaltal hrárra einkunna (tölustafi) og flokkuðu niðurstöður einkunna einnig í „lokið“ og

    „ólokið“ (Chomitz o.fl., 2008).

    Peiró-Velert og félagar (2014) skiptu námsárangri í sinni rannsókn í fjóra flokka.

    Flokkur 1 voru þeir sem féllu í fleiri en þremur áföngum, í flokki 2 voru þeir sem féllu í

    einum til þremur áföngum, í flokki 3 voru þeir sem náðu öllu og höfðu einkunnir í

    meðallagi og í flokki 4 voru þeir sem náðu öllu og höfðu háar einkunnir og miðuðust

    einkunnir úr þeim prófum sem þau tóku síðastliðið skólaár (Peiró-Velert o.fl., 2014). Í

    sumum rannsóknum var ekki tekið fram hversu margir áfangar né hvaða áfangar það

    voru sem breytan námsárangur nær yfir, heldur var aðeins tilgreint hvernig

    námsárangurinn var flokkaður (Peiró-Velert o.fl., 2014; Shore o.fl., 2008). Af þessu má

    sjá að erfitt er að gera beinan samanburð á námsárangri og þáttum tengdum honum milli

    rannsókna.

    Námsárangur íslenskra unglinga – Samræmd könnunarpróf & PISA

    Samræmd könnunarpróf eru próf sem framkvæmd eru í þremur bekkjum í öllum

    grunnskólum landsins. Menntamálastofnun (Menntamálastofnun, 2009) sér um

    framkvæmd könnunarprófanna og eru þau tekin í 4., 7. og 10. bekk. Könnunarprófin eru

    samin af kennurum sem hafa reynslu af því að kenna þessum bekkjum. Fyrir 10. bekk eru

    lögð próf úr þremur greinum, stærðfræði, íslensku og ensku en í 4. og 7. bekk er lagt fyrir

  • 24

    próf úr íslensku og stærðfræði. Einkunnir úr prófunum eru normaldreifðar á bilinu 0 – 60

    og er það vegna þess, eins og kemur fram á vef Menntamálastofnunnar

    (Menntamálastofnun, 2009) að:

    „frammistaða nemenda er mismunandi eftir landshlutum, sveitarfélögum, kyni

    eða skólum, geta meðaltöl hópanna innan þessara flokka vikið frá

    heildarmeðaltali. Það sem samanburður í töflum sýnir er því innbyrðis

    samanburður á frávikum frá heildarmeðaltali“.

    Námsárangur unglinga í 10. bekk í Reykjavík virðist dala með árunum ef litið er á

    samræmd könnunarpróf síðastliðin ár. Frá árinu 2001 til 2015 hafa einkunnir nemenda í

    10. bekk í Reykjavík haft veika neikvæða fylgni (R2 er frá 0,25 – 0,33) milli próftökuára í

    öllum fögum samræmda könnunarprófa eins og sjá má á mynd 1, 2 og 3.

    Mynd 1 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í íslensku

    Mynd 1 sýnir samræmd könnunarpróf frá árinu 2001 til 2015 í íslensku. Veik neikvæð

    fylgni (R2 = 0,25) er á milli próftökuára sem segir okkur að með árunum virðist árangur

    aðeins versna. Á mynd 2 (stærðfræði) og 3 (enska) er neikvæð fylgni örlítið sterkari.

    31,1

    31,6

    31,8

    31,4

    31,9

    30,530,6

    31,331,2

    30,830,9

    31,1

    30,4

    30,9

    31,2

    R² = 0,2486

    29,5

    30,0

    30,5

    31,0

    31,5

    32,0

    2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015

    Með

    alta

    l no

    rmal

    dre

    ifð

    ra e

    inku

    nn

    a

    Próftökuár

    Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í íslensku hjá 10. bekk í Reykjavík

  • 25

    Mynd 2 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í stærðfræði

    Mynd 3 - Niðurstöður samræmda könnunarprófa í ensku

    31,631,5

    31,4

    31,631,5 31,5

    30,6

    30,9

    31,4

    31,031,1 31,1 31,1

    30,4

    31,0

    31,3

    R² = 0,3301

    29,5

    30,0

    30,5

    31,0

    31,5

    32,0

    2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015

    Með

    alta

    l no

    rmal

    dre

    ifð

    ra e

    inku

    nn

    a

    Próftökuár

    Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í stærðfræði hjá 10. bekk í Reykjavík

    32,6

    31,6

    32,132,2 32,2

    31,5

    31,030,8

    32,1

    31,8

    31,1

    31,3

    31,131,2

    31,531,6

    R² = 0,308

    29,5

    30,0

    30,5

    31,0

    31,5

    32,0

    32,5

    33,0

    2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015

    Með

    alta

    l no

    rmal

    dre

    ifð

    ra e

    inku

    nn

    a

    Próftökuár

    Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í ensku hjá 10. bekk í Reykjavík

  • 26

    Sé horft til annarra landa, bæði á Norðurlöndum og víðar má sjá að námsárangur

    íslenskra unglinga er töluvert lakari en hjá öðrum þjóðum. PISA (e. Programme for

    International Student Assessment) könnunin er alþjóðleg langtímarannsókn þar sem

    geta og hæfni nemenda sem eru að ljúka skólagöngu sinni er rannsökuð

    (Menntamálastofnun, 2016b). Rúmlega 70 þjóðir taka þátt. PISA rannsóknin er lögð fyrir

    10. bekk í öllum grunnskólum landsins á þriggja ára fresti og er hæfni og geta metin í

    lestri, náttúruvísindum og stærðfræði. Ef við miðum við aðrar Norðurlandaþjóðir og

    skoðum niðurstöður PISA kannarinnar sem fór fram 2015, kemur í ljós að lesskilningur

    unglinga á Íslandi er sá lakasti af öllum Norðurlöndum, það sama má segja um læsi í

    stærðfræði og í náttúruvísindum (Menntamálastofnun, 2017) og er Ísland töluvert undir

    meðaltal OECD þjóðanna. Í skýrslu Menntamálastofnunnar (2017) er einnig nefnt að

    nemendur á höfuðborgarsvæðinu standi sig almennt betur í þessum greinum en þeir

    nemendur sem búa í dreifbýli.

    Mynd 4 - Niðurstöður Íslands í þremur greinum í PISA könnuninni frá upphafi (Menntamálastofnun, 2017)

    Á mynd 4 má sjá niðurstöðu Íslands úr PISA könnunni frá upphafi. Sést þar hnignun hjá

    flestum árgöngum nema nemendum í 10. bekk árið 2009. Ef við miðum við niðurstöður

    PISA og á samræmdum könnunarprófum má velta því fyrir sér hvað er það sem við getum

  • 27

    bætt. Rætt er í skýrslunni að síðustu ár hafi Norðmenn, Danir og Svíar ýtt undir

    endurmenntun kennara og skólastjórnenda og bætt nám grunnskólakennara til muna,

    með því til dæmis að skylda lestur, ritun og stærðfræði í grunnmenntun kennara

    (Menntamálastofnun, 2017). Íslenskt yfirvöld brugðust einnig við og var

    Menntamálastofnun komið á laggirnar árið 2015 eftir að lög voru samþykkt á Alþingi.

    Menntamálastofnun vinnur með verkefni sem voru áður á borði Námsgagnastofnunnar,

    Námsmatsstofnunnar og mennta- og menningamálaráðuneytisins og er tilgangur

    Menntamálastofnunnar „að nemendur fái notið bestu mögulegrar menntunar“

    (Menntamálastofnun, 2016a).

    2.4 Tengsl milli hreyfingar, skjátíma og námsárangurs

    Ekki eru til margar rannsóknir sem hafa kannað þættina hreyfingu, skjátíma og

    námsárangur saman, þar sem skjátími er tiltölulega nýtt viðfangsefni. Þó hafa nokkrar

    nýlegar rannsóknir verið gerðar og eru þátttakendur þessara rannsókna flest allt börn.

    Strákar (6-8 ára) sem hreyfðu sig lítið og höfðu mikla kyrrsetu höfðu lélegra lestrarflæði

    og lakari lesskilning í 1. bekk og lélegra lestrarflæði í 2. – 3. bekk en aðrir strákar á sama

    aldri sem hreyfðu sig meira, engin marktækur munur fannst þó hjá stelpunum í tengslum

    við kyrrsetu og námsárangur (Haapala o.fl., 2016). Í nýlegri kanadískri rannsókn á 10 ára

    börnum sáust jákvæð áhrif á námsárangur meðal þeirra barna sem uppfylltu

    ráðleggingum mataræðis, svefns, hreyfingu og skjátíma jákvæð áhrif á námsárangur í

    skrift (Faught o.fl., 2017), líkamsþyngdarstuðull einn og sér virtist hinsvegar ekki hafa

    áhrif á námsárangur í skrift né hafði regluleg hreyfing ekki marktæk tengsl til betri

    námsárangurs, hvorki í skrift, lestri né stærðfræði (Faught o.fl., 2017).

    Námsárangur hjá 12 ára spænskum stúlkum og drengjum sem hreyfðu sig lítið og

    vörðu yfir 2 klst./dag í skjátíma var lakari í stærðfræði og tungumálum en meðal barna á

    sama aldri sem hreyfðu sig reglulega og uppfylltu viðmið skjátíma. Börn sem hreyfðu sig

    lítið og vörðu yfir 2 klst./dag fyrir framan skjá og voru of feit komu verst út í námsárangri

    (García-Hermoso og Marina, 2015). García-Hermoso og Marina tóku þátt í svipaðri

    rannsókn í Síle, ásamt fleirum, þar sem svipaðar niðurstöður komu í ljós (Aguilar, Vergara,

    Veásquez, Marina og García-Hermoso, 2015).

    Japönsk 12 ára börn hafa einnig gengið í gegnum svipaðar rannsóknir, þar sem

    tengsl milli þreks, líkamsþyngdarstuðuls, skjátíma og námsárangurs voru könnuð. Kom

    þá í ljós að eftir að hafa leiðrétt lifnaðarhætti á borð við skjátíma og menntun móðurs,

    þá voru þeir strákar sem stóðu sig vel á þrekprófi með betri námsárangur en þeir sem

  • 28

    stóðu sig verr á þrekprófi. Engin munur fannst hjá stelpum þegar þrekið var skoðað en

    það fannst munur þegar líkamsþyngdarstuðullinn var borinn saman við lifnaðarhætti

    (skjátími) og námsárangur, og höfðu þær stelpur sem voru í offitu lakari námsárangur en

    þær sem voru undir offitu (Morita o.fl., 2016).

    Hjá unglingum og ungmennum um og yfir tvítugt hefur hreyfing og skjátími ekki verið

    rannsakað með tilliti til námsárangurs svo ritgerðarhöfundur viti til, en hreyfing og

    skjátími hafa þó verið rannsakaðir í sitthvoru lagi í tengslum við námsárangur eins og

    kemur fram í köflum tengt hreyfingu og skjátíma.

    Aðrir þættir

    Fyrir sumt kyrrsetufólk er hugsunin um reglulega hreyfingu óbærileg og hefur notkun

    hreyfileikja í gegnum tölvu (e. exergames – stytting af exercise games) öðlast æ meiri

    vinsældir með tímanum, sérstaklega meðal þeirra sem eru í yfir- eða ofþyngd. Þessi leið

    virðist ná til margra til að minnka kyrrsetu og auka daglega hreyfingu, sem er skref í rétta

    átt (Staiano og Calvert, 2011). Staiano og Calvert (2011) nefndu einnig í grein sinni að

    skólar í Vestur-Virginíu fylki í Bandaríkjunum, og víðar, höfðu sett hreyfileiki í gegnum

    tölvu í námsskrána hjá sér og virtist það hafa stuðlað að bættri líkamlegri og andlegri

    heilsu og haft jákvæðari áhrif á námsárangur. Umhverfisáhrif er annar þáttur sem þarf

    að hafa í huga þegar reynt er að ýta undir aukna hreyfingu ungmenna. Sé umhverfið

    öruggt, að því leyti að ungmenni geti gengið ein heim úr skóla og verið í hverfinu þegar

    myrkva tekur þá virðast meiri líkur fyrir því að þau verji meiri tíma úti í hreyfingu, einnig

    ef leikvöllur er til staðar í hverfinu (Kopcakova o.fl., 2017). Erfitt getur þó verið að ýta

    undir hreyfingu ef umhverfið er óöruggt en samvera fjölskyldu í hreyfingu í gegnum

    tölvuleiki heima fyrir gæti þó hjálpað til að ýta undir aukna hreyfingu og lífsánægju

    (Staiano og Calvert, 2011).

    Hugmynd hefur verið um að veðurskilyrði geti haft áhrif á minni veru fyrir framan

    skjá en þegar veður er síbreytilegt. Stöðug veðurskilyrði virðast þó ekki skipta máli. Á

    Kanaríeyjum er veður mjög svipað allan ársins hring, niðurstöður fyrir skjátíma unglinga

    og hreyfingar þar eru mjög svipaðar og niðurstöður úr sambærilegum evrópskum

    rannsóknum. Samkvæmt þeim eru yfir 60% ungmenna yfir ráðlögðum viðmiðum um

    skjátíma og virðist það koma niður á hreyfingu þeirra (Serrano-Sanchez o.fl., 2011).

    Hugsanlega gætu ársíðabundin veðurskilyrði skipt máli þegar kemur að útiveru og

    hreyfingu unglinga, þar sem hækkandi sól á sumrin gæti ýtt þeim út, þó hugsanlega af

    hálfu foreldra.

  • 29

    2.5 Markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar

    Markmið rannsóknarinnar er að kanna hugsanleg tengsl milli skjátíma og hreyfingar og

    tengsl þessara tveggja þátta við námsárangur. Úrtakinu verður skipt í eftirfarandi fjóra

    hópa:

    1) Mikil hreyfing + Minni skjátími → Námsárangur

    2) Mikil hreyfing + Meiri skjátími → Námsárangur

    3) Lítil hreyfing + Minni skjátími → Námsárangur

    4) Lítil hreyfing + Meiri skjátími → Námsárangur

    Rannsóknarspurningar hljóða svo:

    1) Hafa þeir einstaklingar sem verja meiri tíma fyrir framan skjá lakari námsárangur

    en þeir sem verja minni tíma fyrir framan skjá?

    2) Hafa þeir einstaklingar sem hreyfa sig mikið betri námsárangur en þeir sem hreyfa

    sig lítið?

    3) Hver eru samanlögð áhrif meiri skjátíma og lítillar hreyfingar á námsárangur,

    samanborið við minni skjátíma og mikla hreyfingu?

  • 30

    3 Aðferð

    Gögn úr þessari ritgerð voru unnin úr rannsókninni Heilsuhegðun ungra Íslendinga sem

    fór fram árið 2015. Heilsuhegðun ungra Íslendinga er megindleg þversniðsrannsókn. Eins

    og nafnið gefur til kynna var heilsufarsleg hegðun unglingana mæld með huglægum og

    hlutlægum mælitækjum. Markmið rannsóknarinnar er eins og segir á vef

    rannsóknarinnar (http://heilsuhegdun.hi.is/) að skoða stöðu og langtímabreytingar á

    heilsufari, hreyfingu, þreki og lifnaðarháttum þessara unglinga, og meta samband

    þessara þátta við heilsufarsþætti, svefn og námsárangur (Erlingur Jóhannsson o.fl.,

    2015).

    3.1 Þátttakendur

    Þátttakendur í rannsókninni voru unglingar í 10. bekk sem komu úr sex skólum í

    Reykjavík. Öllum nemendum 10. bekkjar í þessum skólum var boðin þátttaka eða 418

    einstaklingum. Alls samþykktu 301 einstaklingur að taka þátt í rannsókninni, 122 strákar

    og 179 stúlkur. Af þeim voru 259-264 einstaklingar með gild gögn þegar tekið var tillit til

    hreyfingar, skjátíma og niðurstaðna á samræmdum könnunarprófum í þessa ritgerð.

    3.2 Gagnasöfnun og úrvinnsla

    Gagnasöfnun rannsóknarinnar fór fram frá 13. apríl til 6. júní 2015. Fyrst þurftu

    þátttakendur ásamt forráðamönnum að skrifa undir upplýst samþykki og fengu

    þátttakendur kóðanúmer svo ekki væri hægt að rekja niðurstöður til einstaklinga.

    Rannsakendur keyrðu á milli skóla meðal annars með þrekhjól og voru þátttakendur

    þrekmældir í sínum skóla auk þess sem þau svöruðu spurningalista undir eftirliti

    starfsmanns rannsóknarinnar sem var til halds og trausts. Spurningalistinn samanstóð af

    spurningum tengdum bakgrunnupplýsingum, skjátíma, íþróttum og heilsurækt,

    líkamlegu ástandi og skólamálum. Hæð, þyngd og líkamsþyngdarstuðull þátttakenda var

    mæld í DXA skanna í Hjartavernd. Þau gögn sem voru notuð í þessari ritgerð voru

    niðurstöður úr DXA skanna og niðurstöður úr stærðfræði, íslensku og ensku sem þau tóku

    á samræmdum prófum í 10. bekk, auk eftirfarandi spurningum úr spurningalista:

    http://heilsuhegdun.hi.is/

  • 31

    1) Ertu karl eða kona

    o Karl

    o Kona

    2) Hver er menntun föður og móður?

    o Grunnskólapróf

    o Stúdentspróf

    o Iðn-/starfsréttindi

    o Háskólapróf

    o Önnur

    o Veit það ekki

    o Vil ekki svara

    3) Hversu margar klukkustundir á dag gerir þú eftirfalið að jafnaði á virkum

    dögum/um helgar (tvær spurningar með sömu valmöguleikum)?

    Spilar tölvuleiki

    (Ekkert, um ½ klst, 1-2 klst., 2-3 klst., 3-4 klst., 4-5 klst., meira en 5

    klst.)

    Horfir á sjónvarp, DVD, eða myndefni af netinu

    (Ekkert, um ½ klst, 1-2 klst., 2-3 klst., 3-4 klst., 4-5 klst., meira en 5

    klst.)

    Ert að vafra á netinu

    (Ekkert, um ½ klst, 1-2 klst., 2-3 klst., 3-4 klst., 4-5 klst., meira en 5

    klst.)

    Nota tölvu í annað en að vera á netinu eða spila tölvuleiki

    (Ekkert, um ½ klst, 1-2 klst., 2-3 klst., 3-4 klst., 4-5 klst., meira en 5

    klst.)

    4) Hversu oft reynir þú á þig líkamlega þannig að þú mæðist verulega eða svitnir?

    o Aldrei

    o Sjaldnar en einu sinni í viku

    o Einu sinni í viku

    o Tvisvar til þrisvar í viku

    o Fjórum til fimm sinnum í viku

  • 32

    o Svo til á hverjum degi

    5) Mér finnst ég hreyfa mig nógu mikið

    o Mjög ósammála

    o Fremur ósammála

    o Hvorki né

    o Fremur sammála

    o Mjög sammála

    6) Hversu vel eða illa telur þú þig standa í námi miðað við jafnaldra þína?

    o Mjög vel

    o Frekar vel

    o Í meðallagi

    o Frekar illa

    o Mjög illa

    7) Hvað notar þú mikinn tíma í heimavinnu, heima hjá þér á dag?

    o Þrjá klukkutíma eða meira

    o U.þ.b. tvo klukkutíma

    o U.þ.b. klukkutíma

    o Minna en hálftíma

    o Vinn aldrei heimavinnu hjá mér

    Úrvinnsla gagna

    Valmöguleikar í spurningu þrjú, bæði fyrir skjátíma á virkum dögum og um helgar, voru

    endurkóðaðir svo að svarmöguleikar voru 0 klst, ½ klst, 1½ klst, 2½ klst, 3½ klst, 4½ klst

    og yfir fimm klukkustundir. Breyturnar (spilar tölvuleiki, horfir á sjónvarp, vafrar á netinu,

    notar tölvu í annað en að vafra eða spila tölvuleiki) voru því næst lagðar saman í heildar

    skjátíma yfir alla vikuna. Þátttakendum var skipt í tvo hópa um miðgildi úrtaksins fyrir

    heildarskjátíma, sem var 5,5 klst. Svarmöguleikum í spurningu fimm var skipt upp í tvo

    flokka, m.t.t. vikulegrar tíðni á ákafri hreyfingu: meiri áköf hreyfing – 4 sinnum eða oftar

    í viku og minni áköf hreyfing – 3 sinnum í viku eða sjaldnar. Viðmið WHO voru höfð til

    hliðsjónar við þessa skiptingu og var það huglægt mat ritgerðarhöfundar að hreyfing þar

    sem þátttakandi nái verulegri mæði fjórum sinnum í viku eða oftar sé mikil hreyfing og

    ekki langt frá alþjóðlegum viðmiðum. Einnig hefur þessi skipting áður verið notuð í

  • 33

    rannsókn á íslenskum unglingum (Eiðsdóttir o.fl., 2008). Einkunnir úr samræmdum

    prófum komu frá Menntamálastofnun (Menntamálastofnun, 2009) og eru

    normaldreifðar á bilinu 0-60. Þegar kannað var samband skjátíma og hreyfingar við

    einkunnir á samræmdum könnunarprófum var leiðrétt fyrir breytunni „menntun móður“

    þar sem hún sýndi sterkari tengsl við námsárangur þátttakenda í þessari rannsókn en

    menntun föður. Þetta er í samræmi við fyrri rannsókn (Morita o.fl., 2016), aðrar

    rannsóknir hafa þó notað breytuna menntun foreldra sem hefur haft jákvæð tengsl við

    námsárangur (Faught o.fl., 2017; Trinh, Wong og Faulkner, 2014). Þær aðgerðir sem

    framkvæmdar voru í SPSS eru lýsandi tölfræði, tíðnitafla, fylgnitafla, einhliða

    dreifigreining, fjölbreytu dreifigreining og marktektar próf til að kanna mun milli hópa.

    Notast var við tölfræðiforritið IBM SPSS statistics 20. útgáfa og Microsoft Excel.

  • 34

    4 Niðurstöður

    Tafla 2 - lýsandi tölfræði úrtaksins fyrir hvort kyn

    Strákar Stelpur

    N (%) Meðaltal Staðalfrávik N (%) Meðaltal Staðalfrávik

    Hæð (cm) 121 178,2 5,90 177 167,0 5,76

    Þyngd (kg) 121 68,9 11,16 177 61,9 10,14

    BMI 121 21,7 3,20 177 22,2 3,20

    Lítil hreyfing 37 (31,4%) - - 75 (43,9%) - -

    Mikil hreyfing 81 (68,6%) - - 96 (56,1%) - -

    Skjátími á dag (klst)a 120 6,6 3,12 171 5,9 2,85

    Meðaleinkunn á samræmdu

    prófi

    Enska 113 32,1 9,59 166 33,4 9,57

    Íslenskab 111 31,6 9,47 166 35,0 9,57

    Stærfræði 112 32,6 9,17 162 32,6 9,97

    a. p ˂ 0,05. b. p ˂ 0,005 fyrir samanburð milli kynja

    Í töflu 2 má sjá þá þátttakendur sem höfðu svarað hreyfi- og skjátímabreytum í

    spurningalistanum. Líkamsþyngdarstuðull hjá báðum kynjum telst eðlilegur. Fleiri strákar

    hreyfðu sig fjórum sinnum eða oftar á viku (68,6%) heldur en stelpur (56,1%) og strákar

    vörðu meiri tíma fyrir framan skjá (p ˂ 0,05). Stelpur voru með betri námsárangur í

    íslensku (p ˂ 0,005) en enginn munur var á kynjum á einkunn í ensku og stærðfræði.

  • 35

    Tafla 3 - tengsl skjátíma við námsárangur

    N Meðaleinkunn Staðalfrávik

    Enska Minni skjátími

    134 33,5 10,31

    Meiri skjátími

    136 32,1 8,81

    Íslenskaa Minni skjátími

    135 35,0 10,18

    Meiri skjátími

    133 31,8 8,66

    Stærðfræðib Minni skjátími

    133 34,2 9,74

    Meiri skjátími

    132 30,8 9,26

    a. p ˂ 0,01. b. p ˂ 0,005 fyrir samanburð milli skjátíma

    Tafla 3 sýnir tengsl þeirra sem vörðu meiri eða minni tíma fyrir framan skjá við

    námsárangur. Sést þar að þeir sem vörðu meiri tíma fyrir framan skjá, miðað við þá sem

    vörðu minni tíma, höfðu marktækt lakari námsárangur í íslensku (p ˂ 0,01) og stærðfræði

    (p ˂ 0,005), auk þess voru þeir sem vörðu meiri tíma fyrir framan skjá einnig með lakari

    meðaleinkunn í ensku þó svo að engin marktækur munur hafi fundist.

    Tafla 4 - tengsl hreyfingar við námsárangur

    N Meðaltal Staðalfrávik

    Enska Lítil hreyfing 107 33,2 9,41

    Mikil hreyfing 160 32,8 9,68

    Íslenska Lítil hreyfing 104 32,7 9,98

    Mikil hreyfing 161 34,3 9,24

    Stærðfræði Lítil hreyfing 105 31,4 9,52

    Mikil hreyfing 157 33,6 9,58

    Engin munur var á námsárangri milli þeirra sem stunduðu mikla eða litla hreyfingu eins

    og sést í töflu 4. Veik tengsl (p = 0,066) fundust þó milli hópa í stærðfræði, þar sem þeir

    sem hreyfðu sig mikið voru með betri einkunn, en munurinn var ekki marktækur.

  • 36

    Tafla 5 - tengsl milli námsárangurs og hvort nemendur telja sig standa sig vel eða illa í námi

    Stærðfræði Íslenska Enska

    N Meðaltal Staðal-frávik N Meðaltal

    Staðal-frávik N Meðaltal

    Staðal-frávik

    Hversu vel eða illa telur þú þig

    standa í námi

    miðað við jafnaldra

    þína?

    Mjög vel 83 38,47 8,92 80 40,45 8,52 82 36,91 10,18

    Frekar vel 89 33,84a 7,89 90 34,89b 7,34 90 33,69 8,42

    Í meðallagi 75 27,79b 7,51 80 28,15b 7,33 80 30,13b 8,61

    Frekar illa / Mjög illa

    21 20,52b 6,30 21 21,71b 6,60 21 23,81b 5,28

    Samtals 268 32,54 9,63 271 33,52 9,60 273 32,85 9,56

    a. p = 0,001. b. p ˃ 0,001

    Þeir sem töldu sig standa sig mjög vel í námi höfðu marktækt (p ˃ 0,001, p = 0,001) betri

    einkunn en allir aðrir hópar í stærðfræði og íslensku, þeir höfðu einnig marktækt betri

    einkunn í ensku en þeir sem töldu standa sig í meðallagi og þeir sem sögðust standa sig

    frekar eða mjög illa (p = 0,001). Þeir sem töldu sig standa sig mjög vel í námi voru þó

    nokkuð yfir meðaltali úrtaksins (tafla 5) í öllum greinum. Töluvert fáir, eða tæp 8%, töldu

    sig standa sig frekar eða mjög illa í námi miðað við jafnaldra sína og námsárangur þeirra

    á samræmdum prófum var töluvert undir meðaltali í öllum greinum.

  • 37

    Tafla 6 - tengsl námsárangurs og fjöldi stunda sem nemendur lærðu heima hjá sér

    Stærðfræði Íslenska Enska

    N Meðaltal Staðal-frávik N Meðaltal

    Staðal-frávik N Meðaltal

    Staðal-frávik

    Hvað notar þú mikinn tíma í heimavinnu, heima hjá þér á dag?

    Þrjár klst eða lengur

    12 36,08c 8,22 12 33,42 8,98 13 32,77 9,45

    U.þ.b. tvær klst

    56 32,13 10,21 57 34,42b 8,56 57 32,39 9,54

    U.þ.b. eina klst

    100 31,71 9,12 98 33,08 9,52 99 32,70 9,78

    Minna er hálftíma

    80 34,65a 9,41 83 34,89a 9,82 82 33,91 9,33

    Vinn aldrei heimavinnu heima hjá mér

    20 27,25 10,01 21 27,76 10,67 22 30,86 9,87

    Samtals 268 32,54 9,63 271 33,52 9,60 273 32,85 9,56

    a. p ˂ 0,05. b. p = 0,05. c. p ˂ 0,005

    Í töflu 6 má sjá að þeir sem sögðust aldrei læra heima hjá sér höfðu lakari námsárangur í

    öllum greinum. Þeir sem lærðu aldrei heima hjá sér voru með marktækt lakari

    námsárangur í stærðfræði miðað við þá hópa sem lærðu í þrjár klukkustundir eða lengur

    (p ˂ 0,005) og sem lærðu í minna en hálftíma heima hjá sér (p ˂ 0,05). Í íslensku voru þeir

    sem lærðu aldrei heima hjá sér með marktækt lakari námsárangur í íslensku miðað þá

    sem lærðu í um það bil tvær klukkustundir heima hjá sér (p = 0,05) og þá sem lærðu í

    minna en hálftíma heima hjá sér (p ˂ 0,05).

  • 3

    Tafla 7 - fylgnitafla sem sýnir tengsl milli ýmissa breyta

    Þeir sem hreyfa

    sig mikið eða lítið

    Mér finnst ég hreyfa mig nógu

    mikið

    Skjátími minni / meiri

    Menntun föður

    Menntun móður

    Hversu vel/illa telur þú þig

    standa þig í námi m.v. jafnaldra

    þína?

    Hversu mikill tími

    fer í heimavinnu

    hjá þér? Enska Íslenska Stærðfræði

    Þeir sem hreyfa sig mikið eða lítið

    Pearson fylgni

    1 ,572** -,220** ,012 ,018 ,156** ,032 -,022 ,080 ,114

    Sig. (2-tailed)

    ,000 ,000 ,834 ,766 ,008 ,595 ,725 ,194 ,066

    N 289 289 285 289 289 288 287 267 265 262

    Mér finnst ég hreyfa mig nógu mikið

    Pearson fylgni

    ,572** 1 -,271** ,106 ,090 ,162** -,034 -,034 ,046 ,018

    Sig. (2-tailed)

    ,000 ,000 ,068 ,121 ,005 ,567 ,571 ,448 ,765

    N 289 301 291 301 301 294 293 279 277 274

    Skjátími minni eða meiri

    Pearson fylgni

    -,220** -,271** 1 -,004 ,003 -,185** ,027 -,068 -,166** -,175**

    Sig. (2-tailed)

    ,000 ,000 ,940 ,961 ,002 ,652 ,263 ,006 ,004

    N 285 291 291 291 291 290 289 270 268 265

    Menntun föður Pearson fylgni

    ,012 ,106 -,004 1 ,372** ,193** -,026 ,183** ,300** ,214**

    Sig. (2-tailed)

    ,834 ,068 ,940 ,000 ,001 ,657 ,002 ,000 ,000

    N 289 301 291 301 301 294 293 279 277 274

  • 4

    Menntun móður Pearson fylgni

    ,018 ,090 ,003 ,372** 1 ,284** ,044 ,296** ,326** ,333**

    Sig. (2-tailed)

    ,766 ,121 ,961 ,000 ,000 ,457 ,000 ,000 ,000

    N 289 301 291 301 301 294 293 279 277 274

    Hversu vel/illa telur þú þig standa þig í námi m.v. jafnaldra þína?

    Pearson fylgni

    ,156** ,162** -,185** ,193** ,284** 1 ,191** ,383** ,609** ,557**

    Sig. (2-tailed)

    ,008 ,005 ,002 ,001 ,000 ,001 ,000 ,000 ,000

    N 288 294 290 294 294 294 293 273 271 268

    Hversu mikill tími fer í heimavinnu hjá þér?

    Pearson fylgni

    ,032 -,034 ,027 -,026 ,044 ,191** 1 -,011 ,069 ,041

    Sig. (2-tailed)

    ,595 ,567 ,652 ,657 ,457 ,001 ,858 ,258 ,500

    N 287 293 289 293 293 293 293 273 271 268

    Enska Pearson fylgni

    -,022 -,034 -,068 ,183** ,296** ,383** -,011 1 ,691** ,642**

    Sig. (2-tailed)

    ,725 ,571 ,263 ,002 ,000 ,000 ,858 ,000 ,000

    N 267 279 270 279 279 273 273 279 273 271

    Íslenska Pearson fylgni

    ,080 ,046 -,166** ,300** ,326** ,609** ,069 ,691** 1 ,700**

    Sig. (2-tailed)

    ,194 ,448 ,006 ,000 ,000 ,000 ,258 ,000 ,000

    N 265 277 268 277 277 271 271 273 277 268

    Stærðfræði Pearson fylgni

    ,114 ,018 -,175** ,214** ,333** ,557** ,041 ,642** ,700** 1

    Sig. (2-tailed)

    ,066 ,765 ,004 ,000 ,000 ,000 ,500 ,000 ,000

    N 262 274 265 274 274 268 268 271 268 274

    **. Fylgnin er marktæk við 0,01 mörkin (tvíhliða próf)

  • 3

    Í töflu 8 má sjá fylgni milli helstu breyta sem notaðar eru í þessari meistararitgerð. Góð

    fylgni er á milli þeirra sem töldu sig hreyfa sig nógu mikið og þeirra sem hreyfðu sig mikið

    (≥4 á viku, r = 0,572). Neikvæð fylgni var milli þess að telja sig hreyfa sig nógu mikið og

    skjátíma (r = -0,220, p ˂ 0,001). Menntun beggja foreldra höfðu jákvæða fylgni við allar

    námsgreinar, menntun móður hafði aðeins sterkari jákvæð tengsl heldur en menntun

    föðurs, sérstaklega í ensku og stærðfræði. Þeir sem töldu sig standa sig vel/illa í námi

    miðað við jafnaldra sína höfðu sterk jákvæð tengsl við allar námsgreinar, sérstaklega í

    íslensku (r = 0,609, p ˂ 0,001). Sterk jákvæð tengsl eru á milli einkunna allra námsgreina

    og virðast því einkunnir þátttakenda haldast í hendur.

    4.4 Samspil hreyfingar, skjátíma og námsárangurs

    Tafla 8 - meðaltal einkunna á samræmdum könnunarprófum eftir hreyfingu og skjátíma

    N Meðaltal

    einkunna (a) Staðalfrávik

    95% Öryggisbil

    Lægsta einkunn

    Hæsta einkunn

    Neðri mörk

    Efri mörk

    Enska

    Lítil hreyfing og minni skjátími 37 35,57 (35,65) 10,09 32,20 38,93 18 56

    Lítil hreyfing og meiri skjátími 68 31,79 (32,39) 8,93 29,63 33,95 17 54

    Mikil hreyfing og minni skjátími

    94 32,65 (33,04) 10,32 30,53 34,76 10 59

    Mikil hreyfing og meiri skjátími

    65 32,85 (32,33) 8,78 30,67 35,02 9 50

    Samtals 264 32,89 (33,35) 9,59 31,72 34,05 9 59

    Íslenska

    Lítil hreyfing og minni skjátími 36 35,83b (32,99) 10,64 32,23 39,43 7 55

    Lítil hreyfing og meiri skjátími 66 30,62bc (30,60d) 8,96 28,42 32,82 12 53

    Mikil hreyfing og minni skjátími

    96 34,74c (35,04d) 10,03 32,71 36,77 3 57

    Mikil hreyfing og meiri skjátími

    64 33,52 (31,67) 8,00 31,52 35,51 15 53

    Samtals 262 33,55 (32,57) 9,52 32,40 34,71 3 57

    Stærðfræði

    Lítil hreyfing og minni skjátími 36 33,17 (35,79c) 9,22 30,05 36,29 11 48

    Lítil hreyfing og meiri skjátími 67 30,16b (30,80cd) 9,49 27,85 32,48 15 53

    Mikil hreyfing og minni skjátími

    94 34,81b (35,22d) 9,94 32,77 36,85 6 58

    Mikil hreyfing og meiri skjátími

    62 31,95 (33,17) 8,88 29,70 34,21 15 55

    Samtals 259 32,69 (33,74) 9,61 31,52 33,87 6 58

    a. Meðaltal einkunna hefur verið leiðrétt með háskólamenntun móður

  • 4

    b. p ˂ 0,05. c. p ˂ 0,05. d. p ˂ 0,05 fyrir samanburð milli hópa og meðaltal einkunna í námsgreinum

    Tafla 8 sýnir meðaltal einkunna á samræmdum könnunarprófum milli hópa. Hópurinn

    sem stundaði litla hreyfingu og varði meiri tíma fyrir framan skjá var undir meðaltali í

    öllum námsgreinum, sé ekki tekið tillit til háskólamenntun móður. Báðir hópar sem vörðu

    minni tíma fyrir framan skjá höfðu marktækt betri námsárangur í íslensku en hópurinn

    sem hreyfði sig lítið og varði meiri tíma fyrir framan skjá (p ˂ 0,05). Sé tekið tillit til

    háskólamenntunar móður höfðu þeir sem hreyfðu sig mikið og vörðu minni tíma fyrir

    framan skjá einnig marktækt betri árangur en þeir sem hreyfðu sig lítið og vörðu miklum

    tíma fyrir framan skjá (p ˂ 0,05). Í stærðfræði var einnig marktækur munur (p ˂ 0,05) á

    milli þessara hópa, þeir sem hreyfðu sig mikið og höfðu minni skjátíma voru með

    marktækt betri námsárangur en þeir sem hreyfðu sig lítið og höfðu meiri skjátíma. Þegar

    leiðrétt hafði verið fyrir háskólamenntun móður sýndu báðir hópar sem höfðu minni

    skjátíma óháð hreyfingu marktækt betri námsárangur (p ˂ 0,05) en þeir sem hreyfðu sig

    lítið og höfðu meiri skjátíma. Enginn marktækur munur fannst milli hópa í ensku né þegar

    búið var að leiðrétta fyrir háskólamenntum móður.

    Hæsta meðaleinkunn í ensku og íslensku var hjá þeim sem stunduðu litla hreyfingu

    og höfðu minni skjátíma, fjöldi einstaklinga í þeim hóp er þó töluvert fámennari en í

    öðrum hópum. Þeir sem stunduðu mikla hreyfingu og höfðu minni skjátíma höfðu hæstu

    meðaleinkunn í stærðfræði. Eftir að leiðrétt hafði verið fyrir háskólamenntun móður,

    voru þeir sem stunduðu litla hreyfingu og höfðu minni skjátíma með hæstu

    meðaleinkunn í ensku og stærðfræði en þeir sem stunduðu mikla hreyfingu og höfðu

    minni skjátíma höfðu hæstu meðaleinkunn í íslensku.

  • 5

    5 Umræða

    Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort hreyfing, skjátími og samsett áhrif

    hreyfingar og skjátíma væru tengd námsárangri íslenskra unglinga í 10. bekk á

    samræmdum könnunarprófum í íslensku, ensku og stærðfræði. Niðurstöður benda til

    þess að þeir einstaklingar sem vörðu meiri tíma fyrir framan skjá, óháð hreyfingu, höfðu

    lakari námsárangur í öllum greinum en þeir sem vörðu minni tíma fyrir framan skjá,

    marktækur munur fannst í stærðfræði og íslensku. Engin marktækur munur á

    námsárangri fannst milli þeirra sem hreyfðu sig mikið eða lítið. Þeir sem hreyfðu sig

    minna höfðu þó ögn lakari námsárangur en þeir sem hreyfðu sig mikið í íslensku og

    stærðfræði, ekki í ensku.

    Þegar samanlögð áhrif hreyfingar og skjátíma voru skoðuð sást að hópurinn sem

    hreyfði sig meira og hafði minni skjátíma var með marktækt betri námsárangur í íslensku

    og stærðfræði miðað við hópinn sem hreyfði sig lítið og hafði meiri skjátíma, enginn

    marktækur munur var á þessum hópum í ensku. Þeir sem hreyfðu sig mikið og höfðu

    minni skjátíma höfðu einnig betri meðaleinkunn miðað við þá sem hreyfðu sig lítið og

    höfðu meiri skjátíma. Það sama má segja eftir að leiðrétt hafði verið fyrir

    háskólamenntun móður – þeir sem hreyfðu sig meira og höfðu minni skjátíma höfðu betri

    meðaleinkunn í öllum fögum og fannst marktækur munur í íslensku og stærfræði miðað

    við þá sem hreyfðu sig lítið og höfðu meiri sk